Aldargömul ákvörðun eyfirskra kvenna

Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá því að tekin var ákvörðun um að hefja söfnun til byggingar heilsuhælis á Norðurlandi. Þann 10. júní árið 1918 samþykktu konur í Eyjafirði tillögu Sigurlínu Sigtryggsdóttur um að fara af stað með söfnunina. Þar með hefst stórmerkileg saga Kristneshælis. Seinna á árinu voru sendir út söfnunarlistar um allt land og ávörp birt í blöðum til almennings. Allt gerðist þetta á fullveldisárinu með upphaf sitt í ákvörðun kvenna í hjúkrunarfélaginu Hjálpinni.

Berklar um aldamótin 1900

Um og eftir miðja 19. öldina fór að bera meira á umfjöllun um berkla í skrifum lækna um heilbrigðismál á Íslandi en áður hafði verið. Þó almennt væri álitið að berklarnir væru í sókn leyndust efasemdarmenn í hópi lækna. Með fjölgun héraðslækna á síðustu áratugum aldarinnar og útgáfu heilbrigðisskýrslna, þá fyrstu fyrir árið 1896, fór athyglin að beinast æ meir að sjúkdómnum. Sjúkdómstilfellum fjölgaði jafnt og þétt. Þeim sem fóru með stjórn heilbrigðismála um aldamótin var orðið ljóst að skera yrði upp herör gegn berklasóttinni. Fyrstu lög um berklavarnir voru sett árið 1903. Berklaplágan var orðin að þjóðfélagsmeini og bregðast yrði við henni með einhverjum hætti.

Vífilsstaðir og heilsuhæli á Norðurlandi?

Heilsuhælisfélagið var stofnað árið 1906 í Reykjavík en markmið félagsins var að reisa heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Deildir voru stofnaðar um landið þvert og endilangt til fjársöfnunar fyrirhuguðu heilsuhæli. Stofnfundur deildar í Hrafngilshreppi var haldinn árið 1907 á bænum Grund. Þar kom fram skýr vilji fundarmanna um að stefna ætti að byggingu tveggja heilsuhæla og reisa annað á Norðurlandi. Vegna kostnaðar yrði þó að slá öllum slíkum hugleiðingum á frest. Með samstilltu átaki á landsvísu var fjármögnun heilsuhælis tryggð og og ákvörðun tekin um að hefja framkvæmdir. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og tók það til starfa árið 1910. Fljótlega fór þó að bera á óánægjuröddum í Eyjafirði. Stöðugt peningastreymi úr heimabyggð til Vífilsstaða og erfitt ástand í berklamálum heima fyrir kveikti í gömlum glæðum fundarmanna á Grund um heilsuhæli á Norðurlandi.

Konur í Saurbæjarhreppi hefja söfnun

Konur voru í fremstu víglínu á prestssetrinu í Saurbæ í Saurbæjarhreppi þann 25. október árið 1914 þegar hjúkrunarfélagið Hjálpin var stofnað. Sigurlína Sigtryggsdóttir var kosin í embætti formanns. Eitt helsta hlutverk Hjálparinnar var að veita sjúkum í hreppnum, sem ekki dvöldust á sjúkrahúsum, hjúkrun og aðhlynningu lærðrar hjúkrunarkonu. Vöxtur berklanna og fjarlægð við Vífilsstaði var ekki til að auðvelda störf hjúkrunarfélagsins auk þess sem aðstaða til að sinna berklasjúkum á Sjúkrahúsinu á Akureyri var takmörkuð. Árið 2017 gaf Grenndargralið út bókina Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli eftir Brynjar Karl Óttarsson. Hér skal gripið niður í einn kafla bókarinnar þar sem fjallað er um hinn örlagaríka fund í júní 1918 og vinnuna sem fór af stað í kjölfarið:

Gera má því skóna að miklar frosthörkur og hafís veturinn 1917-18 með tilheyrandi erfiðleikum við samgöngur hafi verið fundarkonum ofarlega í huga á aðalfundi í Saurbæ þann 10. júní 1918. Fundurinn var sögulegur í meira lagi. Tillaga formannsins um að hefja söfnun á Norðurlandi til byggingar heilsuhælis í Norðlendingafjórðungi og fyrir geislalækningastofu á sjúkrahúsinu á Akureyri var samþykkt. Í hugum margra markar fundurinn upphaf aðgerða við að reisa Kristneshæli því þó vangaveltur þess efnis hafi reglulega skotið upp kollinum í aðdraganda hans var það ekki fyrr en hinar eyfirsku valkyrjur tóku af skarið og hrintu hugmyndinni í framkvæmd. Eftir að Samband norðlenskra kvenna tók málið upp á sína arma var ekki aftur snúið. Nefnd á vegum Sambandsins, skipuð níu konum með Önnu Magnúsdóttur ljósmyndara á Akureyri í broddi fylkingar, fékk það hlutverk að veita fjársöfnuninni brautargengi. Síðla árs 1918 var sérstökum söfnunarlistum dreift víða um Norðurland og í nóvember sama ár birtist ávarp þar sem almenningur var hvattur til að leggja söfnuninni lið.

Spennandi tímar á Kristnesi

Ákvörðun kvenna í hjúkrunarfélaginu Hjálpinni og í Sambandi norðlenskra kvenna skilaði sér með vígslu Kristneshælis 11 árum síðar, þann 1. nóvember 1927. Á þeim rúmu 90 árum sem liðin eru frá vígslunni hefur hlutverk staðarins tekið umtalsverðum breytingum. Eftir tímabil stöðnunar lítur nú út fyrir að hans bíði nýtt og spennandi hlutverk. Öld er liðin frá því að konur í Eyjafirði hófu söfnun fyrir stofnuninni og enn koma konur mikið við sögu í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í Kristnesi.

Eins og mörgum er kunnugt hefur María Pálsdóttir unnið að því hörðum höndum um nokkurt skeið að opna setur um sögu berklanna á Kristnesi seinna á árinu. Má með nokkrum sanni segja að nýi og gamli tíminn mætist á Kristnesi þessi dægrin. Stór og mikil saga sem nær áratugi aftur í tímann gengur í endurnýjun lífdaga í tveimur nýútgefnum bókum um Kristnes og setri um sögu berklanna. Ljóst er að spennandi tímar eru framundan á þessum fallega og sögufræga stað.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd