main image

Sprengjusérfræðingar við hættumat í Hlíðarfjalli

30. 09. 2019. Í gær fann Grenndargralið torkennilegan hlut í hlíðinni ofan skíðahótelsins í Hlíðarfjalli sem minnti á framhluta sprengju. Myndir voru teknar á vettvangi en hluturinn látinn afskiptalaus með öllu ef ske kynni að um virka sprengju væri að ræða.

Herði Geirssyni, sérlegum ráðgjafa Grenndargralsins um stríðsminjar, var tilkynnt um fundinn. Eftir að hafa skoðað mynd af hlutnum hafði Hörður samband við sprengjusérfræðing hjá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sem var staddur á Akureyri. Ekki var hægt að meta aðstæður á staðnum hættulausar og var því mat hans að rétt væri að kanna vettvanginn nánar.

Í dag héldu tveir sprengjusérfræðingar frá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar upp fjallið í fylgd Grenndargralsins og Lögreglunnar til móts við hinn dularfulla hlut. Eftir að sérfræðingarnir höfðu grafið varlega frá hlutnum og ráðið ráðum sínum lá niðurstaða fyrir. Kveikibúnaður fyrir sprengikúlu úr loftvarnarbyssu frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar, óvirkur og engin hætta á ferð.

Mat sprengjusérfræðinganna var að líklegast væri sjálf sprengikúlan í grennd við þann stað þar sem kveikibúnaðurinn fannst. Hún gæti þó hafa grafið sig niður í jörðina þegar hún skall niður. Að sögn sérfræðinganna voru sprengjur sem þessar með tímastilli. Hægt var að reikna út tímann sem það tók sprengjuna að svífa og stilla hana þannig að hún springi á ákveðnum tíma eftir flugtak.

 

Sprengjusérfræðingarnir gerðu kveikibúnaðinn upptækan en þeir munu hafa hann með sér suður yfir heiðar. Þar munu þeir yfirfara hann frekar áður en „varðveislumenn minjanna“ fá hann í safn stríðsminjanna sem þeir hafa safnað saman í sumar við rætur Hlíðarfjalls.

Á leið niður hlíðina komu sprengjusérfræðingarnir auga á gýg sem þeir töldu af ummerkjum að dæma að væri eftir sprengju frá seinni heimsstyrjöldinni. Þeir skoðuðu hann og töldu að áhugavert gæti orðið að renna yfir hann með málmleitartæki. Sennilega myndi þó tækið væla meira og minna allan tímann í hlíðunum ofan skíðahótelsins vegna fjölda mögulegra sprengjubrota á víð og dreif á svæðinu eftir setuliðið. Mest eru það hættulausir gripir sem engum stafar hætta af. Ljóst er þó að fara skal að öllu með gát þegar gengið er á slóðum setuliðsmanna þar sem sprengju- og skotæfingar fóru fram og torkennilegir hlutir finnast á göngunni. Virkar sprengjur finnast enn í jörðu vítt og breitt um landið.

Þriðja smámyntin finnst við lækjarsprænu í Hlíðarfjalli

28.09. 2019.

Grenndargralið hefur á undanförnum misserum skýrt frá fundi tveggja smámynta við rætur Hlíðarfjalls, á slóðum setuliðsmanna á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Varðveislumenn minjanna fundu þriðju smámyntina í dag, 5 aura pening, sleginn árið 1931.

Myntirnar tvær sem komu í leitirnar í sumar fundust nálægt hvorri annarri á stað í fjallinu þar sem herinn hafði bækistöðvar meðan stórskotaliðsæfingar fóru þar fram. Það sem er óvenjulegt við fund dagsins er staðsetningin. Peningurinn fannst við lækjarsprænu nálægt bækistöðvunum en þó ekki innan þess svæðis sem flestar minjarnar hafa fundist. Kannski enn ein vísbendingin um hið víðfeðma svæði sem herinn lagði undir sig ofan Akureyrar á stríðsárunum.

Annað sem vakti athygli var fundur tveggja skothylkja neðarlega í hlíðinni nálægt skíðahótelinu. Fyrr í sumar fannst skothylki á þessum slóðum þar sem það lá makindalega á jörðinni eins og því hafi verið komið haganlega fyrir eða einhver göngumaðurinn misst það úr malpokanum sínum á leið niður úr fjallgöngu. Leiðangur dagsins tekur af allan vafa um það að skothylkin hafa legið þarna um langt skeið því önnur patrónan var að miklu leyti neðanjarðar, aðeins efsti hlutinn stóð upp úr jörðinni.

Meðal minja sem varðveislumenn höfðu með sér til byggða í dag voru fleiri skothylki, glerbrot, járnstykki og forláta keðja. Nú styttist í snjóalög í hlíðum Hlíðarfjalls. Ljóst er að næsta vor bíður varðveislumanna minjanna vinna við að bjarga gersemum úr sögu og menningu heimabyggðar eftir frostlyftingar vetrarins. Öruggt má telja að ekki sé allt komið fram. Þetta skilar sér þó allt til baka á endanum.

Býr Hlíðarfjall yfir ævafornu leyndarmáli?

Grenndargralið hefur í sumar greint frá fundi stríðsminja við rætur Hlíðarfjalls og varðveislu þeirra. Óhætt er að segja að sagan af stríðsminjunum í Hlíðarfjalli haldi áfram að vinda upp á sig.

Við nánari athugun í fjallinu hafa komið fram vísbendingar um athafnir manna á svæðinu sem um ræðir, mun fyrr en á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Er nú til athugunar hvort jafnvel megi rekja aðstæður á vettvangi til járnvinnslu fyrri alda.

Enn sem komið er verða allar slíkar hugmyndir að teljast vangaveltur einar. Ljóst er þó að rannsókna á svæðinu er þörf. Ekki eru öll kurl komin til grafar. Grenndargralið mun fylgja málinu allt til enda.

Leiðangur til bjargar stríðsminjum í Hlíðarfjalli

Þrír leiðangursmenn á vegum Grenndargralsins og Sagnalistar, þeir Arnar Birgir Ólafsson, Brynjar Karl Óttarsson og Níels Ómarsson, hafa lokið störfum í haust við að bjarga stríðsminjum frá seinni heimsstyrjöldinni úr hlíðum Hlíðarfjalls. Þeir félagar lögðu af stað í leiðangur fimmtudaginn 19. september, vopnaðir myndavélum, korti, skóflu og öðrum verkfærum, bakpokum og sérútbúnum kössum fyrir smáhluti og ýmsa viðkvæmari muni. Að höfðu samráði við Minjastofnun og Minjasafnið á Akureyri var ákveðið að koma minjunum sem Brynjar fann fyrr í sumar í öruggt skjól, með varðveislu í huga.

Mikið magn smámuna fannst í leiðangrinum sem nú bætist við þá sem áður höfðu komið fram í dagsljósið. Myndin af dvöl setuliðsmannanna við rætur Hlíðarfjalls skýrist smám saman með nýjum munum og svæðið þrengist. Þó er mörgum spurningum ennþá ósvarað. Leiðangurinn fann t.a.m. skothylki á mun stærra svæði en fyrri leiðangrar. Þónokkur hylki fundust hátt upp í sjálfri fjallshlíðinni, töluvert ofan við þann stað sem flest hylkin hafa hingað til fundist á. Þá vekur mikill fjöldi kolamola og grófra hraunmola sem líta út eins og úrgangur úr bræddu málmgrýti vítt og breytt um svæðið upp spurningar.

Aðstæður til leitar voru góðar, talsverður lofthiti, þurrt og bjart. Eftir rúmlega fjögurra klukkustunda leit og kaffipásu var haldið af stað niður hlíðina með stríðsgóssið. Athygli vakti að á niðurleið fannst skothylki steinsnar frá skíðahótelinu.

Nú á aðeins eftir að stilla mununum upp, flokka þá, mynda og skrá áður en þeim verður komið fyrir í geymslu. Hvað verður um þá eftir það getur tíminn einn leitt í ljós.

Er Kristneshæli vettvangur glæpsins?

 

Í október kemur út ný bók eftir rithöfundinn Ragnar Jónasson. Bókin ber nafnið Hvítidauði og fjallar hún um morð á tveimur starfsmönnum á berklahæli rétt innan við Akureyri árið 1983. Þremur áratugum síðar rannsakar ungur afbrotafræðingur málið og kemur þá ýmislegt óvænt í ljós.

Enn sem komið er fást litlar fréttir af bókinni. Gaman verður að fylgjast með framvindunni og heyra frá höfundi hver sé kveikjan að söguþræði og sögusviði bókarinnar.

Morð á Kristneshæli hljómar spennandi lesning yfir heitum kakóbolla á aðventunni.

 

Önnur gömul smámynt finnst í Hlíðarfjalli

Grenndargralið sagði í ágúst frá fundi stríðsminja við rætur Hlíðarfjalls. Áhugaverðir munir fundust svo sem skothylki, leifar af sprengjum, flöskur, eldhúsáhöld o.fl.

Einn hlutur skar sig nokkuð úr en það er gömul íslensk mynt sem sennilega er slegin árið 1926. Peningurinn (2 aurar) lá á miðjum sléttum steini, eins og honum hafi verið komið þar haganlega fyrir líklegast fyrir tæpum 80 árum síðan.

Í rannsóknarleiðangri sem farinn var nú á dögunum á slóðir setuliðsins fannst önnur gömul smámynt. Peningurinn er nokkuð minni en sá sem fannst fyrr í sumar. Um er að ræða 10 aura en erfitt er að sjá hvaða ár myntin er slegin vegna þess hversu máð bakhliðin er.

Athyglisvert er að aurarnir tíu fundust aðeins nokkrum sentimetrum frá þeim stað sem fyrri myntin fannst í sumar. Vegna erfiðra veðurskilyrða reyndist ekki mögulegt að rannsaka svæðið nánar þar sem peningarnir tveir fundust. Án nokkurs vafa fer Grenndargralið á stúfana þegar tækifæri gefst. Hver veit nema meira klink eða aðrar gersemar úr eigu setuliðsmanna leynist í hlíðum Hlíðarfjalls?

Grenndargralið á haustráðstefnu KSA og SKAUST

Grenndargralið tók þátt í haustráðstefnu Kennarasambands Austurlands (KSA) og Skólastjórafélags Austurlands (SKAUST) föstudaginn 13. september síðastliðinn. Tilefni heimsóknarinnar var kynning á Leitinni að Grenndargralinu fyrir grunnskólakennara og skólastjóra á Austurlandi.

Mikill fjöldi skólafólks var samankominn í blíðunni á Egilsstöðum en ráðstefnan fór fram í Egilsstaðaskóla. Fyrir hádegi voru aðalerindi í aðalsal skólans og málstofur seinni partinn í kennslustofum.

Undirritaður, sem hafði veg og vanda af Leitinni fyrir grunnskólanemendur á Akureyri á árunum 2008-2017, sagði frá upphafi verkefnisins, þróun þess og möguleikum við grenndarkennslu. Góður rómur var gerður að Leitinni og lýstu kennarar yfir áhuga á að nýta sér fyrirkomulag hennar við grenndarkennslu.

Gaman var að hitta kennara á Austurlandi og finna fyrir áhuga þeirra á hugmyndafræði Leitarinnar að Grenndargralinu. Ekki síst þótti mér gaman að hitta Viðar Jónsson, gamlan félaga frá árunum í Kennaraháskólanum og Baldur Þór Finnsson gamlan umsjónarnemanda úr Giljaskóla sem nú kennir við Grunnskóla Reyðarfjarðar. Kærar þakkir fyrir góðar móttökur Egisstaðaskóli.

Brynjar Karl Óttarsson.

Nemendur Hrafnagilsskóla fræðast um Kristneshæli

Brynjar Karl Óttarsson, höfundur bókanna Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli og Lífið í Kristnesþorpi sem Grenndargralið gaf út árin 2016 og 2017 heimsótti Hrafnagilsskóla á dögunum. Tilefni heimsóknarinnar er þemaverkefni sem nemendur í 8. – 10. bekk vinna að þessa dagana í tengslum við sögu Kristneshælis og líf vistmanna á Hælinu á ,,berklatímanum”. 

Brynjar fræddi krakkana um berklana, aðdragandann að byggingu Kristneshælis, líf vistmanna og endalok Hælisins sem berklahælis. Sögustundin markaði upphaf verkefnisins sem kennarar krakkanna hafa undirbúið um nokkurt skeið. Munu krakkarnir m.a. búa til líkan af hælisbyggingunni og heimsækja Hælið – setur um sögu berklanna svo eitthvað sé nefnt.

Krakkarnir voru einstaklega áhugasamir um sögurnar hans Brynjars og spenntir fyrir því að halda áfram að kynnast þessari miklu sögu úr heimabyggð. Meðfylgjandi myndir tók Páll Þ. Pálsson kennari í Hrafnagilsskóla.