Grenndargralið á haustráðstefnu KSA og SKAUST

Grenndargralið tók þátt í haustráðstefnu Kennarasambands Austurlands (KSA) og Skólastjórafélags Austurlands (SKAUST) föstudaginn 13. september síðastliðinn. Tilefni heimsóknarinnar var kynning á Leitinni að Grenndargralinu fyrir grunnskólakennara og skólastjóra á Austurlandi.

Mikill fjöldi skólafólks var samankominn í blíðunni á Egilsstöðum en ráðstefnan fór fram í Egilsstaðaskóla. Fyrir hádegi voru aðalerindi í aðalsal skólans og málstofur seinni partinn í kennslustofum.

Undirritaður, sem hafði veg og vanda af Leitinni fyrir grunnskólanemendur á Akureyri á árunum 2008-2017, sagði frá upphafi verkefnisins, þróun þess og möguleikum við grenndarkennslu. Góður rómur var gerður að Leitinni og lýstu kennarar yfir áhuga á að nýta sér fyrirkomulag hennar við grenndarkennslu.

Gaman var að hitta kennara á Austurlandi og finna fyrir áhuga þeirra á hugmyndafræði Leitarinnar að Grenndargralinu. Ekki síst þótti mér gaman að hitta Viðar Jónsson, gamlan félaga frá árunum í Kennaraháskólanum og Baldur Þór Finnsson gamlan umsjónarnemanda úr Giljaskóla sem nú kennir við Grunnskóla Reyðarfjarðar. Kærar þakkir fyrir góðar móttökur Egisstaðaskóli.

Brynjar Karl Óttarsson.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd