Grenndargralið á tímamótum

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir. Upphaf Grenndargralsins má rekja til hugmynda sem ég hafði um merkingarbært nám. Sem nýútskrifuðum grunnskólakennara þótti mér of lítið lagt upp úr því að færa kennslu og nám út fyrir kennslustofuna.  Með hugmyndir í farteskinu og eldmóðinn að vopni hóf ég að þróa tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum á unglingastigi. Tilgangurinn var að auka áhuga og vitund nemenda á þeirra nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra. Afraksturinn varð 10 vikna ratleikur með áherslu á sögu og menningu heimabyggðar í fortíð og nútíð þar sem lokamarkmiðið var að finna 50 cm háan verðlaunagrip, Grenndargralið.

Leitinni að Grenndargralinu var hleypt af stokkunum haustið 2008. Viðurkenning frá skólanefnd Akureyrarbæjar vorið 2010 sem og styrkur frá Menntamálaráðuneytinu sama ár sannfærðu mig um halda ótrauður áfram. Grenndargralið var komið til að vera. Á meðan Leitinni óx fiskur um hrygg leitaði ég leiða við að víkka starfssvið Grenndargralsins. Árið 2011 hóf Grenndargralið að flytja fréttir úr heimabyggð með hjálp grunnskólanemenda. Var það upphafið að samstarfi Grenndargralsins við Akureyri vikublað og síðar Norðurland. Sumarið 2012 var boðið upp á sérstaka hátíðarútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Tilraunir með þróun og sölu á varningi undir merkjum Grenndargralsins fóru af stað á árinu þegar Grenndargralið vann tölvugerða mynd af Akureyri eins og bærinn leit út árið 1862. Myndin var unnin í tilefni af afmæli kaupstaðarins í samvinnu við Akureyrarkaupstað. Vinnan var samstarfsverkefni Grenndargralsins og Arnars Birgis Ólafssonar landslagsarkitekts. Þá urðu þreifingar með varning undir merkjum Grenndargralsins þegar nokkrar krukkur af hinu svokallaða Grenndargralsmúslí voru settar á markað í tilefni af afmæli Akureyrar.

Þegar ég lít um öxl sé ég greinileg skil verða árið 2013. Skrif  tengd sögu og menningu í heimabyggð fara þá að verða meira áberandi í starfi Grenndargralsins. Greinakorn birtust á heimasíðu Gralsins auk þess sem samningar tókust við Akureyri vikublað um regluleg greinaskrif í blaðinu. Árið 2015 hófst mikil ritunar- og útgáfuvinna hjá Grenndargralinu – vinna sem átti eftir að standa yfir sleitulaust í meira en tvö ár. Afraksturinn var þrjár bækur og ein samantekt. Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt kom út árið 2015. Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu kom út ári seinna sem og samantekt um Giljaskólaleiðina. Árið 2017 kom út bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli, rétt um það leyti sem síðustu leit grunnskólanemenda að Grenndargralinu lauk – í bili hið minnsta. Þá má ekki gleyma samstarfi Grenndargralsins við norðlenska frétta- og afþreyingarmiðilinn Kaffið.is. Grenndargralið hefur því leitað sífellt meir í skrif af ýmsum toga samhliða öllum handtökunum sem fylgja því að halda úti árlegum ratleik eins og Leitinni. Söfnun á áhugaverðu, sögutengdu efni úr heimabyggð og leiðir til að koma því á framfæri skipar þannig stærri sess í starfsemi Grenndargralsins en nokkru sinni fyrr. Því er kannski við hæfi nú þegar leit grunnskólanemenda liggur í dvala að boða nýja tíma hjá Grenndargralinu – tíma skráningar og miðlunar. Meira um það síðar. Víst er að framundan er spennandi leit að gersemum í sögu og menningu heimabyggðar, skrásetning þeirra og lifandi framsetning. Þó verðlaunagripurinn fari á hilluna góðu mun Leitin að Grenndargralinu halda áfram.

Mér er það sönn ánægja að fagna 10 ára afmæli Grenndargralsins með uppgreftri á gersemum í sögu heimabyggðar og frumbirta í tveimur tölublöðum Norðurlands nú í nóvember. Í seinna tölublaðinu segir af undurfallegri konu úr Eyjafirði sem heillaði Evrópu upp úr skónum á 19. öld og sjávarháska norður af landinu. Grein dagsins er hins vegar merkileg saga manns sem kom til Íslands á millistríðsárunum til að skrifa bók. Hann dvaldi um nokkurt skeið á Akureyri áður en hann flutti á suðrænni slóðir. Þar átti hann eftir að skrá nafn sitt á spjöld bókmenntasögunnar. Góða skemmtun.

Brynjar Karl Óttarsson

Verkefnisstjóri Grenndargralsins

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd