Þriðja smámyntin finnst við lækjarsprænu í Hlíðarfjalli

28.09. 2019.

Grenndargralið hefur á undanförnum misserum skýrt frá fundi tveggja smámynta við rætur Hlíðarfjalls, á slóðum setuliðsmanna á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Varðveislumenn minjanna fundu þriðju smámyntina í dag, 5 aura pening, sleginn árið 1931.

Myntirnar tvær sem komu í leitirnar í sumar fundust nálægt hvorri annarri á stað í fjallinu þar sem herinn hafði bækistöðvar meðan stórskotaliðsæfingar fóru þar fram. Það sem er óvenjulegt við fund dagsins er staðsetningin. Peningurinn fannst við lækjarsprænu nálægt bækistöðvunum en þó ekki innan þess svæðis sem flestar minjarnar hafa fundist. Kannski enn ein vísbendingin um hið víðfeðma svæði sem herinn lagði undir sig ofan Akureyrar á stríðsárunum.

Annað sem vakti athygli var fundur tveggja skothylkja neðarlega í hlíðinni nálægt skíðahótelinu. Fyrr í sumar fannst skothylki á þessum slóðum þar sem það lá makindalega á jörðinni eins og því hafi verið komið haganlega fyrir eða einhver göngumaðurinn misst það úr malpokanum sínum á leið niður úr fjallgöngu. Leiðangur dagsins tekur af allan vafa um það að skothylkin hafa legið þarna um langt skeið því önnur patrónan var að miklu leyti neðanjarðar, aðeins efsti hlutinn stóð upp úr jörðinni.

Meðal minja sem varðveislumenn höfðu með sér til byggða í dag voru fleiri skothylki, glerbrot, járnstykki og forláta keðja. Nú styttist í snjóalög í hlíðum Hlíðarfjalls. Ljóst er að næsta vor bíður varðveislumanna minjanna vinna við að bjarga gersemum úr sögu og menningu heimabyggðar eftir frostlyftingar vetrarins. Öruggt má telja að ekki sé allt komið fram. Þetta skilar sér þó allt til baka á endanum.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd