Nemendur Hrafnagilsskóla fræðast um Kristneshæli
Brynjar Karl Óttarsson, höfundur bókanna Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli og Lífið í Kristnesþorpi sem Grenndargralið gaf út árin 2016 og 2017 heimsótti Hrafnagilsskóla á dögunum. Tilefni heimsóknarinnar er þemaverkefni sem nemendur í 8. – 10. bekk vinna að þessa dagana í tengslum við sögu Kristneshælis og líf vistmanna á Hælinu á ,,berklatímanum”.
Brynjar fræddi krakkana um berklana, aðdragandann að byggingu Kristneshælis, líf vistmanna og endalok Hælisins sem berklahælis. Sögustundin markaði upphaf verkefnisins sem kennarar krakkanna hafa undirbúið um nokkurt skeið. Munu krakkarnir m.a. búa til líkan af hælisbyggingunni og heimsækja Hælið – setur um sögu berklanna svo eitthvað sé nefnt.
Krakkarnir voru einstaklega áhugasamir um sögurnar hans Brynjars og spenntir fyrir því að halda áfram að kynnast þessari miklu sögu úr heimabyggð. Meðfylgjandi myndir tók Páll Þ. Pálsson kennari í Hrafnagilsskóla.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd