Nóbelsverðlaunahafi eignast jörðina Reykhús
Það er með þessi blessuðu „ef“ og „hefði“ í samtölum fólks. Orðin tvö leyfa okkur að leika okkur með eitthvað sem varð ekki en hefði mögulega orðið ef eitthvað hefði farið á annan veg en það gerði. Ef Einar hefði keypt Reykhús eins og hann hafði áhuga á og fengið Nóbelsverðlaunin eins og vonir stóðu til…ja, þá hefði fyrirsögnin hér að ofan átt við rök á styðjast.
Hér skulum við bakka örlítið og gera langa sögu stutta. Hallgrímur Kristinsson fæddist á bænum Öxnafellskoti í Eyjafirði árið 1876. Eftir að hafa stundað nám og hin ýmsu störf í heimabyggð giftist hann Maríu Jónsdóttur. Sama ár og þau gengu í hjónaband, árið 1902, hófu þau búskap á jörðinni Reykhús í Hrafnagilshreppi þar sem þau voru með búskap til loka heimsstyrjaldarinnar fyrri. Eitt af fyrstu verkefnum Hallgríms og Maríu eftir að þau komu í Reykhús var að reisa nýtt og fallegt timburhús. Hjónin festu svo kaup á jörðinni árið 1907. Þau eignuðust fjögur börn á búskaparárum sínum í Reykhúsum. Seinna reis Heilsuhæli Norðurlands í landi Kristness, steinsnar frá þeim stað sem Hallgrímur og María reistu sér bæ.
Hallgrímur gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í upphafi 20. aldarinnar. Hann var m.a. kaupfélagsstjóri Kaupfélags Eyfirðinga um tíma og þá var hann forstjóri SÍS um sex ára skeið, hinn fyrsti til að gegna því embætti. Störfunum fylgdu mikil ferðalög og fundahöld og því óhjákvæmilegt að komast í kynni við fólk af öllum stigum þjóðfélagsins. Einn af kunningjum Hallgríms var hinn kunni rithöfundur Einar H. Kvaran. Þeir voru einnig tengdir fjölskylduböndum þar sem mágkona Hallgríms var hálfsystir Einars. Árið 1913 skrifaði Einar leikritið Lénharður fógeti sem Leikfélag Akureyrar tók til sýninga árið eftir. Með hlutverk fógetans fór Hallgrímur Kristinsson og fórst það vel úr hendi ef marka má leikhúsgagnrýni í dagblaðinu Norðurlandi (9. tbl. 28.02.). Árið 1928 skrifaði Einar söguna Reykur og ári síðar söguna Hallgrímur. Er það kannski til marks um tengsl hans og Hallgríms í Reykhúsum?
Á árunum 1915-1917 dvaldist Hallgrímur í Kaupmannahöfn vegna starfa sinna fyrir SÍS. Á þeim tíma var hann farinn að hugsa sér til hreyfings, frá Reykhúsum til Akureyrar. Hann íhugaði að selja Reykhús og flytjast búferlum ásamt Maríu sinni og börnunum fjórum. Í einu af fjölmörgum bréfum sem Hallgrímur skrifaði heim frá Kaupmannahöfn nefnir hann áhuga Einars H. Kvaran á að festa kaup á jörðinni, þó ekki fyrir sig sjálfan heldur Ragnar son sinn. Árið 1923 bárust fréttir frá Svíþjóð þess efnis að Einar kæmi til greina sem næsti handhafi bókmenntaverðlauna Nóbels. Komið væri að Íslandi að eignast einn slíkan og Einar væri efstur á blaði af íslenskum rithöfundum. Nokkru síðar fékkst staðfest að nafn Einars væri á borði sænsku akademíunnar. Ekkert varð af því að eigandi Reykhúsa í Eyjafirði hlyti Nóbelsverðlaun. Jörðin var orðin of dýr vegna viðhalds og hækkandi verðlags svo skáldið Einar hafði ekki efni á henni. Hvað Nóbelsverðlaunin snerti þá féllu þau honum ekki í skaut. Sumum þótti sem sænska akademínan hefði fallið frá hugmyndum sínum vegna ummæla sem Sigurður Nordal prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands hafði þá látið falla í sænsku vikublaði. Urðu þónokkrar blaðadeilur út af ummælum Sigurðar.
„Kvaran er tvímælalaust góður smásagnahöfundur, en verk hans eru ekki í þeim gæðaflokki að þau megi með gildum rökum nefna til Nóbelsverðlauna.“
Sigurður Nordal
Þó Nóbelsverðlaunahafinn Einar hafi ekki gengið um grasi grónar brekkurnar í Reykhúsum og Kristnesi á árum fyrra stríðs gerði verðandi Nóbelsverðlaunahafinn Halldór það í aðdraganda seinna stríðs. Árið 1937 heimsótti Laxness berklasjúklinga á Kristneshæli. Ekki þótti þó öllum vistmönnum Hælisins mikið til heimsóknar hans koma.
„…Fyrir stuttu síðan kom hinn alkunni alþýðuvinur og skáld Halldór Kiljan Laxness hingað, og fékkst hann ekki, þrátt fyrir marg ítrekaðar og misheppnaðar tilraunir til að segja neitt sjúklingunum til skemmtunar. Verðum vér því að telja þetta ókurteisis, frekar en kurteisisheimsókn, enda komumst við að raun um það, ef við lítum á hann í „ljósi heimsins“, að hér er mjög sjálfstæður maður á ferð, bæði hvað skáldskap og kurteisi viðkemur…“
Úr Gáska, blaði gefnu út af vistmönnum Kristneshælis í ágúst 1937
Hallgrímur Kristinsson lést að heimili sínu í Reykjavík þann 30. janúar árið 1923, 46 ára aldri. Dánarorsök var botnlangabólga. María Jónsdóttir flutti norður á heimaslóðir með börnin um vorið. María og börnin bjuggu í Reykhúsum til ársins 1931 þegar þau fluttu aftur til höfuðborgarinnar. María lést árið 1954, tæplega áttræð að aldri.
Einar H. Kvaran lést 1938, ári eftir heimsókn Halldórs Laxness á Kristneshæli. Sextíu ár liðu áður en Halldór fór á fund feðra sinna. Við gerð bókar um líf berklasjúklinga á Kristneshæli – Í fjarlægð – sem kom út árið 2017 fundust óvænt heimildir í rykföllnum pappakassa sem gefa til kynna kunningsskap Nóbelsskáldsins við íbúa í Kristnesþorpi á seinni hluta 20. aldarinnar. Svo virðist sem sú vinátta hafi varað um áratuga skeið. Það er efni í sérstaka umfjöllun.