100 ára gömul jólahugvekja talar til þín

Minningar margra jóla mætast í dag.

   Þetta stóð á einu brjefspjaldi, sem mjer var sent um jól. Mjer varð oftar en einusinni starsýnt á þessar línur, aðfangadagskvöldið það. Jeg fór að rifja upp hugsanir mínar og hvernig mjer hefði liðið ýms undanfarin jól. — Jólin geta verið svo margvísleg. — Stundum höfum við þá verið veik, eða staðið við sjúkrabeð eða dánarbeð vina okkar, stundum fjarri ættingjum og heimilum og pínst af heimþrá, stundum verið í miklu fjölmenni, stundum of einmana, — stundum glöð, stundum hrygg.  —

   En altaf höfum við reynt að setja einhvern jólablæ á umhverfið. Altaf hafa komið fram á varir okkar þá daga þessi sömu orð: Gleðileg jól! Hvar, sem menn mætast, er þetta ávarp á allra vörum. Það er skrifað, prentað eða skrautritað á hvert jólakort. Það blasir við okkur í auglýsingum blaðanna.

GLEÐILEG JÓL!

En finst ykkur það ekki stundum varhugavert, þegar sumt það besta, sem mannssálin geymir og fegurstu orðin sem komið geta fram á varir mannanna, þegar það alt verður næstum hljómlaust, bragðlaust, andlaust, — ekkert nema venja. Það verður svo oft, — því miður. Gleðileg jól! Aðeins að við gætum altaf sagt þessi orð þannig, að þau væru þrungin af sál, af andríki og af ástúð. Ef friður og hátíðablær jólanna fylti hug okkar allan, ef sál okkar væri á þeim augnablikum lognblíð lá, ljósanna föður skuggasjá, þá gæti líka hjartnæm ósk um góð og gleðileg jól risið eins og heit bylgja á hyldýpi hugans, liðið sem öflugur, hlýr straumur inn í hugskot vina okkar bæði nær og fjær.

   Það er oft gaman að fá sendibrjef, hamingjuósk, símskeyti, loftskeyti o. s. frv., en alt er það kalt og dautt, ef þessar bylgjur hugans rísa ekki á bak við og gefa því líf. Áreiðanlega verða þau, hugskeytin, tryggustu sambandsskeyti framtíðarinnar, skeytin sem okkur þyrstir mest eftir. Og áreiðanlega eru það hræringarnar í djúpi hugans, sem gefa öllu, sem umhverfis okkur er, sitt gildi. Það eru þær, þær einar, sem geta gert jólin gleðileg jól.              

   Viðhöfnin, skrautið, ljósadýrðin, jólagjafirnar, söngurinn, gleðskapurinn, kræsingarnar, jólasumblið alt, þessa getum við alls notið í ríkum mæli, en þó fari jólin framhjá, án þess að hræra nokkurn viðkvæman streng í hjörtum okkar, án þess að vera sönn jól. Sál okkar er samt ósnortin. Jeg veit það vel, að öll viðhöfnin og hátíðabrigðin á jólunum á að vera vegur til mannshjartans til að leiða þangað sannan jólafögnuð, fagrar jólahugsanir. En tekst það nú æfinlega? Verður það ekki stundum vegur fyrir alt aðrar hugsanir? Vekur það ekki upp ýms áhyggjuefni, margvíslegt umstang, sem stundum skilur lítið eftir, nema þreytu og sljóleika.              

   Einhver mesti kennimaður þessa lands byrjaði einu sinni jólaræðu sína eitthvað á þessa leið: „Ef við ættum vog, sem við gætum mælt með fagnaðartitring mannlegs hjarta, þá fyndum við hversu óumræðanlegan fögnuð boðskapur jólanna hefir vakið í brjóstum mannanna, kynslóð eftir kynslóð, nú í 19 aldir.“              

   Það er þessi fagnaðartitringur mannlegs hjarta, sem er insti kjarni jólanna. Þar sem hann býr, þar eru jól. Hafi hann ekkert snortið okkur höfum við ekki lifað nein jól. Og ef þú hefir glatt einhvern á jólunum þá er það þannig, að þjer hefir tekist að leiða þennan fagnaðartitring inn í sál hans. Á annan hátt er ekki hægt að gleðja á jólunum.              

   „Hvernig hefir þú skemt þjer um jólin?“ spyrja menn venjulega að aflíðandi jólum. En samviskuspurning hvers og eins, til sjálfs sín, ætti að vera eitthvað á þá leið, hvort fagnaðartitringur mannlegs hjarta hefði nokkurntíma gagntekið okkur um jólin. Það er enginn hjegómi. Dýpsta nautnin í lífinu, eina nautnin er þó sú, að geta orðið snortinn, hrifinn.     

         

   Jólahaldið í kaupstöðunum, veislurnar, heimboðin, dansinn, spilin og næturvökurnar á oft svo undarlega litið skilt við sanna jólagleði. Einstaka mönnum tekst þó að halda fullu jafnvægi, mitt í öllu því skvaldri. En stundum eru umræðuefnin valin svo innihaldslaus, ljettúðug og jafnvel spilt og óholl, að það eins og fennir í hug okkar yfir alt það hlýjasta, besta og næmasta, sem við eigum til í eðli okkar. En einmitt það hefði þó átt að geta sprungið út eins og blóm, sprungið út við jólaylinn og jólaljósin.               

   Ef til vill er hátíðahaldið sjálfa jóladagana í raun og veru vottur um takmörkun á okkar andlega þroska. Við erum þar að fjötra jólagleðina við vissa daga. En koma Krists í heiminn ætti að vera minnisstæð lengur en þá daga. Við þurfum altaf að eiga þau jól í sál okkar.              

   Og hvenær sem samúðaröldur frá sálum annara manna snerta okkur, hvenær sem okkur líður vel að einhverju leyti, — hvenær sem hugsunin um Krist, og þá, sem ásamt honum hafa göfgað heiminn, vekur fagnaðartitring í sál okkar, og einhver glampi af  dýrð hinnar helgu nætur leikur um hugskot vort, þá eru jól, hvað sem tímatalinu líður.              

   En hve mikill hátíðablær og viðhöfn, sem er í heimahúsum þínum og alstaðar, ef sál þín er ósnortin, þá eru engin jól. Ef þú vilt gera eitthvað vel, þá verður þú að leggja sál þína inn í það, líka inn í jólagleðina, sem þú veitir sjálfum þjer og öðrum.              

   Nú eru jólin að ganga í garð. 

Minningar margra jóla mætast í dag.

   Ýmsra jóla, sem hafa auðgað okkur, og annara, sem hafa skilið okkur eftir jafn snauð og við vorum. Jólahaldið í þetta sinn verður eigi síður margvíslegt. Kjörin eru svo margháttuð og hugarþel okkar svo ólíkt. Víða á landi okkar, eigi hvað síst í höfuðstaðnum, eru nú svo mörg opin sár og blæðandi, sem koma jólanna gerir máske enn tilfinnanlegri. Það er svo víða skarð í vinahópinn, sem enn síður getur dulist, þegar búið er að tendra jólaljósin.         

   Og út í ófriðarlöndunum vitum við, að jörðin flýtur í blóði og tárum. Það er eins og við þorum varla að trúa því, að jólin geti, nema í einstöku stað, orðið gleðileg jól. Jú, við vonum að friðarboðskapur jólanna veki hreinna bergmál og fegurra samræmi í veröldinni nú, en þessi síðustu ár. Við vonum að nú loks sje alheimsfriður í nánd. Við vonum, að þessi jól geti í anda og sannleika lýst friði yfir blóði stokkna jörðina. Þessar friðarvonir hljóta að snerta hvert mannshjarta á þessum jólum, fylla okkur þakklæti og öruggri trú á nýja tíma. 

   Þrátt fyrir alt það umliðna og öll ógróin sár, getur það, betur en öll viðhöfn, gert okkur jólin þessi gleðileg jól.

1. B.

Hugvekjan, sem bar yfirskriftina Gleðileg jól!, birtist í Degi þann 23. desember árið 1918.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd