Sótti Akureyri heim og gull í Amsterdam

Liðin eru 110 ár frá heimsókn franskrar konu og föruneytis hennar til Akureyrar. Í júlí 1908 lagðist franska snekkjan El Salvador að bryggju á Akureyri. Um borð var hin 18 ára Virginie Hériot ásamt móður hennar og öðrum meðlimum úr fjölskyldunni og fjölskylduvinum, samtals átta einstaklingum. Hópurinn ferðaðist um Norðurland í um vikutíma, fór m.a. að Dettifossi, í Ásbyrgi og í Mývatnssveit. Túlkur hópsins var Friðrik Rafnar Jónasson frá Hrafnagili en auk þess voru fylgdarmenn með í för og um 50 hross þar að auki.

Hériot átti síðar eftir að verða þekkt kona í Frakklandi og reyndar víðar vegna frammistöðu hennar í siglingum. Í nokkur ár áður en hún kom til Akureyrar hafði hún siglt um heimsins höf á snekkjunni sem var í eigu móður hennar. Á þeim tíma bar snekkjan nafnið Katoomba áður en því var breytt í El Salvador árið 1904. Hériot eignaðist El Salvador árið 1910 þegar móðir hennar gaf henni fleyið í brúðkaupsgjöf . Eftir að hún og eiginmaður hennar skildu árið 1921 eyddi hún flestum stundum á sjónum og í raun allt til æviloka. Hún keppti í siglingum um víða veröld og vann flest þau verðlaun sem hægt var að vinna á hinum ýmsu skútum. Hápunkti íþróttaferilsins náði hún fyrir 90 árum. Hún varð heimsmeistari í siglingum árið 1928 og Ólýmpíumeistari á leikunum í Amsterdam sama ár.

Virginie Hériot slasaðist illa í siglingakeppni í ágúst árið 1932 og lést af sárum sínum um borð í skútunni sinni Ailée II. Hún var 42 ára þegar hún lést.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd