Ó, þvílík fegurð! Ma, che bella ragazza!

Það hefur örugglega verið hvíslað á bæjum í Eyjafirði þegar kvisaðist út að Kristjana Jóhanna dóttir Gunnlaugs Briem kammerráðs á Grund hygði á utanför haustið 1823. Einhverjir hafa vafalaust talið þetta borðleggjandi enda bráðgáfuð stúlka og eðlilegt að hennar líkir vilji skoða sig um í heiminum. Aðrir hafa mögulega hrist laumulega kollinn, fundið til með Gunnlaugi að missa stúlkuna utan, sennilega fyrir fullt og allt. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að einhverjir eyfirskir sveinar hafi misst út úr sér blótsyrði enda var Kristjana Jóhanna sláandi fögur, sú fegursta í öllum firðinum. Á því lék enginn vafi.

Útgáfu á lífshlaupum kvenna byggðri á sagnfræðilegum heimildum hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár, hvort sem um er að ræða alþýðustúlkur eða þær sem tilheyrðu efri stéttum landsins. Enn hallar þó óneitanlega á konur hvað blaðsíðufjölda og útgáfu varðar. Þegar 100 ára árstíðar kosningaréttar kvenna var minnst mátti greina vaxandi áhuga á að skrásetja líf og tilveru kvenna með svokölluðum ömmusögum. Þar fóru karlar og konur í sannkallaða fjársjóðsleit. Með gull og gersemar úr fortíðinni í báðum höndum sögðu afkomendur frá, t.d. í ritröð RIKK sem bar yfirskriftina Margar myndir ömmu. Sama ár var einnig haldin ráðstefnan Ömmur fyrr og nú í Háskólanum á Akureyri.

Enn er af nógu að taka. Sögu Jóhönnu fögru hefur verið gerð eins góð skil og heimildir þá gáfu tilefni til. Saga hennar er þó miklu viðburðaríkari og merkilegri en nægilegt sé að gera henni skil í æviþætti í annars stórgóðri bók Benjamíns Kristjánssonar Eyfirðingabók I.

Jóhanna fagra hét Kristjana Jóhanna Gunnlaugsdóttir Briem. Hún fæddist árið 1805 og ólst upp á Grund í Eyjafirði. Eftir að hafa slitið barnsskónum sigldi hún til Kaupmannahafnar og átti aldrei eftir að búa á Íslandi aftur. Fegurð hennar sló samferðamenn í rot hvar sem hún drap niður fæti. Hún naut þess að búa og nema á heimili aðalsmanna í Danmörku en hélt síðar með fósturforeldrum sínum Birgi og Benedicte Thorlacius til Suður-Evrópu. Áfangastaðurinn var borgin eilífa, Róm.

Á ferðalagi sínu um meginland Evrópu hitti Jóhanna fagra helstu broddborgara þess tíma og  svikahrappa, tefldi við fyrirmenni og steig dans með aðlinum eins og henni einni var lagið. Fósturfjölskyldan fann henni fljótlega heppilegt mannsefni, auðkýfing nokkurn í París. Jóhanna fagra sá þó aðeins einn mann. Það kann kannski að koma á óvart að sá sem hneppti hjarta stúlkunnar var doktor í fornmálum. Hvort hann talaði móðurmál Jóhönnu fögru skal ósagt látið í bili en Carl Wilhelm Shütz og Jóhanna fagra gengu í hjónaband 1831 og bjuggu nær alla sína tíð í Þýskalandi.

Reisubók Jóhönnu fögru spannar spennandi en jafnframt viðsjárverða tíma í Evrópu. Samfélagsgerðin tók stakkaskiptum á 19. öld með hraðri uppbyggingu borga og iðnaðar. Rétt eins og á fyrri öldum voru konur að mestu settar hjá þrátt fyrir að spila lykilhlutverk í samfélaginu. Var Jóhanna kvenskörungur? Varla. En í brjósti hennar bjó dirfska og þor. Hún þráði meira en Ísland gat gefið henni. Ævi hennar er ævintýri líkast þar sem hún hrífur helstu lista- og stjórnmálamenn álfunnar ,,með sínum bláu augum, dásamlega hári og norrænu reisn“. Vínarvalsar og keisarahallir koma samt ekki í stað engjanna á Grund og í erilsömu og háværu borgarlífi hugsaði hún heim í Eyjafjörðinn dag hvern. 

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir. Á undanförnum fjórum árum hefur bókaútgáfa verið fyrirferðarmikil í starfsemi Gralsins. Nú þegar Grenndargralið stefnir hraðbyri í átt að nýjum áratug er ánægjulegt að segja frá því að vinna við að skoða merkilega sögu Kristjönu Jóhönnu Gunnlaugsdóttur Briem er hafin. Undirrituð grúskar nú í heimildum um þessa merkiskonu og leyfir henni að leiða sig næstu misserin frá hlaðinu á Grund til Bielefeld með viðkomu á ótal dansiböllum. Ekki er útilokað að áhugasamir um Jóhönnu fögru geti lesið sér frekar til í bók um hana að grúskinu loknu.

Framundan er spennandi leit að gersemum innanlands sem utan, brotum héðan og þaðan sem ætlunin er að raða saman í heildstæða mynd – Myndina af Jóhönnu fögru.

Hildur Hauksdóttir

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd