Æskuvinirnir horfðu á Hælið brenna

Eftirfarandi umfjöllun er byggð á frásögnum tveggja æskuvina  sem ólust upp saman í Kristnesi í Eyjafirði á fyrri hluta 20. aldar. Bjarni Jónasson Rafnar var sonur Jónasar Rafnar en hann var yfirlæknir á Kristneshæli. Bjarni bjó á meðal berklasjúklinga með foreldrum sínum og systkinum þar til hann flutti í sérstakan læknisbústað sem reistur var í kjölfar bruna sem varð á Hælinu í janúar árið 1931. Þormóður Helgason var fæddur og uppalinn á sveitabænum Kristnesi þar sem hann bjó með móður sinni og afa. Þeir félagarnir urðu vitni að brunanum. Frásögn þeirra má finna í bókinni Lífið í Kristnesþorpi – Frá uppvexti til blómaskeiðs og tilvistarkreppu sem og frásagnir fleiri sem búið hafa á landnámsjörð Helga magra síðustu 90 árin. Grenndargralið gaf bókina út árið 2016.

Að kvöldi miðvikudagsins 7. janúar 1931 varð bruni á þaki Kristneshælis. Slökkviliði frá Akureyri tókst að koma í veg fyrir að eldurinn teygði sig niður á neðri hæðir byggingarinnar auk þess sem steypt gólfplatan hélt aftur af eldinum. Þegar slökkvistarfi lauk hafði eldurinn kraumað í u.þ.b. fjórar klukkustundir. Engum varð meint af brunanum nema hjúkrunarkonu einni sem freistaði þess að bjarga eigum sínum. Hún brenndist illa. Þormóður og Bjarni segja svo frá:

Þrátt fyrir ungan aldur man ég vel eftir brunanum á Hælinu 1931. Þá sátum við heima í rólegheitum. Ég var þriggja eða fjögurra ára. Allt í einu birtist Grímsi gamli afabróður minn. Við vorum að hlusta á grammafón hjá afa, á nýjar plötur sem voru teknar af karlakórnum Geysi árið 1930. Þær voru að koma út um þetta leyti. Við vorum að trufla þarna samsæti, við krakkarnir. Við strákarnir vorum algjörlega snar að hlusta á þessar plötur. Það var verið að spila þær þegar Grímur kom í dyrnar og sagði Hælið vera að brenna! Við hlupum í norðurherbergið og þar blasti þetta við manni. Annar endinn var alelda en svo færðist eldurinn yfir. Menn héldu að hann myndi stöðvast við stafninn í miðjunni en það var ekki aldeilis. Hann hélt áfram hægt og rólega. (Þormóður)

Ég man svo vel eftir hælisbrunanum. Þegar allt þakið logaði. Fólk var ekki beint í hættu. Það voru allir fluttir af efstu hæðinni, eða efri hæðinni, og niður. Jú auðvitað var í sjálfu sér hætta, þetta var í norðangolu að vetri til í myrkri. Ég man eftir því að við krakkarnir fórum út fyrir Hælið til að sjá þetta. Ég gerði mér nú eiginlega ekki alveg grein fyrir því hversu voðalegt ástand þetta var. Þá logaði allt þakið, á allri byggingunni. Þarna brann bara allt sem brunnið gat. Þetta var voðalegt að sjá þetta. En svo var þetta bara byggt upp mjög fljótt eftir það. (Bjarni Rafnar)

 

Sagt er frá brunanum í Morgunblaðinu 8. janúar 1931. Þar kemur fram að þrjátíu slökkviliðsmenn voru á staðnum með útbúnað til slökkvistarfa. Vegna erfiðleika við að tengja stærri slöngur við vatnslása urðu slökkviliðsmenn að notast við kraftlitlar garðslöngur sem hægði umtalsvert á slökkvistarfinu.

Það voru ábyggilega allir verkfærir menn komnir þangað til að hjálpa til. Ábyggilega ekki staðið á því að bera fólkið niður, að færa það niður af efstu hæðinni. Ég sofnaði út frá þessu. Það var mikið gert grín að slökkvibílnum. Hann var sagður svo lélegur að hann hefði ekki haft sig upp hælisveginn. Ég veit ekki hvort sagan var login eða sönn. Vegirnir voru náttúrulega ekki merkilegir. En þetta gekk. (Þormóður)

Skemmdir urðu töluverðar. Þak og ris brann til kaldra kola og allir innanstokksmunir. Persónulegir munir sjúklinga og starfsfólks svo sem fatnaður og peningaseðlar sem voru geymdir í koffortum, urðu eldinum að bráð. Nokkurt tjón varð á 2. hæð, sprungur í veggjum og skemmdir á sængurfatnaði.

Svo var verið að gera sér grein fyrir því hvað þakið hefði þolað. Hvort það þyrfti að steypa nýja plötu. Það var prófað þannig að fyrst var það mælt hvað mikið af sandi var hægt að setja upp á loftið. Þetta var ótrúlegt. Fötur voru hífðar þarna upp og settar sandhrúgur hér og þar á þakið og mælt svo hvort það hefði sigið nokkuð. Það sýndi sig að það var hvergi neinn veikleiki í því. Þetta er mér afskaplega minnisstætt. (Bjarni Rafnar)

 

Þakhæðin var endurreist á vordögum og í kjölfar brunans var hafist handa við að byggja læknisbústað norðan  við Hælið. Miklar vangaveltur urðu um orsök eldsvoðans. Opinber skýring var biluð rafmagnsleiðsla. Fleiri möguleikar voru þó nefndir til sögunnar.

Mikið var talað um hvað olli brunanum og einhver þóttist  vita að það hefði einhver í ógætni hent sígarettustúf í ruslafötu þarna uppi á loftinu. Það var mikið um þetta rætt og talað og það var ein kona sem brann dálítið mikð hár af. Ég held að hún hafi nú samt ekki verið þarna uppi á þakinu. En þarna misstu sjúklingarnir…þarna voru geymslur, dótið þeirra og þarna var mikið af dóti sem pabbi átti, bækur og annað. Það brann allt saman. (Bjarni Rafnar)

Um mitt sumar 1931 birtist auglýsing í Verkamanninum þar sem óskað var eftir tilboðum vegna byggingar læknisbústaðarins. Hafist var handa og unnið hratt og örugglega þannig að byggingu bústaðarins var svo gott sem lokið um áramótin. Læknisbústaðurinn reis í landi Reykhúsa, nokkrum metrum norðan við landamerki Reykhúsa og Kristness. Kristneshæli fékk landspilduna til umráða árið 1933. Íbúð yfirlæknis á Hælinu var nú ætlað nýtt hlutverk, að hýsa sjúklinga og þannig draga úr þrengslum. Í dagbók Jónasar Rafnar, frá febrúar 1932, má finna færslu þar sem segir frá vistaskiptum hans, Ingibjargar konu hans og barnanna yfir í nýja læknisbústaðinn. Með þeim flutti hluti af starfsfólki Hælisins.

Læknisbústaðurinn er fyrsta íbúðarhúsnæðið sem byggt er samfara starfsemi Kristneshælis. Þar með hefst þéttbýlismyndun á landnámsjörð Helga magra í tengslum við þá þjónustu sem Kristneshæli var ætlað að veita hinum sjúku.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd