main image

Sótti Akureyri heim og gull í Amsterdam

Liðin eru 110 ár frá heimsókn franskrar konu og föruneytis hennar til Akureyrar. Í júlí 1908 lagðist franska snekkjan El Salvador að bryggju á Akureyri. Um borð var hin 18 ára Virginie Hériot ásamt móður hennar og öðrum meðlimum úr fjölskyldunni og fjölskylduvinum, samtals átta einstaklingum. Hópurinn ferðaðist um Norðurland í um vikutíma, fór m.a. að Dettifossi, í Ásbyrgi og í Mývatnssveit. Túlkur hópsins var Friðrik Rafnar Jónasson frá Hrafnagili en auk þess voru fylgdarmenn með í för og um 50 hross þar að auki.

Hériot átti síðar eftir að verða þekkt kona í Frakklandi og reyndar víðar vegna frammistöðu hennar í siglingum. Í nokkur ár áður en hún kom til Akureyrar hafði hún siglt um heimsins höf á snekkjunni sem var í eigu móður hennar. Á þeim tíma bar snekkjan nafnið Katoomba áður en því var breytt í El Salvador árið 1904. Hériot eignaðist El Salvador árið 1910 þegar móðir hennar gaf henni fleyið í brúðkaupsgjöf . Eftir að hún og eiginmaður hennar skildu árið 1921 eyddi hún flestum stundum á sjónum og í raun allt til æviloka. Hún keppti í siglingum um víða veröld og vann flest þau verðlaun sem hægt var að vinna á hinum ýmsu skútum. Hápunkti íþróttaferilsins náði hún fyrir 90 árum. Hún varð heimsmeistari í siglingum árið 1928 og Ólýmpíumeistari á leikunum í Amsterdam sama ár.

Virginie Hériot slasaðist illa í siglingakeppni í ágúst árið 1932 og lést af sárum sínum um borð í skútunni sinni Ailée II. Hún var 42 ára þegar hún lést.

Segir sagan okkur hvernig við sigrum Króata?

Við vitum að við erum ekki í bestu stöðunni í riðlinum en við höfum engu að tapa. Við munum fórna öllu í þessum leik sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í viðtali fyrir leikinn stóra gegn Króatíu á HM í Rússlandi. Orð að sönnu hjá þjálfaranum. Spurningin er hins vegar hverju skal fórna, á hvað skal veðja. Sjálfskipaðir „knattspyrnusérfræðingar“ koma nú í hrönnum fram á sjónarsviðið í aðdraganda lokaleiksins í riðlinum og sitt sýnist hverjum um hvernig best sé að mæta hinu ógnarsterka liði Króata. Sumir kjósa hefðbundna liðsuppstillingu og óbreytt leikkerfi, reynslu og þekktar stærðir meðan aðrir benda á nauðsyn þess að koma með eitthvað nýtt og freista þess að koma Króötunum í opna skjöldu. Grenndargralið heldur sig til hlés þegar kemur að taktík íslenska liðsins og leggur allt sitt traust á Heimi og hans teymi í Rússlandi. Þó er rétt að benda á athyglisverða tölfræði úr sögunni sem mögulega felur í sér lykilinn að góðum árangri á þriðjudaginn.

Á landsliðsferli sínum um miðja 20. öldina skoraði Albert Guðmundsson tvö mörk. Fyrra landsliðsmarkið skoraði hann í leik gegn Noregi sumarið 1947. Markið var fyrsta mark íslenska liðsins í leiknum. Sonur Alberts, Ingi Björn skoraði tvö mörk með landsliðinu rétt eins og faðir hans. Ingi Björn skoraði gegn Norður-Írum í júní árið 1977 og rúmum tveimur vikum síðar skoraði hann í leik gegn Norðmönnum. Bæði mörkin voru fyrstu mörk íslenska liðsins í leikjunum tveimur. Tölfræðin er af sama meiði hjá tengdasyni Inga Björns, Guðmundi Benediktssyni. Tvö mörk skoruð fyrir íslenska landsliðið. Viti menn, fyrra landsliðsmark Guðmundar var fyrsta og jafnframt eina mark íslenska landsliðsins þegar liðið bar sigurorð af Sameinuðu arabísku furstadæmunum sumarið 1994.

Með landsliðinu okkar í Rússlandi er ungur og efnilegur leikmaður sem hefur spilað fimm landsleiki. Hann heitir Albert Guðmundsson, 21 árs gamall leikmaður PSV Eindhoven og líkt og forfeður hans veit hann hvar markið er að finna. Að öðrum kosti væri hann ekki hluti af sterkum leikmannahópi Íslands sem eygir nú tækifæri á að komast í 16 liða úrslit á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Albert, sem enn hefur ekkert komið við sögu í leikjunum tveimur gegn Argentínu og Nígeríu, jafnar landsleikjafjölda langafa síns og alnafna ef hann kemur við sögu í leiknum gegn Króatíu. Hann á enn lengra í land með að ná afa sínum Inga Birni og föður sínum Guðmundi. Móðir Alberts, Kristbjörg Ingadóttir, spilaði jafnframt á sínum tíma með kvennalandsliðinu. Þegar kemur að markaskorun fyrir landsliðið hefur hann hins vegar vinninginn. Í leikjunum fimm hefur hann skorað þrjú mörk, öll í sama leiknum gegn Indónesíu. Og rétt eins og í tilfelli föðurins, afans og langafans var fyrsta mark hins unga Alberts Guðmundssonar fyrsta mark íslenska landsliðsins í þeim leik. Af þessum fimm landsleikjum sem nefndir hafa verið til sögunnar vannst sigur í fjórum.

Er Albert Guðmundsson trompið sem Heimir á upp í erminni? Er hann óvænta útspilið sem Króatar þekkja ekki frá fyrri viðureignum þjóðanna á knattspyrnuvellinum síðustu ár? Kannski. Við þekkjum mörg dæmi þess að hæfileikar gangi í erfðir. Við vitum jafnframt að sagan á það til að endurtaka sig. Ef við bætum svo líkindum við erum við mögulega komin með baneitraða blöndu sem jafnvel Króatar hafa engin mótefni gegn. Heimir hefur engu að tapa og verður að færa fórnir til að eiga möguleika á sæti í 16 liða úrslitum. Með því að senda soninn inn á völlinn fyrr en síðar í leiknum getur hann aukið líkurnar á íslensku marki á undan króatísku og þar með íslenskum sigri. Svo segir sagan.

Nígeríumenn þoldu illa kuldann – hvað gera Íslendingar í hitanum?

Fyrsti og eini A-landsleikur Íslands og Nígeríu í karlaflokki fór fram á Laugardalsvelli árið 1981. Í byrjun ársins voru Nígeríumenn nr. 32 á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins á meðan Íslendingar voru í sæti nr. 89. Þó knattspyrna í Afríku hafi ekki verið eins hátt skrifuð árið 1981 og seinna varð raunin, voru Nígeríumenn með nokkuð frambærilegt lið. Liðið hafði t.a.m. unnið Afríkubikarinn árið 1980. Leikurinn við Ísland var hluti að röð æfingaleikja í Evrópu en á þessum tíma var Nígería í harðri baráttu heima fyrir um laust sæti á HM á Spáni sumarið 1982. Nokkrum dögum áður en liðið kom til Reykjavíkur hafði það gert jafntefli 2-2 við Norðmenn í Osló og tapað 0-2 fyrir Sheffield Wednesday í Englandi. Leikurinn gegn Nígeríu var liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir mikilvægan leik gegn Tyrkjum í undankeppni HM í september á Laugardalsvelli. Íslendingar höfðu síðast landað sigri á þjóðarleikvanginum árið 1977 þegar kom að leiknum gegn Nígeríu.

Aðstæður voru afar slæmar þegar dómarinn flautaði til leiks laugardaginn 22. ágúst. Kom þar tvennt til. Í fyrsta lagi setti veðrið strik í reikninginn. Kuldi, rigning og ekki fluga á ferð, slíkt var hvassviðrið. Elstu menn í bransanum í Laugardalnum sögðu veðrið hið versta í sögu knattspyrnuiðkunar á Laugardalsvelli eins og því var háttað hálftíma fyrir leik. Þá olli fjarvera Nígeríumanna áhyggjum þegar aðeins hálftími var til leiks. Þeim leist svo illa á veðrið að þeir lögðu ekki af stað frá hótelinu fyrr en 25 mínútum fyrir leik. Þrátt fyrir veðrið og óstundvísi gestanna hófst leikurinn á réttum tíma. Skemmst er frá því að segja að Íslendingar fóru með öruggan sigur af hólmi. Lokatölur leiksins 3-0. Mörk Íslendinga skoruðu þeir Árni Sveinsson, Lárus Guðmundsson og Marteinn Geirsson. Nígeríumenn þoldu illa kuldann. Þeim tókst ekki að aðlagast framandi aðstæðum á Laugardalsvelli. Vissulega hafði veðrið áhrif á leik beggja liða en án nokkurs vafa kom það meira niður á gestunum. „Það er ekki hægt að leika knattspyrnu í slíku veðri. Íslensku leikmennirnir kunnu betur að notfæra sér aðstæður og það réði úrslitum“ sagði þjálfari Nígeríumanna eftir leikinn.

Ólíklegt er, að Nígeríumenn hafi nokkurn tíma leikið knattspyrnu í slíku veðri sem á laugardaginn var, og eflaust leika þeir betri knattspyrnu við betri skilyrði. Þó er ljóst að þeir eru eftirbátar okkar í íþróttinni, en hversu lengi það verður skal ósagt látið. Við skulum vona að Nígeríumenn taki úrslitunum ekki of illa, en sumir áhorfendur töldu að skreiðarsamningar okkar við Nígeríu yrðu e.t.v. ekki endurnýjaðir.“                        

                                                                                                                                    Þjóðviljinn, ágúst 1981

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum fyrsta landsleik gegn Nígeríu fyrir 37 árum. Öllum er ljóst að bilið milli liðanna er annað og minna í dag en árið 1981, um það bera tölur frá styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins glöggt vitni. Þjóðirnar mætast nú öðru sinni á föstudaginn kemur í Rússlandi. Rétt eins og 22. ágúst gæti veðrið orðið örlagavaldur 22. júní. Spáð er allt að 35 stiga hita með tilheyrandi flugnageri. Ólíklegt er að Íslendingar hafi nokkurn tímann leikið knattspyrnu í slíku veðri. Hvað gera Íslendingar í hitanum? Munu aðstæður ráða úrslitum? Nú leggjumst við á bæn og vonum að íslenska liðinu takist að aðlaga sig framandi aðstæðum á knattspyrnuvellinum í Volgograd og nái í þrjú stig. Áfram Ísland!

Eins og gjarnan vill verða þegar landslið Íslands eru valin kom heimabyggð við sögu í leiknum á Laugardalsvelli árið 1981. Akureyringur spilaði sinn fyrsta opinbera landsleik þegar Sigurður heitinn Lárusson kom inn á fyrir Ómar Torfason.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Markið í Moskvu

Hver man ekki eftir markinu í Moskvu í maí 1989? Markinu sem breytti öllu. Ólafur með langt innkast, Atli skallaði áfram, Sigurður náði ekki til knattarins, Halldór sem var á auðum sjó inni í vítateignum vinstra megin skoraði framhjá markverði Sovétmanna, Rinat Dasayev. Tíu ógleymanlegar sekúndur í knattspyrnuleik. Þjóðin ærðist af gleði meðan hún fylgdist með á sjónvarpsskjánum. Karlalandsliðinu í knattspyrnu hafði tekist hið ómögulega. Að ná í stig í undankeppni stórmóts á erfiðum útivelli, sennilega einhverjum þeim erfiðasta sem um gat á þessum árum. Jafntefli við Dani í Kaupmannahöfn árið 1959 í undankeppni Ólympíuleikanna (1-1) og gegn Wales í Swansea árið 1981 í undankeppninni fyrir HM 1982 (2-2) voru einu stigin sem íslenska landsliðið hafði krækt sér í á útivelli gegn sterkum andstæðingum þegar kom að leiknum gegn Sovétríkjunum.

Til marks um styrkleika Sovétmanna á þessum tíma var frábær árangur liðsins í Evrópukeppninni í Vestur-Þýskalandi sumarið áður þar sem það lék til úrslita gegn Hollendingum. Á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins í upphafi árs 1989 var sovéska liðið í öðru sæti ásamt Brasilíu. Ísland var í 61. sæti, einu sæti neðar en Norður-Kórea. Í liði Sovétmanna voru hetjur frá HM ´86 og EM ´88 – Kuznetsov, Aleinikov, Protasov, Zavarov, Rats og Dobrovolsky svo einhverjir séu nefndir. Ekkert benti til annars en að sovéski björninn færi með öruggan sigur af hólmi. Í íslenska liðinu voru einnig miklar hetjur, þar af þrír leikmenn úr heimabyggð. Auk markaskorarans Halldórs Áskelssonar voru þeir Gunnar Gíslason og Þorvaldur Örlygsson í íslenska leikmannahópnum. Tvær helstu stjörnur liðsins voru fjarri góðu gamni, þeir Ásgeir Sigurvinsson og Arnór Guðjohnsen. Mark í Moskvu var því borin von.

Að kvöldi miðvikudagsins 31. maí gengu 11 leikmenn íslenska liðsins inn á Lenín-leikvanginn í Moskvu. Um 80.000 áhorfendur voru mættir til að sjá feykisterkt lið heimamanna fara með skyldusigur af hólmi gegn örþjóðinni Íslandi í undankeppni fyrir HM á Ítalíu árið eftir. Sovétmenn leiddu riðilinn. Íslendingar, Austur-Þjóðverjar, Tyrkir og Austurríkismenn börðust um annað sætið. Dagskipunin var skýr. Standa vörnina og einbeiting í föstum leikatriðum. Brjóta á bak aftur þunga sókn Sovétmanna og nýta aukaspyrnur og innköst. Skipulagið hélt, staðan í hálfleik var 0-0. Á 65. mínútu leiksins fengu Sovétmenn aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig íslenska liðsins. Igor Dobrovolsky skaut föstu skoti að markinu sem Bjarni Sigurðsson markvörður náði ekki að verja og staðan því orðin 1-0 fyrir Sovétríkin.

Á þessum tímapunkti áttu margir heima í stofu von á erfiðum 25 mínútum, stórskotahríð sovéska liðsins og nauðvörn Íslendinga. Annað átti eftir að koma á daginn. Heimamenn töldu sigurinn vísan og urðu kærulausir á meðan íslenska liðið neitaði að gefast upp. Þjálfari íslenska liðsins, Siegfried Held, var klókur. Hann setti tvo leikmenn inn á sem báðir komu við sögu í markinu í Moskvu. Rúnar Kristinsson var upphafsmaður að tíu sekúndna leikkaflanum. Hann krækti í innkastið sem Halldór Áskelsson gerði sér mat úr með því að þruma knettinum upp í þaknet sovéska liðsins á 86. mínútu. Þögn sló á áhorfendur á Lenín-leikvanginum. Tíminn var of naumur fyrir Sovétmenn á ná í stigin tvö sem í boði voru. Íslendingar trúðu vart sínum eigin augum þegar finnski dómarinn flautaði til leiksloka. Þó sigur hafi ekki unnist var stærsti sigur íslenska landsliðsins á knattspyrnuvellinum engu að síður staðreynd. 

Mark Halldórs Áskelssonar í Moskvu var fyrsta markið sem Sovétmenn fengu á sig í undankeppni HM á þeirra eigin heimavelli í 24 ár. Liðið hafði spilað vel á annan tug leikja í röð án þess að fá á sig mark þegar íslenska liðið mætti til leiks á Lenín-leikvanginum. Markið í Moskvu var enn fremur fyrsta hindrun Sovétmanna á samfelldri sigurgöngu þeirra á heimavelli í undankeppni HM í 31 ár. Liðið hafði unnið alla heimaleiki sína frá árinu 1958 þar til smáþjóðin kom, sá og „sigraði“. Markið í Moskvu breytti öllu. Mönnum varð nú ljóst að með baráttu, leikgleði  og gott skipulag að leiðarljósi var allt mögulegt, á hvaða leikvelli sem var, hvað sem andstæðingurinn hét. Landsliðsþjálfari Íslands lét hafa eftir sér í viðtali eftir leik að liðið hefði spilað agað og beint frá hjartanu og fyrirliði liðsins, Atli Eðvaldsson, talaði um stórt hjarta Íslendinga en breiðan brjóstkassa Sovétmanna. Kunnugleg stef úr samtímanum. Með jafnteflinu héldu Íslendingar í vonina um sæti á HM á Ítalíu. Þó draumurinn hafi ekki ræst var fræjum sáð. Uppskeran er núna á stóra sviðinu í Rússlandi.

Nú tæpum 30 árum síðar eru Íslendingar aftur mættir til Moskvu og verkefni laugardagsins risavaxið sem fyrr. Líkindin eru því nokkur þegar kemur að hinum ytri aðstæðum. Andstæðingurinn er stjörnum prýtt silfurlið Argentínu frá HM 2014. Argentínska liðið er í 5. sæti á styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins. Messi, Agüero, Di María, Higuaín og Mascherano. Nú er hins vegar spurning hvernig strákarnir okkar ná að mótivera sig áður en þeir ganga inn á leikvanginn. Ef þeir mæta andstæðingnum með hjartað á réttum stað, standa vörnina og nýta aukaspyrnur og innköst er full ástæða til bjartsýni. Rétt eins og í maí 1989 eigum við okkar fulltrúa úr heimabyggð í íslenska landsliðshópnum. Ef sagan endurtekur sig mun einn þeirra skjótast upp á stjörnuhimininn á laugardaginn og skora markið í Moskvu. Markið sem breytti öllu. Áfram Ísland!

Hér má sjá markið fræga í Moskvu.

 

 

 

 

 

Aldargömul ákvörðun eyfirskra kvenna

Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá því að tekin var ákvörðun um að hefja söfnun til byggingar heilsuhælis á Norðurlandi. Þann 10. júní árið 1918 samþykktu konur í Eyjafirði tillögu Sigurlínu Sigtryggsdóttur um að fara af stað með söfnunina. Þar með hefst stórmerkileg saga Kristneshælis. Seinna á árinu voru sendir út söfnunarlistar um allt land og ávörp birt í blöðum til almennings. Allt gerðist þetta á fullveldisárinu með upphaf sitt í ákvörðun kvenna í hjúkrunarfélaginu Hjálpinni.

Berklar um aldamótin 1900

Um og eftir miðja 19. öldina fór að bera meira á umfjöllun um berkla í skrifum lækna um heilbrigðismál á Íslandi en áður hafði verið. Þó almennt væri álitið að berklarnir væru í sókn leyndust efasemdarmenn í hópi lækna. Með fjölgun héraðslækna á síðustu áratugum aldarinnar og útgáfu heilbrigðisskýrslna, þá fyrstu fyrir árið 1896, fór athyglin að beinast æ meir að sjúkdómnum. Sjúkdómstilfellum fjölgaði jafnt og þétt. Þeim sem fóru með stjórn heilbrigðismála um aldamótin var orðið ljóst að skera yrði upp herör gegn berklasóttinni. Fyrstu lög um berklavarnir voru sett árið 1903. Berklaplágan var orðin að þjóðfélagsmeini og bregðast yrði við henni með einhverjum hætti.

Vífilsstaðir og heilsuhæli á Norðurlandi?

Heilsuhælisfélagið var stofnað árið 1906 í Reykjavík en markmið félagsins var að reisa heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Deildir voru stofnaðar um landið þvert og endilangt til fjársöfnunar fyrirhuguðu heilsuhæli. Stofnfundur deildar í Hrafngilshreppi var haldinn árið 1907 á bænum Grund. Þar kom fram skýr vilji fundarmanna um að stefna ætti að byggingu tveggja heilsuhæla og reisa annað á Norðurlandi. Vegna kostnaðar yrði þó að slá öllum slíkum hugleiðingum á frest. Með samstilltu átaki á landsvísu var fjármögnun heilsuhælis tryggð og og ákvörðun tekin um að hefja framkvæmdir. Hælinu var valinn staður á Vífilsstöðum og tók það til starfa árið 1910. Fljótlega fór þó að bera á óánægjuröddum í Eyjafirði. Stöðugt peningastreymi úr heimabyggð til Vífilsstaða og erfitt ástand í berklamálum heima fyrir kveikti í gömlum glæðum fundarmanna á Grund um heilsuhæli á Norðurlandi.

Konur í Saurbæjarhreppi hefja söfnun

Konur voru í fremstu víglínu á prestssetrinu í Saurbæ í Saurbæjarhreppi þann 25. október árið 1914 þegar hjúkrunarfélagið Hjálpin var stofnað. Sigurlína Sigtryggsdóttir var kosin í embætti formanns. Eitt helsta hlutverk Hjálparinnar var að veita sjúkum í hreppnum, sem ekki dvöldust á sjúkrahúsum, hjúkrun og aðhlynningu lærðrar hjúkrunarkonu. Vöxtur berklanna og fjarlægð við Vífilsstaði var ekki til að auðvelda störf hjúkrunarfélagsins auk þess sem aðstaða til að sinna berklasjúkum á Sjúkrahúsinu á Akureyri var takmörkuð. Árið 2017 gaf Grenndargralið út bókina Í fjarlægð – saga berklasjúklinga á Kristneshæli eftir Brynjar Karl Óttarsson. Hér skal gripið niður í einn kafla bókarinnar þar sem fjallað er um hinn örlagaríka fund í júní 1918 og vinnuna sem fór af stað í kjölfarið:

Gera má því skóna að miklar frosthörkur og hafís veturinn 1917-18 með tilheyrandi erfiðleikum við samgöngur hafi verið fundarkonum ofarlega í huga á aðalfundi í Saurbæ þann 10. júní 1918. Fundurinn var sögulegur í meira lagi. Tillaga formannsins um að hefja söfnun á Norðurlandi til byggingar heilsuhælis í Norðlendingafjórðungi og fyrir geislalækningastofu á sjúkrahúsinu á Akureyri var samþykkt. Í hugum margra markar fundurinn upphaf aðgerða við að reisa Kristneshæli því þó vangaveltur þess efnis hafi reglulega skotið upp kollinum í aðdraganda hans var það ekki fyrr en hinar eyfirsku valkyrjur tóku af skarið og hrintu hugmyndinni í framkvæmd. Eftir að Samband norðlenskra kvenna tók málið upp á sína arma var ekki aftur snúið. Nefnd á vegum Sambandsins, skipuð níu konum með Önnu Magnúsdóttur ljósmyndara á Akureyri í broddi fylkingar, fékk það hlutverk að veita fjársöfnuninni brautargengi. Síðla árs 1918 var sérstökum söfnunarlistum dreift víða um Norðurland og í nóvember sama ár birtist ávarp þar sem almenningur var hvattur til að leggja söfnuninni lið.

Spennandi tímar á Kristnesi

Ákvörðun kvenna í hjúkrunarfélaginu Hjálpinni og í Sambandi norðlenskra kvenna skilaði sér með vígslu Kristneshælis 11 árum síðar, þann 1. nóvember 1927. Á þeim rúmu 90 árum sem liðin eru frá vígslunni hefur hlutverk staðarins tekið umtalsverðum breytingum. Eftir tímabil stöðnunar lítur nú út fyrir að hans bíði nýtt og spennandi hlutverk. Öld er liðin frá því að konur í Eyjafirði hófu söfnun fyrir stofnuninni og enn koma konur mikið við sögu í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í Kristnesi.

Eins og mörgum er kunnugt hefur María Pálsdóttir unnið að því hörðum höndum um nokkurt skeið að opna setur um sögu berklanna á Kristnesi seinna á árinu. Má með nokkrum sanni segja að nýi og gamli tíminn mætist á Kristnesi þessi dægrin. Stór og mikil saga sem nær áratugi aftur í tímann gengur í endurnýjun lífdaga í tveimur nýútgefnum bókum um Kristnes og setri um sögu berklanna. Ljóst er að spennandi tímar eru framundan á þessum fallega og sögufræga stað.

Kristnesbækur á tilboðsverði í júní!

Um þessar mundir eru 100 ár liðin frá því að tekin var ákvörðun um að hefja söfnun til byggingar heilsuhælis á Norðurlandi. Þann 10. júní árið 1918 tóku kvenfélagskonur í Eyjafirði formlega ákvörðun um að fara af stað með söfnunina. Þar með hefst stórmerkileg saga Kristneshælis. Seinna á árinu voru sendir út söfnunarlistar um allt land og ávörp birt í blöðum til almennings. Allt gerðist þetta á fullveldisárinu með upphaf sitt í ákvörðun kvenna í hjúkrunarfélaginu Hjálpinni í Saurbæjarhreppi. Ákvörðun skilaði sér með vígslu Kristneshælis í Eyjafirði 11 árum síðar, þann 1. nóvember 1927.

Árin 2016 og 2017 gaf Grenndargralið út bækurnar Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi. Bækurnar gefa góða mynd af daglegu lífi fólks í eina öld á Kristneshæli og í Kristnesþorpi. Stór og mikil saga sem nær áratugi aftur í tímann gengur þannig í endurnýjun lífdaga í tveimur nýútgefnum bókum frá Grenndargralinu um Kristnes.

Í tilefni af aldargamalli ákvörðun eyfirskra kvenna um að hefja söfnun fyrir heilsuhæli á Norðurlandi býður Grenndargralið upp á sérstakt tilboðsverð á bókunum tveimur saman út júnímánuð, aðeins 5.990 krónur. Hægt er að panta bækur í síma 821 5948 og á facebook-síðu Grenndargralsins.