main image

Toto og Big Country í Saurbæjarhreppi

Rokkhljómsveitin Guns N´Roses er á leiðinni til landsins. Fréttir þess efnis bárust á dögunum. Ef rétt reynist mun hljómsveitin spila á Laugardalsvelli þann 24. júlí nk. Fregnir herma að tónleikarnir verði hinir stærstu sem haldnir hafa verið á íslenskri grundu – ljósin og hljómkerfið flutt sérstaklega til landsins sem og 65 metra breitt sviðið! Til samanburðar má nefna að stærsta svið sem hingað til hefur litið dagsins ljós hér á landi vegna tónleikahalds var 24 metrar að breidd.

Án nokkurs vafa eru fréttir af komu Axl Rose, Slash og hinna goðsagnanna á rökum reistar. En er þar með sagt að tónleikarnir verði að veruleika? Í ár eru 30 ár liðin frá fyrirhuguðum stórtónleikum heimsþekktra tónlistarmanna hér á klakanum. Sumt er keimlíkt með þessum tveimur málum. Árið 1988 náðust samningar við Reykjavíkurborg og aðila í London til að tryggja áður óséða og óheyrða upplifun tónleikagesta og gera þannig tónleikana að einhverjum þeim stærstu í Íslandssögunni.  

Nokkrir ungir ofurhugar á Akureyri tóku sig saman og ákváðu að standa fyrir útihátíð um verslunarmannahelgina árið 1988. Ein með öllu ´88 á Melgerðismelum í Eyjafirði. Fréttaflutningur af hátíðinni byrjaði heldur betur með látum. Lesendur Dags vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þann 5. maí þegar við þeim blasti frétt um að „nær öruggt“ væri að ameríska stórhljómsveitin Toto myndi spila á Melgerðismelum. Stefnt hafði verið að því að meðlimir hljómsveitarinnar tækju beint flug frá Bandaríkjunum til Akureyrar. Í sömu frétt kom fram að fleiri listamenn hefðu komið til greina sem skemmtikraftar á hátíðinni en að af komu þeirra yrði ekki. Huey Lewis and the News, Bruce Springsteen og Michael Jackson voru nefndir til sögunnar. Aðeins átti eftir að skrifa undir samning við Toto þegar bárust fréttir frá Ameríku um að hljómsveitin kæmi ekki til Eyjafjarðar.

Þann 20. júní birti DV frétt á baksíðu blaðsins sem mögulega gladdi vonsvikna Toto-aðdáendur. Blaðið taldi sig hafa öruggar heimildir fyrir því að búið væri að semja við skosku stórhljómsveitina Big Country um að koma og spila í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði. Í júlímánuði var upplýst um frekari fyrirætlanir hljómsveitarinnar. Ekki einungis ætlaði hún að troða upp við gamla herflugvöllinn á Melgerðismelum heldur voru uppi áform um að kvikmyndatökulið frá sjónvarpsstöðinni Channel 4 í London fylgdi hljómsveitinni til að taka tónleikana upp. Ætlunin var að taka upp myndband við lag á óútkominni plötu sveitarinnar Peace in our time. Platan kom út mánuði eftir fyrirhugaða tónleika á Melunum. Áfram bárust reglulega fréttir af gangi mála og og oftar en ekki jákvæðar.

Samningar náðust milli hljómsveitarinnar og aðstandenda útihátíðarinnar um að pantaður yrði tækjabúnaður að utan til að gera tónleikana sem stærsta. Þá var samið við Reykjavíkurborg um leigu á hljómflutningskerfi borgarinnar, samtals um 25.000 watt að styrkleika. Svo virtist sem einungis formsatriði væri að staðfesta komu skosku sveitarinnar.

„Þeir spila þrælskemmtilegt, kraftmikið rokk og ætli maður skelli sér ekki bara norður til að sjá kappana.“                                                                                                 

Pétur Kristjánsson söngvari

Sennilega hafa einhverjir orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir sátu með kaffibollann sinn og lásu Dag föstudaginn 15. júlí. „Big Country kemur ekki“ var fyrirsögn fréttatilkyningar. Skýringin var óhóflegar kröfur hljómsveitarinnar þegar kom að tækjabúnaði. Þegar á reyndi óskuðu forsvarsmenn hljómsveitarinnar eftir því að henni yrði tryggt 90.000 watta hljómflutningskerfi, 30 sinnum sterkara en það sem akureyrska gleðisveitin Skriðjöklar notaðist við á þessum tíma en þeir voru einmitt hluti af skemmtidagskrá hátíðarinnar. Kröfurnar voru óraunhæfar svo vægt sé til orða tekið en þær stóðu óhaggaðar. Samningum var því rift.

Þrátt fyrir skort á heimsfrægum, erlendum hljómsveitum skemmtu nokkur þúsund ungmenni sér vel á Melgerðismelum, helgina 29. – 31. júlí. Ýmsar hljómsveitir, sumar „heimsþekktar“ á Íslandi tróðu upp auk þess sem ein erlend hljómsveit skemmti hátíðargestum. Viking band frá Færeyjum hélt uppi heiðri útlendinganna.

Nú vonum við bara að kaffiþyrstir lesendur dagblaðanna og aðdáendur Guns N´Roses verði ekki fyrir vonbrigðum í sumar.

Með því að smella á myndina má sjá meðlimi Big Country flytja eitt af þeirra vinsælustu lögum, The Teacher