main image

100 ára gömul jólahugvekja talar til þín

Minningar margra jóla mætast í dag.

   Þetta stóð á einu brjefspjaldi, sem mjer var sent um jól. Mjer varð oftar en einusinni starsýnt á þessar línur, aðfangadagskvöldið það. Jeg fór að rifja upp hugsanir mínar og hvernig mjer hefði liðið ýms undanfarin jól. — Jólin geta verið svo margvísleg. — Stundum höfum við þá verið veik, eða staðið við sjúkrabeð eða dánarbeð vina okkar, stundum fjarri ættingjum og heimilum og pínst af heimþrá, stundum verið í miklu fjölmenni, stundum of einmana, — stundum glöð, stundum hrygg.  —

   En altaf höfum við reynt að setja einhvern jólablæ á umhverfið. Altaf hafa komið fram á varir okkar þá daga þessi sömu orð: Gleðileg jól! Hvar, sem menn mætast, er þetta ávarp á allra vörum. Það er skrifað, prentað eða skrautritað á hvert jólakort. Það blasir við okkur í auglýsingum blaðanna.

GLEÐILEG JÓL!

En finst ykkur það ekki stundum varhugavert, þegar sumt það besta, sem mannssálin geymir og fegurstu orðin sem komið geta fram á varir mannanna, þegar það alt verður næstum hljómlaust, bragðlaust, andlaust, — ekkert nema venja. Það verður svo oft, — því miður. Gleðileg jól! Aðeins að við gætum altaf sagt þessi orð þannig, að þau væru þrungin af sál, af andríki og af ástúð. Ef friður og hátíðablær jólanna fylti hug okkar allan, ef sál okkar væri á þeim augnablikum lognblíð lá, ljósanna föður skuggasjá, þá gæti líka hjartnæm ósk um góð og gleðileg jól risið eins og heit bylgja á hyldýpi hugans, liðið sem öflugur, hlýr straumur inn í hugskot vina okkar bæði nær og fjær.

   Það er oft gaman að fá sendibrjef, hamingjuósk, símskeyti, loftskeyti o. s. frv., en alt er það kalt og dautt, ef þessar bylgjur hugans rísa ekki á bak við og gefa því líf. Áreiðanlega verða þau, hugskeytin, tryggustu sambandsskeyti framtíðarinnar, skeytin sem okkur þyrstir mest eftir. Og áreiðanlega eru það hræringarnar í djúpi hugans, sem gefa öllu, sem umhverfis okkur er, sitt gildi. Það eru þær, þær einar, sem geta gert jólin gleðileg jól.              

   Viðhöfnin, skrautið, ljósadýrðin, jólagjafirnar, söngurinn, gleðskapurinn, kræsingarnar, jólasumblið alt, þessa getum við alls notið í ríkum mæli, en þó fari jólin framhjá, án þess að hræra nokkurn viðkvæman streng í hjörtum okkar, án þess að vera sönn jól. Sál okkar er samt ósnortin. Jeg veit það vel, að öll viðhöfnin og hátíðabrigðin á jólunum á að vera vegur til mannshjartans til að leiða þangað sannan jólafögnuð, fagrar jólahugsanir. En tekst það nú æfinlega? Verður það ekki stundum vegur fyrir alt aðrar hugsanir? Vekur það ekki upp ýms áhyggjuefni, margvíslegt umstang, sem stundum skilur lítið eftir, nema þreytu og sljóleika.              

   Einhver mesti kennimaður þessa lands byrjaði einu sinni jólaræðu sína eitthvað á þessa leið: „Ef við ættum vog, sem við gætum mælt með fagnaðartitring mannlegs hjarta, þá fyndum við hversu óumræðanlegan fögnuð boðskapur jólanna hefir vakið í brjóstum mannanna, kynslóð eftir kynslóð, nú í 19 aldir.“              

   Það er þessi fagnaðartitringur mannlegs hjarta, sem er insti kjarni jólanna. Þar sem hann býr, þar eru jól. Hafi hann ekkert snortið okkur höfum við ekki lifað nein jól. Og ef þú hefir glatt einhvern á jólunum þá er það þannig, að þjer hefir tekist að leiða þennan fagnaðartitring inn í sál hans. Á annan hátt er ekki hægt að gleðja á jólunum.              

   „Hvernig hefir þú skemt þjer um jólin?“ spyrja menn venjulega að aflíðandi jólum. En samviskuspurning hvers og eins, til sjálfs sín, ætti að vera eitthvað á þá leið, hvort fagnaðartitringur mannlegs hjarta hefði nokkurntíma gagntekið okkur um jólin. Það er enginn hjegómi. Dýpsta nautnin í lífinu, eina nautnin er þó sú, að geta orðið snortinn, hrifinn.     

         

   Jólahaldið í kaupstöðunum, veislurnar, heimboðin, dansinn, spilin og næturvökurnar á oft svo undarlega litið skilt við sanna jólagleði. Einstaka mönnum tekst þó að halda fullu jafnvægi, mitt í öllu því skvaldri. En stundum eru umræðuefnin valin svo innihaldslaus, ljettúðug og jafnvel spilt og óholl, að það eins og fennir í hug okkar yfir alt það hlýjasta, besta og næmasta, sem við eigum til í eðli okkar. En einmitt það hefði þó átt að geta sprungið út eins og blóm, sprungið út við jólaylinn og jólaljósin.               

   Ef til vill er hátíðahaldið sjálfa jóladagana í raun og veru vottur um takmörkun á okkar andlega þroska. Við erum þar að fjötra jólagleðina við vissa daga. En koma Krists í heiminn ætti að vera minnisstæð lengur en þá daga. Við þurfum altaf að eiga þau jól í sál okkar.              

   Og hvenær sem samúðaröldur frá sálum annara manna snerta okkur, hvenær sem okkur líður vel að einhverju leyti, — hvenær sem hugsunin um Krist, og þá, sem ásamt honum hafa göfgað heiminn, vekur fagnaðartitring í sál okkar, og einhver glampi af  dýrð hinnar helgu nætur leikur um hugskot vort, þá eru jól, hvað sem tímatalinu líður.              

   En hve mikill hátíðablær og viðhöfn, sem er í heimahúsum þínum og alstaðar, ef sál þín er ósnortin, þá eru engin jól. Ef þú vilt gera eitthvað vel, þá verður þú að leggja sál þína inn í það, líka inn í jólagleðina, sem þú veitir sjálfum þjer og öðrum.              

   Nú eru jólin að ganga í garð. 

Minningar margra jóla mætast í dag.

   Ýmsra jóla, sem hafa auðgað okkur, og annara, sem hafa skilið okkur eftir jafn snauð og við vorum. Jólahaldið í þetta sinn verður eigi síður margvíslegt. Kjörin eru svo margháttuð og hugarþel okkar svo ólíkt. Víða á landi okkar, eigi hvað síst í höfuðstaðnum, eru nú svo mörg opin sár og blæðandi, sem koma jólanna gerir máske enn tilfinnanlegri. Það er svo víða skarð í vinahópinn, sem enn síður getur dulist, þegar búið er að tendra jólaljósin.         

   Og út í ófriðarlöndunum vitum við, að jörðin flýtur í blóði og tárum. Það er eins og við þorum varla að trúa því, að jólin geti, nema í einstöku stað, orðið gleðileg jól. Jú, við vonum að friðarboðskapur jólanna veki hreinna bergmál og fegurra samræmi í veröldinni nú, en þessi síðustu ár. Við vonum að nú loks sje alheimsfriður í nánd. Við vonum, að þessi jól geti í anda og sannleika lýst friði yfir blóði stokkna jörðina. Þessar friðarvonir hljóta að snerta hvert mannshjarta á þessum jólum, fylla okkur þakklæti og öruggri trú á nýja tíma. 

   Þrátt fyrir alt það umliðna og öll ógróin sár, getur það, betur en öll viðhöfn, gert okkur jólin þessi gleðileg jól.

1. B.

Hugvekjan, sem bar yfirskriftina Gleðileg jól!, birtist í Degi þann 23. desember árið 1918.

,,Kveikt á jólatrjánum öll jólakvöldin”

Senn líður að jólum, hátíð ljóss og friðar. Jólin eru einnig tími samverustunda. Ekki búa allir svo vel að geta notið samvista við ástvini á jólum. Í bókinni Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli segja vistmenn frá upplifun sinni af dvöl á Hælinu um jól og áramót, fjarri fjölskyldu og vinum á tímabilinu 1927 – 1960. Ekki verður annað séð af frásögnum og opinberum gögnum um rekstur Hælisins en að ávallt hafi verið gert ráð fyrir auknum útgjöldum til að hafa ofan af fyrir vistmönnum á tyllidögum. Þannig voru afþreying, dægradvöl og góðar veitingar fastir rekstrarliðir á hátíðum á Kristneshæli allt frá upphafsárinu 1927. Og jólin voru þar engin undantekning. Grípum niður í bókina Í fjarlægð þar sem vistmenn segja frá jólahaldinu á Hælinu á sitt hvoru tímabilinu. Fyrra brotið er úr bréfi frá vistmanni til vinkonu, dagsett 28. desember 1927. Seinna brotið er dagbókarfærsla vistmanns, dagsett í desember 1956.

Ég sendi Diddu minni ögn af gottelsi. Ég hef eignast svo mikið af því um jólin að ég get sent þeim öllum svona kassa, ég veit það gleður þau. Það var talsvert mikið um að vera hér um jólin, fimm stór jólatré, eitt í dagstofunni fyrir okkur fótaferðarsjúklinga og fjögur inná stofum fyrir þá sem ekki máttu eða gátu klætt sig. […] Það var kveikt á jólatrjánum öll jólakvöldin og á meðan lifði á þeim. Það er að segja meðan lifði í dagstofum. Gengum við öll í kringum tréð og allir sungu sem gátu og var spilað undir á orgel. Svo messaði séra Friðrik Rafnar hér á annan og kirkjusöngflokkurinn frá Akureyri kom og söng.

desember 1956 

    Kæra dagbók. 

Að undanförnu hefur verið ófært hingað frameftir vegna snjóa. Erfitt hefur reynst að sækja vörur til Akureyrar. Ófærðin hefur haft áhrif hérna. Óli ber sig illa yfir ástandinu. Hann er umboðsmaður vöruhappdrættis SÍBS svo sennilega hefur snjórinn eitthvað verið að þvælast fyrir honum, blessuðum. Ég heyrði hann á tali við Eirík í dag. Þeir voru að tala um þvottahúseignir hælisins á Akureyri og 40 ára afmæli Framsóknarflokksins. Ég var ekkert að blanda mér í þá umræðu. Skemmtinefndin er dugleg að hafa ofan af fyrir okkur í vetrarríkinu, það er fyrir öllu. Það er alltaf eitthvað við að vera. Við horfðum á skemmtilega dans og söngvamynd í kvöld. Hún hét Ástarglettur og var í litum. Vinur minn á tvistinum skemmti sér vel yfir sýningunni. Ég skil orðið betur af hverju hann gengur undir nafninu Eplakinn. Í gær var skemmtisamkoma með söng og leik. Á miðvikudagskvöld var sýnd mynd með Doris Day. Hún hét Calamity Jane. Frú Guðrún var á vakt en horfði á eins og hún gat. Ég hlakka líka til jólanna en fyllist þó söknuði um leið. Mér finnst erfitt að vera hérna á jólum, í burtu frá fjölskyldunni. Hér er yfirleitt fámennt og rólegt því margir fá leyfi til að fara heim. Allt er gert til að okkur líði sem best á hátíð ljóss og friðar. Við fáum að skreyta salinn með starfsfólkinu og búa til okkar eigið skraut fyrir stofurnar okkar eins og á páskum. Hér er reiknað með að jólin kosti pening og mér skilst að þannig hafi það alla tíð verið. Alltaf reiknað með útgjöldum á jólum. Maturinn er betri og við fáum jólaöl til að skola honum niður. Svo ekki sé nú talað um fallegt jólatréð sem við göngum í kringum og kertaljósin. Hver veit nema við stöllurnar læðumst inn í eldhús á  jólanóttina eins og síðustu jól, hitum okkur kaffi og höldum okkar prívat veislu. 

Kristnesbækur Grenndargralsins (Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi) eru nú á tilboði fyrir jólin, bæði í verslunum Eymundsson sem og hjá útgefanda. Nánari upplýsingar á facebook-síðu Grenndargralsins og í síma 821 5948.

Deila sjúklings við ráðherra endaði með brottrekstri

Eitt af einkennilegri málum sem upp komu á fyrstu árunum eftir að Kristneshæli tók til starfa var deila milli sjúklings á Hælinu og ráðherra. Yfirskyn ágreiningsins var meint ónæði sjúklingsins í garð annarra sjúklinga en í raun var ágreiningurinn af pólitískum toga. Jakob Árnason og Jónas Jónsson deildu nokkuð heiftúðlega á síðum dagblaðanna. Jafnframt mátti skynja þungt andrúmsloftið innan veggja Hælisins á meðan deilu þeirra tveggja stóð þar sem aðrir sjúklingar, starfsfólk og yfirmenn Hælisins komu við sögu. Hér skal gripið niður í bókina Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli sem Grenndargralið gaf út árið 2017.

Í nóvember 1930 stóðu nokkrir heimilismenn [Kristneshælis] að stofnun pólitísks félags á Hælinu, svokallaðs Jafnaðarmannafélags. Félagið hélt nokkra fundi sem fóru friðsamlega fram að sögn forsvarsmanna þess. Meðal þess sem félagið ákvað á fundi á fullveldisdaginn þetta sama ár var að útbúa yfirlýsingu sem fól í sér gagnrýni á störf þingmanns Framsóknarflokksins og þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu. Svo virðist sem óánægja hafi verið með fundahöldin úr röðum hjúkrunarkvenna Hælisins, þó ekki í þeim mæli sem Jafnaðarmannafélagið vildi vera láta. Óánægjan beindist ekki að dagskrá fundanna heldur frekar truflun sem af einum þeirra hlaust þar sem t.a.m. bíósýning fyrir vistmenn féll niður.

Hriflu-Jónas birti harðorða grein í Tímanum fyrir jólin þar sem hann talaði um æsing og læti á fundunum og sakaði „kommúnista um  að draga sjúklingana inn á vígvöll æsinganna“. Ennfremur að æsingurinn hefði framkallað blóðspýting hjá sjúklingi, slík hefði geðshræringin verið á einum fundinum. Og einmitt þarna virðist komin fram helsta átylla ágreinings vistmanns á Hælinu og dómsmálaráðherra eða deilu kommúnista og framsóknarmanna eins og látið var í veðri vaka – deilu sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Svo virðist sem Jónas hafi fært í stílinn svo um munar þegar hann nefndi afleiðingar fundarins. Sá vistmaður í Jafnaðarmannafélaginu sem lét mest af sér kveða í deilunni hét Jakob Árnason. Hann sakaði Jónas um lygar og líkti honum við rómverska keisarann Neró. Jakob átti síðar eftir að stýra skrifum á síðum Verkamannsins, málgagni Verkalýðssambands Norðurlands, þar sem hann fór ófögrum orðum um Jónas og fylgismenn hans í umræddu máli.  

Tvö sjónarmið tókust á í deilu Jakobs og Jónasar. Annars vegar meint hætta sem sjúklingum stafaði af æsingnum sem Jafnaðarmannafélagið stuðlaði að með fundahöldum sínum. Hins vegar meintir einræðistilburðir og afskiptasemi ráðherra af málefnum sem komu honum ekki við. Stjórnarnefnd Kristneshælis greip til þess ráðs að leggja bann við pólitískum félagsskap á Hælinu á þeim forsendum að æsingur sem þess háttar félagsstarfsemi fylgdi gæti spillt fyrir bata. Jakob var sannfærður um að ákvörðun þessa efnis hefði verið tekin einhliða af dómsmálaráðherra og að aðkoma stjórnenda Hælisins væri eingöngu til að hylma yfir einræðistilburði hans. „Þér hafið heft frelsi okkar meira en hvíti dauði,“ lét Jakob hafa eftir sér um Jónas Jónsson frá Hriflu, einn helsta hvatamann að byggingu heilsuhælis á Norðurlandi. Jakob lét bannið ekki stöðva sig heldur stofnaði jafnaðarmannafélag öðru sinni á Kristneshæli í óþökk Jónasar og mögulega stjórnenda Hælisins. 

Meira um deilu Jakobs og Jónasar í bókinni Í fjarlægð. Kristnesbækur Grenndargralsins (Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi) eru nú á tilboði fyrir jólin, bæði í verslunum Eymundsson sem og hjá útgefanda. Nánari upplýsingar á facebook-síðu Grenndargralsins og í síma 821 5948.

Brynjar Karl Óttarsson.

Ó, þvílík fegurð! Ma, che bella ragazza!

Það hefur örugglega verið hvíslað á bæjum í Eyjafirði þegar kvisaðist út að Kristjana Jóhanna dóttir Gunnlaugs Briem kammerráðs á Grund hygði á utanför haustið 1823. Einhverjir hafa vafalaust talið þetta borðleggjandi enda bráðgáfuð stúlka og eðlilegt að hennar líkir vilji skoða sig um í heiminum. Aðrir hafa mögulega hrist laumulega kollinn, fundið til með Gunnlaugi að missa stúlkuna utan, sennilega fyrir fullt og allt. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að einhverjir eyfirskir sveinar hafi misst út úr sér blótsyrði enda var Kristjana Jóhanna sláandi fögur, sú fegursta í öllum firðinum. Á því lék enginn vafi.

Útgáfu á lífshlaupum kvenna byggðri á sagnfræðilegum heimildum hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár, hvort sem um er að ræða alþýðustúlkur eða þær sem tilheyrðu efri stéttum landsins. Enn hallar þó óneitanlega á konur hvað blaðsíðufjölda og útgáfu varðar. Þegar 100 ára árstíðar kosningaréttar kvenna var minnst mátti greina vaxandi áhuga á að skrásetja líf og tilveru kvenna með svokölluðum ömmusögum. Þar fóru karlar og konur í sannkallaða fjársjóðsleit. Með gull og gersemar úr fortíðinni í báðum höndum sögðu afkomendur frá, t.d. í ritröð RIKK sem bar yfirskriftina Margar myndir ömmu. Sama ár var einnig haldin ráðstefnan Ömmur fyrr og nú í Háskólanum á Akureyri.

Enn er af nógu að taka. Sögu Jóhönnu fögru hefur verið gerð eins góð skil og heimildir þá gáfu tilefni til. Saga hennar er þó miklu viðburðaríkari og merkilegri en nægilegt sé að gera henni skil í æviþætti í annars stórgóðri bók Benjamíns Kristjánssonar Eyfirðingabók I.

Jóhanna fagra hét Kristjana Jóhanna Gunnlaugsdóttir Briem. Hún fæddist árið 1805 og ólst upp á Grund í Eyjafirði. Eftir að hafa slitið barnsskónum sigldi hún til Kaupmannahafnar og átti aldrei eftir að búa á Íslandi aftur. Fegurð hennar sló samferðamenn í rot hvar sem hún drap niður fæti. Hún naut þess að búa og nema á heimili aðalsmanna í Danmörku en hélt síðar með fósturforeldrum sínum Birgi og Benedicte Thorlacius til Suður-Evrópu. Áfangastaðurinn var borgin eilífa, Róm.

Á ferðalagi sínu um meginland Evrópu hitti Jóhanna fagra helstu broddborgara þess tíma og  svikahrappa, tefldi við fyrirmenni og steig dans með aðlinum eins og henni einni var lagið. Fósturfjölskyldan fann henni fljótlega heppilegt mannsefni, auðkýfing nokkurn í París. Jóhanna fagra sá þó aðeins einn mann. Það kann kannski að koma á óvart að sá sem hneppti hjarta stúlkunnar var doktor í fornmálum. Hvort hann talaði móðurmál Jóhönnu fögru skal ósagt látið í bili en Carl Wilhelm Shütz og Jóhanna fagra gengu í hjónaband 1831 og bjuggu nær alla sína tíð í Þýskalandi.

Reisubók Jóhönnu fögru spannar spennandi en jafnframt viðsjárverða tíma í Evrópu. Samfélagsgerðin tók stakkaskiptum á 19. öld með hraðri uppbyggingu borga og iðnaðar. Rétt eins og á fyrri öldum voru konur að mestu settar hjá þrátt fyrir að spila lykilhlutverk í samfélaginu. Var Jóhanna kvenskörungur? Varla. En í brjósti hennar bjó dirfska og þor. Hún þráði meira en Ísland gat gefið henni. Ævi hennar er ævintýri líkast þar sem hún hrífur helstu lista- og stjórnmálamenn álfunnar ,,með sínum bláu augum, dásamlega hári og norrænu reisn“. Vínarvalsar og keisarahallir koma samt ekki í stað engjanna á Grund og í erilsömu og háværu borgarlífi hugsaði hún heim í Eyjafjörðinn dag hvern. 

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir. Á undanförnum fjórum árum hefur bókaútgáfa verið fyrirferðarmikil í starfsemi Gralsins. Nú þegar Grenndargralið stefnir hraðbyri í átt að nýjum áratug er ánægjulegt að segja frá því að vinna við að skoða merkilega sögu Kristjönu Jóhönnu Gunnlaugsdóttur Briem er hafin. Undirrituð grúskar nú í heimildum um þessa merkiskonu og leyfir henni að leiða sig næstu misserin frá hlaðinu á Grund til Bielefeld með viðkomu á ótal dansiböllum. Ekki er útilokað að áhugasamir um Jóhönnu fögru geti lesið sér frekar til í bók um hana að grúskinu loknu.

Framundan er spennandi leit að gersemum innanlands sem utan, brotum héðan og þaðan sem ætlunin er að raða saman í heildstæða mynd – Myndina af Jóhönnu fögru.

Hildur Hauksdóttir