Akureyringur varð vitni að blóðbaðinu í Batoche

Jón Júlíus Jónsson var fæddur á Akureyri 19. júlí árið 1858, sonur hjónanna Jóns Jónssonar járnsmiðs og Þórunnar Kristjánsdóttur. Jón Júlíus ólst upp í hópi systkina en yngri bróðir hans var hið kunna skáld Kristján Níels Júlíus Jónsson (Káinn). Jón Júlíus upplifði róstusama tíma á uppvaxtarárum sínum á Akureyri. Fjögurra ára gamall varð hann vitni að því þegar langþráður draumur margra samferðamanna hans á Akureyri varð að veruleika þegar bærinn fagnaði kaupstaðarréttindum árið 1862. Hver veit nema Jón litli hafi verið í grenndinni ári síðar þegar frú Vilhelmina Lever verslunarkona á Akureyri kaus fyrst allra kvenna á landinu í sveitarstjórnarkosningum? Á unglingsaldri missti hann móður sína og stuttu síðar (1876) sigldi hann yfir hafið til að hefja nýtt líf í Kanada. Þegar til Vesturheims var komið hóf Jón að starfa við járnbrautarlagningu. Árið 1880 giftist hann Jónínu Kernested frá Gimli. Þau eignuðust fimm börn.

Tæpum áratug eftir að Jón flutti erlendis gerðu indíánar uppreisn gegn yfirráðum hvíta mannsins á svæðum í Kanada þar sem Íslendingar höfðu tekið sér bólfestu. Jón Júlíus skráði sig í 95. herdeildina í Winnipeg sem ásamt öðrum herdeildum var send til að bæla niður uppreisnina. Jón Júlíus hélt ásamt u.þ.b. 20 öðrum Íslendingum á vígvöllinn undir forystu hershöfðingjans Frederick D. Middleton. Jón og herflokkur hans var í hópi þeirra fyrstu sem mættu indíánunum við Fish Creek föstudaginn 24. apríl.

Eftir að hersveitin hafði haldið fimm mílur vegar um morguninn af og til gegnum dálitla skógarrunna, heyrði hún skothríð framundan sér. Voru uppreistarmenn þar þá fyrir og sendu hersveitinni fyrstu kveðju sína. Hvatti Middleton herforingi sveitina þá til öruggrar framgöngu og var þá hlaupið fram all-langa leið. En þar kom, að hún stóð í dæld nokkurri með knédjúpu vatni, en skógar og hæðir umhverfis. Var þar allmargt af Indíánum og gægðust þeir fram undan trjánum og skutu hver í kapp við annan á hersveitina, sem stóð í pollinum, þreytt og móð eftir hlaupin. Engu síðar veitti hún hraustlega viðnám og sendi Indíánum kúlnahríð all-harða inn í skóginn. Stóð orusta þessi í þrjár eða fjórar klukkustundir. Hörfuðu þá Indíánarnir lengra inn í skóginn, en hermennirnir sóttu á eftir þeim með ópi og eggjunarorðum, þangað til herlúðurinn var þeyttur og þeir kallaðir til baka aftur, en þá sóttu Indíánar aftur á eftir þeim. Skeytti hersveitin þeim þá ekki, en færði sig upp úr dældinni og vatninu út á sléttur nokkurar lengra frá skóginum og nam þar staðar, þegar hún var svo langt komin, að kúlur óvinanna náðu henni ekki. Fjórir eða fimm menn féllu en 40 særðust og sumir til ólífis. Enginn Íslendinganna varð sár. (Almanak Ólafs S. Thorgeirsson, 1905, bls. 98-99)

Jón Júlíus og félagar hans dvöldust við Fish Creek í hálfan mánuð í herbúðum. Middleton hershöfðingi beið eftir hríðskotabyssu (Gatling Gun) en von var á henni frá Bandaríkjunum. Hægt var að skjóta 100 skotum á mínútu úr byssunni. Þegar stríðstólið barst skipaði Middleton hermönnum sínum að halda til Batoche í Saskatchewan þar sem Louis Riel, foringi uppreisnarmanna hélt sig. Laugardaginn 9. maí braust út bardagi mikill þar sem munaði um hríðskotabyssu Middleton.  Áfram var barist næstu daga. Úr röðum indíána féllu yfir 60 manns og nálægt 100 manns særðust. Jón Júlíus og félagar sluppu betur úr þessum mikla hildarleik. Átta af mönnum Middletons féllu og 42 særðust. Eftir orustuna við Batoche gáfust margir uppreisnarmenn upp og foringinn Riel var handtekinn þann 15. maí. Nokkrir úr röðum uppreisnarmanna neituðu þó að gefast upp og fór þar fremstur í flokki indíáninn Big Bear (Mistahi-maskwa). Hann gafst þó upp að lokum. Þann 14. júlí kom Jón Júlíus aftur heim til Winnipeg úr þessari miklu svaðilför ásamt öðrum úr her Middleton. Mikil hátíðarhöld brutust út í borginni og var hermönnunum fagnað sem hetjum. Íslendingar á svæðinu voru með sérstaka samkomu til heiðurs samlöndum sínum sem tóku þátt í leiðangrinum. Við það tilefni hélt Jón Júlíus ræðu þar sem hann deildi reynslu sinni af stríðsátökunum með samkomugestum. Af foringja uppreisnarmanna, Louis Riel, er það það að segja að hann var fundinn sekur um uppreist og dæmdur til hengingar.  

Jón Júlíus Jónsson lést að heimili dóttur sinnar í Winnipeg þann 9. september árið 1933. Hann var 75 ára gamall.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd