main image

Ætlaði að synda undan skipinu upp á ísjaka

   Aðfaranótt laugardagsins 21. júlí árið 1984 fellur sennilega seint úr minni skipverjanna um borð í togaranum Harðbaki EA 303 frá Akureyri. Togarinn var á veiðum um 47 sjómílur suðvestur af Horni á svokölluðu Strandagrunnshorni. Mikil þoka var á svæðinu, skyggni lítið og hafís allt um kring. Undir miðnætti þegar Harðbakur var að toga sást skip á radarnum nálægt þeim stað sem Harðbakur var að veiðum og virtist sem það stefndi beinustu leið á togarann. Skipið færðist nær þrátt fyrir þokulúðra og aðrar aðvaranir. Skyndilega birtist stefni þess úr þokunni. Nokkrum augnablikum síðar skall sovéska skemmtiferðaskipið Estonia á Harðbak af svo miklu afli að stefnið, merkt hamri og sigð á rauðri stjörnu, gekk á annan metra inn í hlið togarans. Estonia var fimm þúsund tonn að stærð. Sex metra langt gat kom á bakborðshlið Harðbaks en vegna þess hversu ofarlega það var komst sjór ekki um borð í togarann. Höggið var slíkt að Harðbakur skall u.þ.b. 60-70 gráður á hliðina en náði að rétta sig af. Mikil mildi þykir að ekki fór verr. Ekki varð manntjón við áreksturinn en skemmdir á Harðbaki voru miklar. Estonia skemmdist einnig töluvert og eldri borgurum sem voru í meirihluta þeirra sem voru um borð var illa brugðið. Þegar Harðbakur komst á réttan kjöl aftur hífðu skipverjar inn trollið og sigldu til Akureyrar í samfloti með hinu sovéska skemmtiferðaskipi. Þangað komu skipverjar á Harðbaki seinni part laugardagsins, sennilega dauðs lifandi fegnir því að fá fast land undir fótum eftir svaðilfarirnar. Fjallað var um málið í dagblöðum dagana eftir áreksturinn. Síðan þá hefur lítið farið fyrir umfjöllun um áreksturinn og hættuástandið sem skapaðist úti á opnu hafinu. Einn af skipverjunum 24 um borð í Harðbaki hið örlagaríka kvöld var Svanur Zophaníasson. Svanur er giftur, fjögurra barna faðir og starfar í dag sem tölvuumsjónarmaður í grunnskólum Akureyrar. Svanur, sem var 18 ára þegar atburðirnir áttu sér stað, féllst á að rifja upp atburðarásina á Strandagrunnshorni fyrir rúmum 34 árum síðan með Grenndargralinu.

Höfðum ekki grun um hvað við áttum í vændum

Manstu eftir aðdragandanum að árekstrinum, hvar þið eruð að veiðum og hvað þú ert að gera áður en höggið skellur á ykkur?

„Ég man nákvæmlega hvað gerðist þetta föstudagskvöld. Við vorum á Halanum að toga innan um mikinn ís. Við vorum búnir að vera u.þ.b. viku á sjó og vorum komnir með 170 tonn. Aflinn átti eftir að koma sér vel þar sem hann hefur sennilega átt sinn þátt í því að skipið náði að rétta sig af. Það var þoka en alveg blankalogn. Þegar ís er þetta nálægt eins og var í þessu tilfelli og alveg blankalogn þá myndast mistur. Það myndaðist svartaþoka og hún getur orðið mjög þétt. Stundum sást glitta í bláan himin því við aðstæður sem þessar þá er í rauninni heiðskýrt en þokan byrgir manni sýn. Skyggni var því lítið sem ekkert. Fjöldi annarra skipa var að toga í grennd við okkur því veiðin var búin að vera fín þarna á þessum slóðum. Ég man að einhverra hluta vegna náðist sjónvarpsmerkið þetta kvöld. Við náðum RÚV sem var mjög sjaldgæft. Við sem vorum á vakt vorum í borðsalnum að horfa á bíómynd. Hinir voru sofandi. Við höfðum því ekki grun um hvað við áttum í vændum. Skipstjórinn, Sigurður Jóhannsson, var farinn að átta sig á því í hvað stefndi því hann var búinn að vera að fylgjast með þessu skipi í radar. Hann sá þetta allan tímann gerast. Þetta atvikast samt allt svo hratt og aðdragandinn var stuttur. Þegar Sigurður áttaði sig á alvarleika málsins brást hann við með því að bakka alveg á fullu. Fyrir honum vakti að bakka úr aðstæðum og forða þannig árekstri. Þarna áttuðum við hinir okkur á því að ekki væri allt með felldu. Okkur datt reyndar ekki í hug sú sviðsmynd sem síðar átti eftir að blasa við okkur. Við höfðum einfaldlega ekki hugmyndaflug í það. Við héldum að við hefðum fest trollið í botni og þess vegna værum við að bakka. Fyrstu viðbrögð voru þau að við fórum allir að bölva. Lætin eru svo mikil þegar verið er að toga og svo allt í einu er þrykkt í bakk. Það titraði allt og nötraði. Eftir á að hyggja er ljóst að þessi ákvörðun skipstjórans varð til þess að bjarga því að ekki fór verr. Þrátt fyrir hinar ýmsu tilraunir til að vara skipstjóra sovéska skipsins við hélt hann ótrauður áfram í áttina til okkar. Þarna lá ég á bekk, grunlaus um að andartaki síðar ætti skemmtiferðaskip eftir að keyra á okkur og ýta okkur á hliðina.“

Hugsaði um það eitt hvernig ég ætlaði að bjarga mér.

Geturðu lýst atburðarásinni þegar Estonia keyrir inn í hliðina á Harðbaki?

„Jú sjáðu til, öll lætin sem urðu þegar við bökkuðum var aðeins byrjunin. Í kjölfarið kom feiknarlegt högg. Áreksturinn kom mér algjörlega í opna skjöldu. Ég vissi ekki hver djöfullinn gekk á þegar höggið kom. Það vissi enginn hvað hafði gerst. Fyrsta hugsunin var hvort við hefðum keyrt á ís. Það voru jú stórir borgarísjakar þarna á víð og dreif. Það er svo merkilegt að þrátt fyrir lætin sváfu sumir þau af sér. Þeir vöknuðu þegar skipið byrjaði að halla. Þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar þeir áttuðu sig á því að þeir voru komnir upp við vegg. Svo opnuðu þeir dyrnar allir sem einn, gægðust fram á gang og kölluðu í kór; „hvað er í gangi?“ Þá lágu þeir bara á gólfinu, hallinn var svo mikill. Ég sé ennþá fyrir mér kokkinn þar sem hann stóð í dyrunum með bakka fullan af veitingum þegar halli var kominn á skipið. Þetta augnablik situr fast í minningunni. Annað er mér minnisstætt. Um borð var einn maður sem var svo latur að hann nennti ekki fram úr rúminu til þess að athuga hvað hafði gerst og hélt áfram að sofa þó skipið væri byrjað að halla. Hann snéri sér bara á hina hliðina. Hann hefði sennilega sokkið með skipinu vegna þess hversu latur hann var. Á meðan við hinir reyndum að fóta okkur í öllum látunum sagði hann hinn rólegasti „Ég hélt við hefðum keyrt á ísjaka“. Í þessum sérstöku aðstæðum var eitthvað sem sagði mér að henda mér út úr borðsalnum og á nærliggjandi vegg. Þá var hallinn orðinn slíkur að ég hljóp eiginlega á veggnum og náði einhvern veginn að klóra mig áfram eftir ganginum, í gegnum dyr í átt að blóðgunarkörum. Þarna var ekkert sem benti til annars en að skipinu væri að hvolfa. Það var svo gott sem komið á hliðina. Ég hljóp að körunum sem voru á hliðinni rétt eins og annað um borð, stökk upp á stiga sem var þarna fyrir framan mig og náði að klifra á höndunum upp stigann. Þarna hugsaði ég um það eitt hvernig ég ætlaði að bjarga mér og varð hugsað til ísjakanna. Ég hugsaði leið til að synda undan skipinu og upp á einn ísjakann. Ég ætlaði að bjarga mér. Ég ætlaði ekki að drukkna. Þetta var fyrir tíma flotgallanna svo ég var á peysunni einni og hefði því sennilega drepist fljótlega í ísköldum sjónum.“

Sá alla ævina fyrir mér.

Laskaður togari úti á rúmsjó, hættuástand, engir flotgallar og þú stendur andspænis því að fara niður með skipinu, einn og yfirgefinn.

„Já þarna var ég einn. Ég var ungur ólíkt sumum um borð. Þeir komust ekki eins hratt yfir eins og ég. Ég var langfyrstur þarna upp stigann. Á þessu augnabliki komst aðeins eitt að; hver bjargar sér sjálfur. Það var bara þannig. Í aðstæðum sem þessum er tíminn svo lítill til að bregðast við. Við vissum allir hvað það þýddi ef skipinu myndi hvolfa. Þá þyrfti ekki að spyrja að leikslokum. Sjálfsbjargarviðleitnin var því ofar öllu. Ég upplifði mjög einkennilegt augnablik þarna þar sem ég leitaði að leið út úr þessum ógöngum. Á þessum stutta tíma meðan ég reyndi að bjarga mér, að ég hélt frá sökkvandi skipi, sá ég alla ævina fyrir mér. Þetta er eiginlega svo skrítin lífsreynsla að það er ómögulegt að reyna að útskýra hana með góðu móti. Ég man alveg nákvæmlega hvernig ég hugsaði, 18 ára gamall gutti hlaupandi um á hallandi skipi úti á ballarhafi. Þá varð umsnúningur því í miðjum hamaganginum fór skipið að rétta sig af. Eftir stóð samt spurningin hvort gat var komið á skipið neðan sjólínu. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað leið langur tími frá því að skipið fór að halla og þangað til það rétti sig af. Í minningunni finnst mér eins og það gætu hafa verið 5-10 mínútur, ofboðslega hægar mínútur.“

Sjokkið kom eftir á.

Það hlýtur að hafa verið mikill léttir þegar þér verður ljóst að skipið er farið að rétta sig af. Hvað tekur þá við?

„Já, það var vissulega mikill léttir. Við hlupum um allt, niður í lest og fram og aftur. Blessunarlega var ekkert gat fyrir neðan sjólínu svo við hífðum inn trollið. Við tókum til við að gera björgunarbátana klára því við vissum ekki hvert ástand skipsins var og vorum því við öllu búnir. Við nánari eftirgrennslan kom gat í ljós ofan sjólínu og það í tveimur klefum skipsins, hjá skipstjóranum og Steinþóri Ólafssyni vélstjóra. Hann var sofandi inni í klefanum þegar áreksturinn varð. Þegar hann vaknaði var stefnið á Estoniu það fyrsta sem mætti honum þar sem það hafði rifið sig leið inn í klefann hans. Þar sat Steinþór fastur í dágóðan tíma fyrst eftir áreksturinn, komst hvorki lönd né strönd. Hann var í afleysingum sem var kannski heppilegt því sá sem hann leysti af var kominn um sjötugt. Steinþór var ungur og hraustur og því mögulega betur undir þetta búinn. Nokkru seinna, um það leyti sem skipið hafði rétt sig af rölti Steinþór í klefann og kíkti út um gatið. Við honum blasti hópur sovéskra eldri borgara sem störðu á hann gapandi af undrun en þó fyrst og fremst skelfingu lostnir. Rússarnir buðust í framhaldinu til að senda lækni yfir til okkar. Þeir héldu að einhverjir úr okkar hópi hefðu slasast sem var þó ekki raunin. Á meðan öllu þessu stóð gafst enginn tími til að átta sig á áfallinu sem þessu öllu fylgdi. Sjokkið kom eftir á, þegar var orðið ljóst að okkur yrði ekki meint af. Ekki síst þegar manni varð ljóst hvað mátti litlu muna. Alger tilviljun réði því að Harðbakur fékk stefnið á Estoniu þar sem styrkurinn var mestur, á horninu á brúnni. Alveg með ólíkindum. Hefði stefnið komið örlítið framar og ekki lent á brúnni, hefði það haldið áfram og skorið sig í gegn. Hefði það komið aftar væri ég ekki hér til frásgnar frekar en félagar mínir.“

Mikið fjör á leiðinni í land

Skipin tvö sigla svo saman til Akureyrar, ekki satt?

„Jú, þegar við vorum búnir að hífa var ákveðið að við myndum fylgja Estoniu til Akureyrar. Viðbragðsaðilar voru tilbúnir ef ske kynni að við þyrftum aðstoð. Skipin í kringum okkur voru búin að hífa upp trollin og voru í startholunum. Þar sem tjónið var ofan sjólínu var tekin ákvörðun um að við myndum sigla hjálparlaust og Rússarnir lulluðu á eftir okkur. Eftir hálftíma siglingu vorum við komnir út úr þokunni og ísnum. Siglingin til Akureyrar gekk vel en tók auðvitað töluvert lengri tíma en undir eðlilegum kringumstæðum. Það kannski hljómar einkennilega núna en það var mikið fjör hjá okkur á leið í land eftir aðeins vikulangan túr en fínan afla. Við notuðum tímann á leiðinni til að þrífa og ganga frá. Þrátt fyrir óþægilega „náin kynni“ við Estoniu og Rússana um borð, átti ég engin samskipti við þetta fólk, hvorki kvöldið sem áreksturinn varð né á eftir þegar skipin tvö sigldu saman í land. Aldrei nokkurn tímann hef ég heyrt hina hliðina á málinu og ekki veit ég hvað varð um Estoniu. Mér finnst þó eins og ég hafi heyrt um komu skipsins til Akureyrar einhverjum árum síðar. “

Fengum aldrei tjónið bætt

Þegar rykið settist og mönnum gafst tími til að fara yfir atburðarásina, fékkst þá ásættanleg niðurstaða í málinu um hvað raunverulega gerðist þessa nótt?

„Sjópróf fóru fram lögum samkvæmt. Ég hef aldrei séð þau. Það var einhver umfjöllun um þetta í fjölmiðlum fyrst á eftir en svo datt allt í dúnalogn. Ég man ekki eftir að hafa séð nokkrar niðurstöður birtar, engin almennileg málalok að mér fannst. Meira svona þögn. Ef svona lagað myndi eiga sér stað í dag er ég hræddur um að eftirfylgnin yrði meiri og umfjöllunin einnig. Það var aldrei nokkur vafi á því að rétturinn var okkar megin því við vorum með veiðarfærin úti. Ég hef stundum velt því fyrir mér, í ljósi þess að við vorum í 100% rétti, hvers vegna við í áhöfninni fengum aldrei tjónið bætt sem við urðum fyrir. Við vorum jú í landi í 4-5 vikur á meðan skipið var í slipp og urðum fyrir tekjumissi. Við fengum engin laun á meðan skipið var í viðgerð. Ég get ekki ímyndað mér annað en útgerðin hafi fengið greitt alveg upp í topp og fengið veiðitapið bætt sem af þessu hlaust. Þetta óvænta frí varð reyndar til þess að ég komst í Atlavík um verslunarmannahelgina þar sem ég sá Ringo Starr troða upp með Stuðmönnum. Við gerðum ekkert í þessu á sínum tíma, maður var kannski bara svo ungur og vitlaus. Þá finnst mér ég aldrei almennilega hafa fengið svör við því hvað rússneska skipstjóranum gekk til. Áður en áreksturinn verður er togari frá Skagafirði að lóðsa skemmtiferðaskipið út úr ísnum og hafði gert það í einhvern tíma. Svo virðist sem skipstjórinn hafi án nokkurs fyrirvara ákveðið að hætta að þiggja leiðsögn togarans. Hann snéri skipinu við og stefndi beint á okkur! Þetta er svo galið að það nær ekki nokkurri átt. Enginn okkar skildi hvað skipið var að gera svona langt úti. Skipstjórinn hefði ekki þurft annað en sigla örfáar mílur nær landi og þá hefði hann komist út úr þokunni. Þá hefði hann verið á auðum sjó. Þetta var mjög óvenjulegt. Radartæknin sem skip á þessum tíma þurftu að reiða sig á var vissulega með þeim hætti að skip og ísjakar runnu saman í eitt. Það gat því verið erfitt að greina þarna á milli. Það má því hugsa sér að Rússinn hafi haldið að Harðbakur væri ísjaki en ekki skip. Það breytir ekki því að ákvörðunartaka hans er í hæsta máta undarleg því honum á að vera ljóst að einhver fyrirstaða er. Harðbakur var þúsund tonna skip og hefði ekki átt að fara svo auðveldlega framhjá honum. Ég verð þó að segja að þessir atburðir hafa ekki ásótt mig í seinni tíð. Mér finnst hins vegar merkilegt hvað þeir eru fastir í minningunni ennþá og jafnvel smáatriði eins og hvar félagar mínir um borð voru staddir þegar ósköpin dundu yfir.“

Þetta var risastórt slys

Hvernig horfir þessi reynsla við þér í dag nú þegar rúm 34 ár eru liðin?

„Atburðirnir urðu ekki til þess að ég hætti á sjó, ég hélt áfram og við allir sem gengum í gegnum þessa raun. Ég fór í Stýrimannaskólann eftir þetta. Satt best að segja hef ég lítið hugsað um þessa reynslu í rúma þrjá áratugi. Jú, auðvitað þegar ég hugsa til baka sé ég að þetta var risamál. Þetta var risastórt slys og á þessum tíma bauðst manni engin áfallahjálp. Eitthvað sem ég geri ráð fyrir að boðið yrði upp á í dag. Það var bara bitið á jaxlinn og ekki verið að blása hlutina út. Gott dæmi um þetta er hvernig við ungu strákarnir um borð reyndum að slá öllu upp í grín eftir áreksturinn. Við töluðum um að fyrst þetta þurfti að gerast og engum varð meint af þá hefði úr því sem komið var bara verið best að Harðbakur sykki. Við hefðum gúmmíbáta til að koma okkur yfir til Rússanna og þar gætum við þá allavega drukkið okkur fulla á leiðinni í land. Það er svo skrítið hvað getur flogið í gegnum huga manns á ögurstundu sem þessari. En það eina sem skiptir máli í dag er að enginn slasaðist í þessum hildarleik, ekki svo mikið sem marblettur. Það er ekki síst Sigurði skipstjóra að þakka. Ákvörðun hans um að bakka þegar hann sá sovéska skipið nálgast varð okkur til lífs.“

   Sjópróf vegna árekstursins fóru fram eftir að skipin tvö komu í land. Ef marka má blaðaskrif þessa tíma leiddu prófin m.a. í ljós að skipstjóri Estoniu taldi sig ekki hafa komið auga á Harðbak á radar. Þrátt fyrir fullyrðingu skipstjórans þar að lútandi er ekki annað að sjá af umfjöllun blaðanna en að mönnum hafi láðst að kanna ástand radarsins þegar sjópróf fóru fram. Estonia hafði verið á siglingu innan um ís í 12-14 klukkustundir áður en það rakst á togarann. Skipstjóri togarans Skafta frá Sauðárkróki sem var á svæðinu, bauð sovéska skipstjóranum stýrimann sinn til að lóðsa skipið út úr ísnum. Sá sovéski þáði ekki boðið. Þess í stað sendi hann sinn eigin stýrimann um borð í Skafta til að skoða sjókort og þiggja ráðleggingar. Í framhaldinu fylgdi Estonia skagfirska togaranum í einhvern tíma. Við sjópróf bar mönnum ekki saman um hvað gerðist í kjölfarið. Skýring skipstjóra Estoniu var sú að skipið hefði verið að elta Skafta þegar Harðbakur birtist þeim skyndilega og þá hafi árekstur verið óumflýjanlegur. Skipstjóri Harðbaks taldi þessa skýringu ekki halda vatni. Hann taldi víst að Estonia hefði beygt af leið, frá Skafta og í átt að Harðbaki. Ósamræmi málsaðila var því mikið í þessu lykilatriði málsins. Sigurður Eiríksson stjórnandi sjóprófanna lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu þann 25. júlí 1984 að „líklega væri sökin sovéska skipsins.“

Af Ingólfi og hinum gleymdu bræðrunum

Undir lok 19. aldar fæddust bræður á bænum Espihóli í Eyjafirði. Þeir afrekuðu ýmislegt í lifanda lífi en féllu jafnframt nokkuð í gleymskunnar dá eftir dauðann. Saga bræðranna og foreldra þeirra er athyglisverð. Hún er sveipuð ákveðnum ævintýraljóma, ekki síst vegna afdrifa bræðranna, ævintýramanna sem stuðluðu að nýsköpun með því að bjóða ríkjandi hugmyndum í atvinnulífi birginn. Enn liggur margt á huldu í sögu þeirra bræðra, sögu af sigrum, gleði og framsýni en um leið sorgarsögu fjölskyldu sem á einhvern ótilgreindan hátt hefur fennt yfir hin seinni ár. Saga Espholinbræðra er mörgum ýmist gleymd eða hulin. Lítið hefur verið skráð og gefið út um lífsferil bræðranna, ekki síst er snýr að einkalífi þeirra. Jón Hjaltason gerði Espholinbræðrum ágæt skil árið 2004 í bók sinni Saga Akureyrar – Válindir tímar 1919-1940, IV. bindi . Grenndargralið fer hratt yfir sögu Ingólfs Gísla, bræðra hans Jóns, Steingríms, Hjalta og Þórhalls og foreldranna Sigtryggs og Guðnýjar.

Þeir voru fimm. Fjórir voru tæknimenn og uppfinningamenn í upphafi 20. aldar. Þeim fimmta, Steingrími sem var fæddur árið 1890, var snemma komið í fóstur og því ólst hann ekki upp með bræðrum sínum. Espholinbræður voru athafnamenn og brautryðjendur. Meðal þess sem þeir afrekuðu, ýmist einir eða saman, var að auglýsa flugvélar til sölu en þeir urðu fyrstir Íslendinga til að gera það fyrir sléttum 100 árum síðan, árið 1918. Þeir seldu auk þess mótorhjól af Henderson-gerð, bíla, báta og stór skip. Þá hönnuðu þeir sjálfir og framleiddu vélar í báta. Þeir fluttu inn og seldu vörur af ýmsum toga svo sem timbur, málningu, múrsteina og nagla. Þeir ráku bifreiðaverkstæði og tunnuverksmiðju. Hér eru aðeins nokkur atriði nefnd svo glöggt má sjá að framkvæmdagleðin var mikil hjá Espholinbræðrum. Hún var þó mest hjá einum bróðurnum og var hann sennilega sá þeirra sem gerði hvað mest til að breyta íslensku samfélagi.

Faðir þeirra bræðra var Sigtryggur Jónsson trésmíðameistari. Hann var fæddur árið 1862. Sigtryggur stundaði trésmíðanám í Kaupmannahöfn áður en hann flutti að Espihóli þar sem hann bjó um 10 ára skeið. Hann færði sig um set til Akureyrar árið 1900 ásamt konu sinni Guðnýju Þorkelsdóttur og drengjunum. Fjölskyldan flutti inn í nýtt og glæsilegt hús sem Sigtryggur hafði reist við Aðalstræti 16. Sigtryggur kom að byggingu margra húsa á Akureyri. Íbúðarhúsnæðið við Aðalstræti 16 sem og gamla skólahúsnæði Menntaskólans á Akureyri (1904) eru af mörgum álitin tvö hin glæsilegustu sem hann reisti.

Bræðurnir Espholin voru fæddir á 11 ára tímabili. Fjórir þeirra dóu langt fyrir aldur fram, ókvæntir og barnlausir. Elstur var Jón, fæddur 1889. Honum leiddist í skóla. Vélar og rafmagn áttu hug hans allan. Jón giftist danskri konu að nafni Caroline. Þau áttu einn son, John Sigtrygg Espholin en hann var eina barnabarn þeirra Sigtryggs og Guðnýjar. Afkomendur bræðranna frá Espihóli eru því allir danskir. Jón lést í Kaupmannahöfn árið 1962. Næst kom fyrrnefndur Steingrímur. Honum var komið í fóstur á bænum Kollugerði í Glæsibæjarhreppi en Sigtryggur pabbi bræðranna átti jörðina. Steingrímur dó 32 ára. Hjalti var þriðji í röðinni. Hann var ekki síður uppátækjasamur en Jón auk þess sem hann hafði gaman af tónlist og spilaði m.a. á trompet. Hann dó 53 ára gamall. Næstyngstur var Þórhallur. Þórhallur lagði stund á tannlækningar í Kaupmannahöfn þegar spánska veikin dró hann til dauða. Hann var aðeins tvítugur að aldri. Yngstur var Ingólfur Gísli fæddur 1898.

Ætla má að athafnasemi og framkvæmdagleði Sigtryggs hafi erfst til bræðranna. Í það minnsta átti Ingólfur Gísli eftir að láta til sín taka í íslensku atvinnulífi svo um munaði. Hann átti eftir að koma mörgum ævintýralegum hugmyndum sínum í framkvæmd. Sem dæmi átti hann og bjó í einu sögufrægasta húsi landsins um tíma og sigldi um heimsins höf með heimsþekktu skemmtiferðaskipi. Ekki er ólíklegt að einhverjar af hugmyndum hans hafi skotið upp kollinum á uppvaxtarárunum í Aðalstræti. Ingólfur var tveggja ára þegar fjölskyldan flutti inn á hið nýja heimili við Aðalstræti 16. Þar ólst hann upp áður en hann flutti til Kaupmannahafnar árið 1915 til að læra verslun og viðskipti. Hann hafði reyndar búið í nokkra mánuði með móður sinni og bræðrum í Danmörku árið 1907. Tilgangur flutninganna þá var að koma elsta drengnum í tækninám. Jón lærði á kvöldin en vann á vélaverkstæði á daginn. Á meðan sá Guðný um heimilið. Fljótlega veiktist hún af mislingum sem að lokum drógu hana til dauða í desember sama ár. Guðný var aðeins 41 árs þegar hún dó. Þeir Þórhallur og Ingólfur fylgdu líki móður sinnar til Íslands en Jón varð eftir í Danmörku. Þar með lauk fyrri og jafnframt stuttri dvöl Ingólfs í Danmörku. Af Jóni er það að segja að hann kom til Íslands árið 1914 eftir sjö ára vélfræðinám í Danmörku og Þýskalandi. Árið 1921 giftist hann fyrrnefndri Caroline en hún vann við að smíða falskar tennur. Þau fóru af landi brott til Danmerkur árið 1927. Þar stofnaði Jón fyrirtæki sem m.a. framleiddi loftþjöppur.

Eftir þriggja ára dvöl í Kaupmannahöfn flutti Ingólfur aftur heim til Akureyrar haustið 1918.  Næstu árin var hann mjög umsvifamikill og nýjungagjarn. Hann stofnaði ásamt bræðrum sínum fyrirtækið Espholin Co en það auglýsti m.a. flugvélar, dráttarvélar, vörubíla og annars konar bifreiðar til sölu auk mótorhjóla. Ingólfur stofnaði tunnuverksmiðju á Akureyri ásamt Hjalta bróður sínum árið 1920. Hann var frumkvöðull í íslenskum hraðfrystiiðnaði og fékk m.a. einkaleyfi á frystingu skyrs. Árið 1926 stofnuðu þeir Hjalti félag um byggingu og rekstur frystihúss í Reykjavík. Frystihúsið hóf rekstur árið 1930 og var það hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Óhætt er að segja að ævi Ingólfs Espholin hafi verið viðburðarík. Ekki einungis fór hann ótroðnar slóðir við vinnu heldur einnig í einkalífinu. Hann sigldi um Atlantshafið með hinu þekkta skemmtiferðaskipi Queen Elisabeth. Þá átti hann um tíma hið sögufræga hús Höfða í Reykjavík. Hann bjó í húsinu frá 1952 til 1962. Ingólfur Espholin bjó síðustu æviárin í Tjarnargötu 5 í Reykjavík og endaði ævina sem fátækur einstæðingur. Ingólfur dó árið 1973.

 

Grenndargralið á tímamótum

Grenndargralið fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir. Upphaf Grenndargralsins má rekja til hugmynda sem ég hafði um merkingarbært nám. Sem nýútskrifuðum grunnskólakennara þótti mér of lítið lagt upp úr því að færa kennslu og nám út fyrir kennslustofuna.  Með hugmyndir í farteskinu og eldmóðinn að vopni hóf ég að þróa tilraunaverkefni í grenndarkennslu hjá nemendum á unglingastigi. Tilgangurinn var að auka áhuga og vitund nemenda á þeirra nánasta umhverfi í gegnum skemmtilegar og spennandi vettvangsferðir og rannsóknarleiðangra. Afraksturinn varð 10 vikna ratleikur með áherslu á sögu og menningu heimabyggðar í fortíð og nútíð þar sem lokamarkmiðið var að finna 50 cm háan verðlaunagrip, Grenndargralið.

Leitinni að Grenndargralinu var hleypt af stokkunum haustið 2008. Viðurkenning frá skólanefnd Akureyrarbæjar vorið 2010 sem og styrkur frá Menntamálaráðuneytinu sama ár sannfærðu mig um halda ótrauður áfram. Grenndargralið var komið til að vera. Á meðan Leitinni óx fiskur um hrygg leitaði ég leiða við að víkka starfssvið Grenndargralsins. Árið 2011 hóf Grenndargralið að flytja fréttir úr heimabyggð með hjálp grunnskólanemenda. Var það upphafið að samstarfi Grenndargralsins við Akureyri vikublað og síðar Norðurland. Sumarið 2012 var boðið upp á sérstaka hátíðarútgáfu af Leitinni að Grenndargralinu í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Tilraunir með þróun og sölu á varningi undir merkjum Grenndargralsins fóru af stað á árinu þegar Grenndargralið vann tölvugerða mynd af Akureyri eins og bærinn leit út árið 1862. Myndin var unnin í tilefni af afmæli kaupstaðarins í samvinnu við Akureyrarkaupstað. Vinnan var samstarfsverkefni Grenndargralsins og Arnars Birgis Ólafssonar landslagsarkitekts. Þá urðu þreifingar með varning undir merkjum Grenndargralsins þegar nokkrar krukkur af hinu svokallaða Grenndargralsmúslí voru settar á markað í tilefni af afmæli Akureyrar.

Þegar ég lít um öxl sé ég greinileg skil verða árið 2013. Skrif  tengd sögu og menningu í heimabyggð fara þá að verða meira áberandi í starfi Grenndargralsins. Greinakorn birtust á heimasíðu Gralsins auk þess sem samningar tókust við Akureyri vikublað um regluleg greinaskrif í blaðinu. Árið 2015 hófst mikil ritunar- og útgáfuvinna hjá Grenndargralinu – vinna sem átti eftir að standa yfir sleitulaust í meira en tvö ár. Afraksturinn var þrjár bækur og ein samantekt. Sagan af ömmu – örlög ráðast heima hljótt kom út árið 2015. Lífið í Kristnesþorpi – frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu kom út ári seinna sem og samantekt um Giljaskólaleiðina. Árið 2017 kom út bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli, rétt um það leyti sem síðustu leit grunnskólanemenda að Grenndargralinu lauk – í bili hið minnsta. Þá má ekki gleyma samstarfi Grenndargralsins við norðlenska frétta- og afþreyingarmiðilinn Kaffið.is. Grenndargralið hefur því leitað sífellt meir í skrif af ýmsum toga samhliða öllum handtökunum sem fylgja því að halda úti árlegum ratleik eins og Leitinni. Söfnun á áhugaverðu, sögutengdu efni úr heimabyggð og leiðir til að koma því á framfæri skipar þannig stærri sess í starfsemi Grenndargralsins en nokkru sinni fyrr. Því er kannski við hæfi nú þegar leit grunnskólanemenda liggur í dvala að boða nýja tíma hjá Grenndargralinu – tíma skráningar og miðlunar. Meira um það síðar. Víst er að framundan er spennandi leit að gersemum í sögu og menningu heimabyggðar, skrásetning þeirra og lifandi framsetning. Þó verðlaunagripurinn fari á hilluna góðu mun Leitin að Grenndargralinu halda áfram.

Mér er það sönn ánægja að fagna 10 ára afmæli Grenndargralsins með uppgreftri á gersemum í sögu heimabyggðar og frumbirta í tveimur tölublöðum Norðurlands nú í nóvember. Í seinna tölublaðinu segir af undurfallegri konu úr Eyjafirði sem heillaði Evrópu upp úr skónum á 19. öld og sjávarháska norður af landinu. Grein dagsins er hins vegar merkileg saga manns sem kom til Íslands á millistríðsárunum til að skrifa bók. Hann dvaldi um nokkurt skeið á Akureyri áður en hann flutti á suðrænni slóðir. Þar átti hann eftir að skrá nafn sitt á spjöld bókmenntasögunnar. Góða skemmtun.

Brynjar Karl Óttarsson

Verkefnisstjóri Grenndargralsins

Bjó á Oddeyri áður en heimsfrægðin knúði dyra

Hann dvaldi á Íslandi í tæpt ár á millistríðsárunum í því skyni að skrifa bók um köldu eyjuna í Atlantshafi og íbúa hennar. Á meðan dvölinni stóð náði hann sér í mikinn efnivið fyrir bókina. Hann kynnti sér sögulega atburði við lestur Íslendingasagnanna og skrifaði niður eitt og annað um eyjuna í norðri. Lungann úr tímanum dvaldi hann á Akureyri þar sem hann sat við skriftir, skráði niður upplifun sína af bæjarbragnum og kynnum sínum af íbúum bæjarins. Bókin um Ísland kom aldrei út en hugleiðingar höfundarins um dvölina á Akureyri eru til á prenti. Áratug síðar kom upp keimlík staða þegar hann bjó á hitabeltiseyju í Suður-Kyrrahafi og vann að ritun annarrar bókar. Sögusviðið var eyjan og nágrenni hennar sem og sögulegir atburðir sem áttu sér stað á þeim slóðum árið 1789. Í þetta skiptið kom bókin út. Hún átti síðar eftir að skipa sér á sess meðal þekktustu skáldsagna bókmenntasögunnar. Umfjöllun Grenndargralsins um hinn þekkta rithöfund og ferðalag hans um Ísland beinist að mestu leyti að dvöl hans á Akureyri. Sá hluti ferðasögunnar birtist að hluta til í Harper´s Magazine árið 1924. Prófessor Sigurður Þórarinsson skrifaði grein um ferðalag rithöfundarins til Akureyrar í tímaritinu Andvara árið 1976. Greinina byggði hann aðallega á tveimur bókum: My Island Home og In Search of Paradise — The Nordhoff-Hall Story. Hér verður stuðst við þessar heimildir. Þýðingar á beinum tilvitnunum eru úr grein Sigurðar. 

James Norman Hall var fæddur í apríl árið 1887. Eftir að hafa gengið menntaveginn á æskuslóðunum í Iowa og víðar ferðaðist hann til Englands sumarið 1914 þar sem hann var staddur þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út. Hann skráði sig í breska herinn og barðist á vesturvígstöðvunum sem vélbyssuskytta. Eftir að hafa fengið leyfi til að yfirgefa vígstöðvarnar fór James aftur til Bandaríkjanna þar sem hann skrifaði og gaf út sína fystu bók, Kitchener’s Mob, árið 1916. Bókin fékk góðar viðtökur. Áður en styrjöldinni lauk réði hann sig sem blaðamann hjá tímaritinu Atlantic Monthly. Þar var honum gert að hverfa aftur til átakasvæðanna í Evrópu til að flytja fréttir af gangi mála í stríðinu. Hann fór til Frakklands en minnst þó til að segja fréttir, þess í stað gekk hann í franska flugherinn. Þegar Bandaríkin drógust inn í styrjaldarátökin árið 1917 var James gerður að foringja í bandaríska hernum. James barðist þannig fyrir þrjú ríki og þrisvar var hann skotinn niður með flugvélum sínum. Hann hafnaði í þýskum fangabúðum eftir síðustu brotlendinguna en lifði prísundina af. Eftir að styrjaldarátökunum lauk árið 1918 hlaut James æðstu heiðursmerki fyrir hugrekki. Eftir stríð var hann fenginn til að skrifa bók um franska herinn í samstarfi við annan Bandaríkjamann að nafni Charles Nordhoff (1887-1947). Þar með hófst samvinna sem átti eftir að vara í mörg ár og skila sér í einhverju farsælasta samstarfi tveggja rithöfunda í sögu nútímabókmennta. James lagði upp í sjóferð til Suðurhafseyja þar sem hann hugðist skrifa ferðabók fyrir bandaríska tímaritið Harper´s Magazine. Hann kom til Tahítí árið 1920 en Suður-Kyrrahafseyjan átti eftir að verða aðaldvalarstaður hans næstu þrjá áratugina. Næstu 30 árin skrifaði James á þriðja tug bóka sem margar hverjar vöktu mikla athygli. Ekki síst sýndu leikstjórar í Hollywood bókum hans áhuga. Fyrrnefnd bók úr smiðju James Norman Hall um atburðina í Kyrrahafi árið 1789 sló í gegn þegar hún kom út. Bókin Mutiny on the Bounty (Uppreisnin á Bounty) kom út árið 1932.  

Á vordögum 1922 rakst James fyrir tilviljun á umfjöllun um ferðabók hins skoska Ebenezer Henderson en hún segir frá ferðalagi hans um Ísland á árunum 1814-1815. Áhugi James var vakinn. Hann bar hugmyndina um að fara til Íslands og skrifa ferðabók undir útgefanda sinn hjá Harper´s Magazine sem lýsti sig samþykkan hugmyndinni. Sömdu þeir um tæplega 100 þúsund orða sögu sem yrði fyrst birt í tímaritinu í áföngum og svo í bókarformi. James fékk 5000 dollara í fyrirframgreiðslu frá forlaginu. Frá Tahítí lagði James í langt ferðalag til Íslands með viðkomu í Bandaríkjunum, Danmörku og Færeyjum. Hann steig á íslenska grund í ágúst 1922 og hér átti hann eftir að dveljast fram á næsta ár. Eftir að hafa staldrað við í Reykjavík í fáeinar vikur lagði hann af stað landleiðina til Akureyrar, þangað sem hann kom í lok mánaðarins. Hann hreiðraði um sig á hóteli í bænum. Sennilega var þar um Hótel Oddeyri að ræða þar sem Kristín nokkur Eggertsdóttir (1877-1924) réði ríkjum. Kristín var sléttum 10 árum eldri en James, fædd á bænum Kroppi í Eyjafirði. Kristín kemur þónokkuð við sögu í skrifum James. Þegar þarna er komið sögu hefur þessi 45 ára gamla hótelstýra átt viðburðaríkari ævi en flestar kynsystur hennar á Akureyri þess tíma. Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði, vann sem kennslukona í nokkur ár áður en hún settist aftur á skólabekk í Reykjavík upp úr aldamótunum. Hún menntaði sig enn frekar í Noregi en kom heim til Akureyrar árið 1907 til að taka við starfi forstöðukonu Sjúkrahússins á Akureyri, starfi sem hún gegndi til ársins 1912. Kristín sat þrjú ár í bæjarstjórn Akureyrar, fyrst kvenna til að gegna þeirri stöðu. Rétt eins og James, dvaldi hún um tíma í Englandi í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar sem og í Danmörku. Árið 1915 hóf hún rekstur á Hótel Oddeyri og var því orðin veraldarvön í því starfi þegar hinn nýja gest bar að garði. Gefum James Norman Hall orðið. 

„Það er farið að síga á seinni hluta september. Meir en mánuður er liðinn síðan ég kom til Íslands, og nú dvelst ég á Akureyri, hinum fámenna höfuðstað Norðurlands. Ég hef setzt að fyrst um sinn á hóteli, tveggja hæða timburhúsi á eyri, sem teygir sig langt út í fjörðinn. Herbergisgluggar mínir vita mót suðri, og sér þaðan yfir fjarðarbotninn til fjalla, hvítra hið efra af fyrsta haustsnjónum. Hér hef ég setið marga stund og horft á skýin speglast í vatnsfletinum, á fjallsvegginn mikla í austri í síbreytilegri birtu og á skuggana í giljum og gljúfrum, sem verða æ dimmblárri og falla fyrr á með degi hverjum, eftir því sem líður á haustið og dagarnir styttast. Eflaust ætti ég að vinna meira mér að gagni. Ég hef meðmælabréf til fólks í bænum, sem ég hefði átt að vera búinn að sýna, og í stað þess að leita uppi tungumálakennara, hef ég verið einn að berjast vonlausri baráttu við flækjur íslenzkrar málfræði. En það er erfitt að slíta sig frá þessari einveru, þessari dásamlegu nautn einsemdar, sem er eitt af því fyrsta og bezta, sem maður verður aðnjótandi á ferðalagi í framandi landi. Hingað til hef ég aðeins eignazt tvo kunningja á Íslandi, hótelstýruna og konuna sem rekur tóbaksbúð við götuendann. Að utan séð hefur hótelið auðnarsvip strandhótels að loknum ferðamannatímanum. Vindutjöld eru dregin fyrir alla glugga nema á mínu herbergi, því að hér eru engir aðrir gestir og verða ekki fyrr en næsta sumar, segir hótelstýran mér. Ferðamenn koma ekki til Íslands svo seint á árinu, og síðan heimsstyrjöldinni lauk, hafa þeir verið mjög fáir, einnig að sumarlagi. Augljóst er, að ég mun hafa landið fyrir mig einan til könnunar á komandi vetri. Hótelstýran mín er fámálug, alvarleg kona. Þótt hún sé ágæt í ensku, opnar hún sjaldan munn nema til þess að svara spurningum. Þegar hún hefur reitt fram matinn handa mér á matmálstímanum, sezt hún við saumaskap sinn við gluggann og er svo hljóð, að ég heyri þegar saumnálin snertir fingurbjörgina, og ég fyrirverð mig fyrir glamrið í diskunum, þar sem ég sit einn að snæðingi. Þegar ég er búinn að borða, kinkar hún til mín kolli til merkis um, að ég eigi að ganga út, og ég fer í gegnum manntóma dagstofuna, upp stigann og inn í herbergið mitt eins hljóðlega og mér er unnt, svo að ég trufli ekki — ég veit raunar ekki hvern, eða hvað. Þögnin ræður ekki aðeins í þessu herbergi, heldur einnig í húsinu, á götunni, í bænum, í landinu sjálfu. Ég hef fundið þetta frá fyrsta degi Íslandsdvalar minnar. Hún er eins og eitthvað í nálægð manns, eitthvað, sem maður hálft í hverju býst við að sjá, jafnframt því að finna það og heyra það, ef svo má segja. Þegar ég er að lesa í herberginu mínu, hætti ég stundum í miðri málsgrein og fer að hlusta. Á rölti úti hrekk ég stundum upp við krunk í hrafni langt úti í móum að bæjarbaki, eða við rollujarm frá fjallshlíðinni handan fjarðar. Ég hef heyrt sömu hljóð annars staðar án þess að veita þeim sérstaka eftirtekt. En hér virðast þau, með einhverjum hætti, krefjast eftirtektar, og maður miðar þögnina við þau með sama hætti og maður miðar víðerni óendanlegrar sléttu við örsmæð reiðmanns á ferð yfir hana.“

Sigurður Þórarinsson getur sér til að hin konan sem James nefnir til sögunnar, sú er rak tóbaksbúðina, sé Lára Ólafsdóttir (1867-1932). Lára var fædd á Skagaströnd. Hún lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn í lok 19. aldar en settist að á Akureyri í upphafi þeirrar tuttugustu. Þar sá hún um rekstur verslunarinnar Sápuhússins á Oddeyri frá árinu 1911. Árið 1924, ári eftir að James hélt af landi brott, var kvenmannsnafnið Lára á allra vörum. Þórbergur Þórðarson gaf þá út sína fyrstu stóru bók; Bréf til Láru. Sé tilgáta Sigurðar rétt er hér um einu og sömu konuna að ræða. Þó James nefni einungis Kristínu og Láru til sögunnar við upphaf dvalarinnar hér, átti hann eftir að kynnast fleiri Akureyringum og Eyfirðingum eftir því sem líða tók á dvölina. Honum var umhugað um að læra tungumál innfæddra. Hann hafði stundað íslenskunám þann stutta tíma sem hann var í Reykjavík og hélt því áfram eftir að hann kom til Akureyrar. Í skrifum sínum talar hann um íslenskukennarann sinn Mr. Thorsteinsson. Ekki er ósennilegt að Vernharður Þorsteinsson (1884-1959) sé umræddur kennari. Vernharður var fæddur á Oddeyri. Hann tók stúdentspróf árið 1906 og nam heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla til ársins 1914. Hann stundaði blaðamennsku og ritstörf um nokkurra ára skeið í hinum ýmsu Evrópulöndum áður en hann flutti til Akureyrar árið 1921. Hann kenndi við Gagnfræðaskólann og síðar Menntaskólann, aðallega dönsku og frönsku.

„Hótelstýran mín sat við gluggann, þegar ég gekk framhjá gegnum dagstofuna á leið minni út. Hún svaraði kveðju minni á íslenzku, og ég skildi ekki aðalorðið. „Þú verður að þýða eins og vant er,” svaraði ég dálítið stúrinn. „Ég er hræddur um, að mér hafi ekki sótzt vel íslenzkunámið síðustu viku, en nú er ég á leið til kennarans.“ „Gleður mig,“ svaraði hún alvarleg. „Þú ættir vissulega að leggja hart að þér til að læra mál okkar, úr því að þú ætlar þér að vera hér í allan vetur.  Það sem ég sagði var, að nú væri dúnalogn.“ „Dúnalogn, er það calm?“ „Það er meira en calm. Hvernig á ég að orða það? Það er svo mikið logn,  að  það  bærir  ekki  dúnhnoðra.“ Eg mun ávallt minnast þessarar athugasemdar með þakklæti. Það var eitthvað töfrandi við þetta orð, og ég fann hið innra með mér, hve lygnt raunverulega var og hve fallegur þessi litli bær var á slíkum degi. Göturnar voru mannlausar og búðirnar lokaðar eins og vant var á mánudagsmorgnum fram undir hádegi. Hús og búðir sýndust svo lítil sem væru þau í gluggum leikfangabúðar og biðu eftir einhverju barni til þess að koma litauðugu lífi í gang. Úti á Pollinum hallaði sjómaður sér út yfir borðstokkinn á skektu sinni og virtist sem í sælum svefni, og skektan virtist svífa í loftinu, því að vatnsflöturinn var sem spegill, en fjöllin sveipuð bjartri móðu, og manni fannst maður vera umluktur óendanlegu ljóshafi. Tveir hrafnar, sem virtust óvenju svartir, flugu til vesturs sem væru þeir síðustu leifar næturmyrkursins, sem sólin hafði splundrað og dreift. Ég horfði á eftir þeim, þar til þeir hurfu líka út í sólskinið, og dúnalognið ómaði í eyrum sem hljómur klukku, sem er nýlega hætt að hringja. Ég rölti áfram og hugsaði um dúnalogn og önnur falleg, íslenzk orð, og þegar þar að kom, að ég var farinn að velta fyrir mér beygingum þeirra, var ég kominn út úr bænum. Það virtist bjánalegt að snúa nú við og fara í tíma til Mr. Thorsteinssons — hreinn glæpur að halda sig innanhúss í slíku veðri — svo að ég hélt áfram hátt upp í hlíð með útsýn yfir bæinn og Eyjafjörð endilangan. Þar sat ég sem eftir var dags og las þýðingu Dasents á Brennu-Njáls sögu, eða Njálu eins og Íslendingar segja.“

Á þessum tímapunkti má álykta sem svo að James sé staddur í landi Hlíðarenda ofan Akureyrar eða þar í grennd. Þar sat hann úti í guðsgrænni náttúrunni og las á meðan bæjarbúar urðu vitni að einhverjum mesta tímamótaviðburði í sögu bæjarins. Aukinheldur fangaði hann augnablikið, skráði það niður og tryggði þar með aðgengi komandi kynslóða að mikilvægri heimild, samtímafrásögn, séð með augum aðkomumanns. Akureyringa hafði lengi dreymt um rafvæðingu bæjarins. Hugmyndir um að virkja Glerá voru ekki nýjar af nálinni og má rekja þær að nokkru leyti aftur til loka 19. aldar. Draumurinn varð að veruleika þann 30. september 1922 þegar Glerárvirkjun var tekin í notkun. Þrátt fyrir einhverja hnökra til að byrja með og óánægju þeirra sem af einhverjum ástæðum fengu ekki notið rafmagnsins, var hér um mikilvægt framfaraskref að ræða í þágu bæjarbúa.

„Þegar ég sneri aftur heim til Akureyrar þetta kvöld, hafði himinninn hulizt hálfgagnsæjum skýjafellingum, sem virtust verða til úr engu. Fyrstu stjörnurnar lýstu gegnum þær, en áður en ég var kominn hálfa leið í bæinn, var farið að snjóa, fyrsta snjó haustsins á láglendi, stórum flygsum, og enn var enginn andvari, er bærði þær. Þeim fjölgaði æ hraðar, jörðin huldist hvítu lagi eins til tveggja þumlunga þykku. Síðast svifu niður gagnsæjar, flipóttar flögur. Það var dásamlegt að sjá fjallatindana koma fram, er élinu létti, skýrt teiknaða og ennþá sveipaða daufri aftanglóð. Ég hélt niður móana og niður á veginn, er lá til bæjarins. Rökkrið var orðið að myrkri, áður en ég komst niður á hjallann upp af bænum. Þaðan sá ég, að merkileg breyting hafði á orðið. Öll hús í bænum voru uppljómuð innan frá og ekki til sá gluggi, að ekki varpaði hann mynd sinni á snjóinn. Það rifjaðist þá upp fyrir mér, að það átti að ræsa vatnsrafstöðina þetta kvöld. Það var búið að tala um þetta í marga daga. Hótelstýran mín, rakarinn, bóksalinn, póstmeistarinn, allir höfðu í hverju samtali komið inn á þetta: ,,En þegar við fáum nýju raflýsinguna . . .“ Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, hversu mikils virði þetta var fólki svo nærri heimskautsbaug. Hingað til hafði verið mjög dimmt í bænum um nætur. Steinolía er dýr hér, því að hún er langt að flutt og olíulampaljós varð að spara. Nú gátu allir notið ljóssins, náðargjafar vatns, er féll af fjöllum ofan. Ég leit inn í tóbaksbúðina, sem var böðuð í ljósi. Gamla sölukonan var ekki langt frá því að verða málug í gleði sinni. „Að hugsa sér,“ sagði hún, „að við skulum hafa lifað í myrkri allar þessar löngu vetrarnætur. Sjáðu, það þarf aðeins að hreyfa þennan hnapp,“ og hún sýndi mér, hvernig þetta gekk til. Öll börn í bænum höfðu safnazt saman fyrir framan járnvöruverzlun, þar sem mörgum gerðum af ljósakrónum, sem kveikt hafði verið á, var stillt út til sölu. Feður og mæður gengu fram og til baka framan við hús sín og virtust vart trúa því, að þetta væru þeirra eigin hús. Í stað daufa olíulampans, sem verið hafði í bókabúðarglugganum, var nú komið rafljós, svo að auðvelt var að lesa bókatitlana. Auk íslenzkra bóka — sögubóka, ævisagna, Ijóðabóka — var þarna eintak af Danasögu Saxa, esperantó málfræði, iðnsaga á þýzku, Bleak House Dickens á dönsku, nokkrar af sögum Robert Louis Stevensons, einnig á dönsku. Af bókum á ensku sá ég sögu siðbótarinnar, útgáfu af ljóðum Swinburnes og verk Francis Bacon’s: Essays, Civill and Morall. Óneitanlega mikil fjölbreytni í litlum bæ á norðurströnd Íslands, og þetta voru aðeins bækurnar í glugganum. Bókin eftir Bacon virtist komast í vasa, svo að ég keypti hana, því að ég hafði aldrei lesið allar ritgerðir hans.“

James lagði land undir fót síðustu dagana í október og hélt upp á hálendið. Goshrina hófst í Öskju í Dyngjufjöllum árið 1921 með tilheyrandi smágosum næstu mánuðina. Hvort James hafi hugsað sér gott til glóðarinnar með því að viða að sér áhugaverðu efni fyrir Íslandsbókina er erfitt að segja. Eitthvað rak hann þó áfram í að rannsaka upptök eldgoss sem hófst á þessum slóðum í byrjun mánaðarins. Hann fékk Sigurð Sumarliðason (1863-1958) frá Bitrugerði Kræklingahlíð í lið með sér. Sigurður var þaulvanur ferðalögum upp á öræfin og leiðsagði gjarnan erlendum ferðamönnum. Sigurður varð t.a.m. fyrstur manna, ásamt þýskum jarðvísindamanni að nafni Hans Reck, til að klífa Herðubreið árið 1908. Frá Akureyri héldu þeir James og Sigurður af stað til Snæbjörns Þórðarsonar bónda í Svartárkoti í Bárðardal. Hann hafði nokkrum dögum fyrir brottför þeirra félaga skrifað stuttan pistil sem birtist í Degi þar sem hann lýsti upplifun heimilisfólks í Svartárkoti á eldgosinu. Frá Svartárkoti héldu þeir út í óbyggðirnar. Þegar þeir komu að Trölladyngju var veður tekið að versna svo þeir snéru við. Þeir komu til Akureyrar 8 dögum eftir að þeir lögðu af stað þaðan. James var hinn kátasti með ferðalagið og hældi Sigurði í hástert fyrir dugnað og áræði. Dagblaðið Íslendingur fjallaði um leiðangurinn þar sem kom m.a. fram að sennilega væri þarna um að ræða fyrstu mannaferðir suður undir Vatnajökul á þessuum árstíma. Niðurlagið var stutt og laggott; „í sannleika glæfraför“.

Sunnudagskvöldið 10. desember 1922 sat James að snæðingi á Hótel Oddeyri. Hann var eini gesturinn á hótelinu og var farinn að átta sig á erfiðu rekstrarumhverfi Kristínar hótelstýru. Hún var og farin að gefa til kynna að hún hefði ekki efni á að halda hótelinu opnu allan veturinn fyrir hann einan. Þegar hann var við það að klára skyrið sitt heyrði hann í skipaflautu á Pollinum. Hann sá flutningaskip nálgast bæinn og velti því fyrir sér hvort nú væri rétt að hugsa sér til hreyfings og kveðja Akureyri. Hann talaði við skipstjórann sem bauð honum pláss um borð í skipinu. Skipið var á leið til Spánar með saltfisk frá Íslandi. James hafði ekki ætlað sér að yfirgefa landið heldur færa sig um set með von um að skipið kæmi við í annarri norðlenskri höfn áður en það héldi út á opið hafið. Hann ákvað engu að síður að þiggja boðið og sigla rakleitt til Spánar og koma þess í stað aftur til Íslands að nokkrum mánuðum liðnum. Einhverja bakþanka hefur hann þó fengið þegar siglt var úr höfn en létti jafnframt stórum þegar skipstjórinn tjáði honum að skipið þyrfti að koma við á Siglufirði. Þar kvaddi James skipstjórann og gekk frá borði. Líður nú alllangur tími þar sem lítið er vitað um ferðir James Norman Hall á Íslandi. Sjálfur skráði hann brottför sína frá landinu „snemma sumars 1923“.

Þegar James kom til Bandaríkjanna hitti hann mann að nafni Sedgwick sem hann hafði unnið með hjá tímaritinu Atlantic Monthly. Þeir tóku tal saman. Sedgwick spurði hann hvernig gengi með Íslandsbókina. „Ég varð að segja honum að ég hefði ekki lokið henni. Sedgwick var áhyggjufullur út af þessu en hann hefði ekki getað ímyndað sér, hversu mjög ég fyrirvarð mig fyrir að þurfa að gera þessa játningu. „Þú hefðir átt að dvelja á Íslandi, þar til bókinni var lokið,“ sagði hann. „Líkaði þér ekki landið?“ Ég sagði honum, að það væri einmitt meinið, ég væri svo hrifinn af Íslandi, að ekkert, sem ég hefði skrifað um það, fyndist mér vera því samboðið.“ James setti sér markmið um að gera allt sem í hans valdi stæði til að klára bókina og gefa hana út. Hann lét jafnframt hafa eftir sér á efri árum að hann hefði aldrei liðið slíkar sálarkvalir við gerð einnar bókar og við Íslandsbókina. Enda fór það svo að hún kom aldrei út. Í árslok 1923 endurgreiddi James bókaforlaginu þá 5000 dali sem hann hafði fengið í fyrirframgreiðslu með vöxtum. Nokkrum vikum síðar hélt James á heimaslóðir á Tahítí þar sem hann hafði búið sér heimili áður en hann ferðaðist til Íslands.  

Hagur James Norman Hall sem rithöfundur fór batnandi á næstu árum. Hér verður stiklað á stóru í lífi þessa góðkunningja Akureyrar eftir að Íslandsdvöl hans lauk. Árið 1925 giftist hann Söruh Winchester. Ári síðar fæddist frumburður þeirra, Conrad Hall og árið 1930 fæddist þeim dóttirin Nancy Hall-Rutgers. Conrad gat sér gott orð sem kvikmyndatökumaður í Hollywood. Hann hlaut þrenn óskarsverðlaun á ferlinum fyrir kvikmyndirnar Butch Cassidy and the Sundance Kid árið 1969, American Beauty árið 1999 og Road to Perdition árið 2002. Nancy spreytti sig einnig í Hollywood þegar hún lék í kvikmyndinni Hurricane árið 1979 með leikkonunni Miu Farrow. Myndin var endurgerð sígildrar kvikmyndar frá árinu 1937 sem byggð var á skáldsögu eftir föður hennar og Charles Nordhoff. Fleiri kvikmyndir í Hollywood voru gerðar eftir bókum James Norman Hall með frægum kvikmyndastjörnum innanborðs svo sem Passage to Marseille árið 1944 með Humphrey Bogart í aðalhlutverki og Botany Bay frá árinu 1953 með leikaranum Alan Ladd. Þekktastur er James fyrir bókina Mutiny on the Bounty eins og fyrr er getið. Hið minnsta þrjár Hollywood-kvikmyndir hafa verið gerðar eftir sögunni. Sú nýjasta er frá árinu 1984 og skartar þeim Mel Gibson og Anthony Hopkins í aðalhlutverkum. Árið 1962 fóru Marlon Brando og Richard Harris með aðalhlutverkin. Clark Gable lék í upprunalegu útgáfunni frá árinu 1935. Myndin hlaut Óskarsverðlaun sem besta myndin árið 1936. Árið 1934 komu út bækurnar Men Against the Sea og Pitcairn Island eftir James og Charles. Þar með var Bounty-trílógínan fullkomnuð og nöfn höfundanna James Norman Hall og Charles Nordhoff meitluð í stein um aldur og ævi. James lést á Tahítí árið 1951 úr hjartasjúkdómi, 64 ára að aldri. Jarðaförin fór fram á hæð ofan við heimili hans á eyjunni suðrænu.  

James Norman Hall hvílir hátt upp í hlíð með útsýni yfir bæinn…