Herra Higgins furðaði sig á borðvenjum Akureyringa sumarið 1862
Akureyringar minntust þess sumarið 2012 að 150 ár voru liðin frá því að bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Sjálfsagt hafa Akureyringar fagnað kaupstaðarréttindunum þann 29. ágúst árið 1862 þó lítið hafi verið fjallað um málið í staðarblaðinu Norðanfara á þeim tíma.
Á meðan Akureyringar undirbjuggu aðskilnað frá Hrafnagilshreppi sumarið 1862 ferðaðist 28 ára gamall maður frá Exeter í Englandi um Ísland. Einn af áfangastöðunum var Akureyri. Á meðan ferðalaginu stóð skráði hann það sem fyrir augu bar. Afraksturinn kom út árið 1863 í bókinni Iceland: Its scenes and sagas. Maðurinn hét Sabine Baring-Gould.
Gould og Browne sigla til Íslands
Sabine Baring-Gould sigldi frá Skotlandi þann 10. júní áleiðis til Íslands. Skipið hét Arcturus, var smíðað 1857 og var í eigu dansks skipafélags. Með í för var Bandaríkjamaður að nafni John Ross Browne. Á milli þeirra átti eftir að myndast góður kunningsskapur. Báðir voru þeir ævintýramenn, ferðuðust víða um heiminn og skráðu ferðasögur. Arcturus kom til Reykjavíkur 16. júní og þá skildu leiðir.
Eftir að hafa skoðað Reykjavík og keypt hesta af Íslendingum lagði Gould af stað í hestaferð um gjörvallt Ísland að kvöldi fimmtudagsins 19. júní. Með í för voru þrír samlandar hans, þrír íslenskir leiðsögumenn og tuttugu hestar. Seint um kvöldið komu þeir til Þingvalla þar sem þeir tjölduðu í kirkjugarðinum. Þar dvöldust þeir um nóttina áður en þeir héldu áfram morguninn eftir. Á Þingvöllum hittust þeir Gould og Browne aftur en það var jafnframt í síðasta skipti sem leiðir þeirra lágu saman á Íslandi. Browne hafði aðeins ætlað að staldra við á Íslandi í nokkra daga og var á leiðinni til baka til Reykjavíkur þaðan sem hann ætlaði að sigla til Persíu. Browne var þekktur blaðamaður og rithöfundur í heimalandi sínu. Hinn kunni rithöfundur Mark Twain var góðkunningi John Ross Browne.
Tvö tré á Akureyri vekja athygli Gould
Sabine Baring-Gould var á Akureyri dagana 5. – 7. júlí. Þaðan hélt hann áleiðis til Mývatnssveitar en kom svo aftur við á Akureyri um miðjan mánuðinn. Í bók sinni segir Gould nokkuð ítarlega frá kynnum sínum af Akureyringum og bænum sjálfum. Hann nefnir kirkjuleysi bæjarbúa. Þegar hann kemur til Akureyrar blasir við honum vísir að fyrstu kirkju bæjarins og gefur hann lítið fyrir arkitektúrinn – segir Íslendinga ekki átta sig á möguleikunum sem timbur hafi þegar kemur að fagurfræði byggingarlistar. Hann talar um afþreyingu bæjarbúa yfir vetrartímann sem sé helst sú að spila á spil og dansa við gítarundirspil og að einn stærsti viðburðurinn í bæjarlífinu sé fyrsta skipakoma ársins frá Kaupmannahöfn. Skipið flytji langþráða vor- og sumarkjóla, húsgögn og annað sem bæjarbúar hafi beðið eftir mánuðum saman.
Sabine Baring-Gould lýsir húsnæði kaupmannanna á Akureyri og segir þau notaleg þar sem myndir af Kaupmannahöfn og danska kónginum hangi á veggjum. Hann segir af kynnum sínum af kaupmanninum Jóhann G. Havsteen sem tók á móti honum þegar hann kom í bæinn laugardaginn 5. júlí. Havsteen sýndi af sér mikla gestrisni, bauð Gould velkominn og boðið var upp á kaffi og kökur að hætti danskra kaupmanna. Eftir kaffidrykkju hjá Havsteen heimsótti Gould prentara tímaritsins Norðra í litla trékofann hans eins og Gould orðar það (small wooden cottage). Eftir heimsóknina beið hans vel útilátinn kvöldverður hjá Havsteen kaupmanni. Á borðum var m.a. reyktur lax, bjúgu, skinka, kindakjöt með bláberjasósu og kartöflum, hákarl, hvalur og selur. Þá var Bavarian öl, þýskt vín og koníak til að skola öllu niður með. Gould virðist nokkuð undrandi yfir borðvenjum Akureyringa. Ekki tíðkist að fara með borðbæn fyrir eða eftir málsverð. Hins vegar takist fólk í hendur eða kyssist eftir matinn og segi; „Tak for mad“. Gould minnist á tré í garðinum hjá Havsteen og segir það vera stærsta tré landsins. Á heitum sumardögum snæði fjölskyldan undir trénu og líki þannig eftir dönskum garðveislum. Þá nefnir hann annað tré fyrir utan annað hús í bænum (Laxdalshús ?). Þessi tvö tré séu eitthvað það allra merkilegasta sem bærinn bjóði upp á! Eftir kvöldverðinn gekk Gould um fjöruna þar sem hann rakst á enskt skipsflak í flæðarmálinu sem hann segir Akureyringa endurnýta sem byggingarefni. Gould eyddi sunnudagsmorgninum í sólbaði við kirkjubygginguna áður en hann heimsótti Svein Skúlason, ritstjóra Norðra. Sveinn sýndi honum nokkur fornhandrit þ.á.m. Sturlunga sögu.
Mánudaginn 7. júlí yfirgaf Sabine Baring-Gould Akureyri en staldraði við í bænum að nýju um miðjan mánuðinn. Kurteisi bæjarbúa er honum ofarlega í huga. Í seinni heimsókninni til Akureyrar keypti hann fornhandrit af fátækum manni í bænum. Maðurinn sá sér þann kost vænstan að selja þau til að eiga fyrir salti í grautinn. Gould lét það ekki aftra sér þrátt fyrir að maðurinn skyldi afhenda honum handritin með tárin í augunum. Mánudaginn 14. júlí yfirgaf Gould Akureyri og hélt ferð sinni áfram um landið. Þann 9. ágúst 1862 var Sabine Baring-Gould kominn til Liverpool, tveimur mánuðum eftir að hann lagði af stað frá Skotlandi til Íslands. Tuttugu dögum síðar fengu Akureyringar kaupstaðarréttindi.
Er Sabine Baring-Gould fyrirmyndin að Henry Higgins?
Sabine Baring-Gould fæddist 28. janúar 1834. Hann fékkst við hin og þessi störf um ævina. Hann var kennari, prestur, þjóðminjavörður og rithöfundur. Ógrynni af textum ýmiskonar liggja eftir Gould en hann var einn afkastamesti rithöfundur síns tíma í Englandi. Þekktastur er hann sennilega fyrir tvo sálma sem hann orti árið 1865, þremur árum eftir að hann var staddur á Akureyri. Þetta eru hinir kunnu sálmar Now The Day Is Over og Onward, Christian Soldiers (Áfram Kristsmenn, krossmenn í íslenskri þýðingu séra Friðriks Friðrikssonar). Þá kannast margir við jólasálminn Gabriel´s message en sálminn þýddi Gould úr basknesku yfir á ensku.
Árið 1868 giftist Gould 16 ára gamalli stúlku, Grace Taylor en saman áttu þau 15 börn. Grace lést árið 1916. Einn af góðvinum Sabine Baring-Gould var írski rithöfundurinn og nóbelsverðlaunahafinn George Bernard Shaw. Sagan segir að ástarsamband þeirra Gould og Taylor hafi orðið kveikjan að sögu hans, Pygmalion. Shaw hlaut óskarsverðlaun fyrir handrit að samnefndri kvikmynd árið 1938. Út frá handritinu varð síðar til Hollywood-kvikmyndin My Fair Lady með þeim Rex Harrison og Audrey Hepburn í aðalhlutverkum. Sabine Baring-Gould og Grace Taylor urðu þannig fyrirmyndin að herra Higgins og fröken Doolittle. Sabine Baring-Gould er sennilega einn fárra af holdi og blóði sem hafa hitt sjálfan Sherlock Holmes. Árið 1998 kom út glæpasagan The Moor eftir ameríska rithöfundinn Laurie R. King. Bókin fjallar um spæjarana Mary Russel og Sherlock Holmes. Í bókinni hitta þau prest sem biður þau um aðstoð við að leysa ráðgátu. Presturinn er „Akureyrarvinurinn“ Sabine Baring-Gould.
Stóran hluta ævinnar eyddi Gould í endurbætur á heimili sínu í Lew Trenchard í Devonsýslu í Suðvestur-Englandi. Sabine Baring-Gould lést þar þann 2. janúar árið 1924. Hann er jarðaður við hlið konu sinnar til 48 ára, Grace Taylor.
Greinin birtist áður í opnu Grenndargralsins í Akureyri vikublaði í nóvember 2013.