Kvikmyndahús nostalgíunördanna – Af hverju ekki?

Er aðili þarna úti í þörf fyrir að stuðla að menningarsköpun í heimabyggð og kannski upplifa vott af ævintýramennsku í leiðinni? Ef svo, ætla ég að gera honum tilboð sem hann getur ekki hafnað. Af hverju opnar hann ekki þriðja kvikmyndahúsið á Akureyri? Eins og tvö sé ekki nóg? Jú, kannski þar sem nýjar myndir eru sýndar. En hvað með að grafa upp gamlar gersemar úr kvikmyndaheiminum, Akureyringum og nærsveitungum komnum af léttasta skeiði til yndisauka og dægrastyttingar? Jújú, stundum er gamalt ekki kúl, ekki líklegt til vinsælda o.s.frv. Til dæmis gömul sjónvarpstæki. Túbusjónvörp. Þau eru ekki líkleg til að slá í gegn á markaðnum ef einhverjum skyldi detta í hug að koma þeim aftur í sölu. Ekki strax. Mögulega eftir nokkra áratugi þegar þau komast á retroaldurinn – gömul en ekki ævaforn. Eins er með bíómyndir. Og víst er að fjöldi mynda sem hefur náð retrostiginu er nægur til að fullnægja þörfinni svo ekki sé talað um eldri myndir í bland sem fengið hafa enn virðulegri sess. Retromyndir þar sem saxófónn og sítt að aftan leika sitt hlutverk og klassískar myndir sem flytja áhorfandann aftur til daga „litlausu“ Hollywood-stjörnunnar með sinn sterka karakter. Myndir sem hreyfa við fólki kynslóð eftir kynslóð. Myndir sem draga fram hughrif bernskuáranna, minningar frá unglingsárunum og kveikja mögulega í gömlum glæðum. Tvö kvikmyndahús í bænum tryggja mikið og fjölbreytt úrval bíómynda. Við fögnum því. Þau gera vel í því að bjóða upp á nýjustu kvikmyndirnar. Nútímahetjur hvíta tjaldsins höfða þó misjafnlega til þeirra sem ólust upp við Monroe, Redford og Weaver. Að koma sér fyrir í sófanum með snakk og endurnýja kynnin við hetjur fortíðar, jafnvel hafa gamlan vin í mat á undan, verður því gjarnan fyrir valinu á kostnað bíóferðar. Kostnaði við kvikmyndahús „nostalgíunördanna“  mætti halda í lágmarki með hæfilegri yfirbyggingu og takmarkaðri þjónustu. Íburðurinn þarf ekki að vera svo mikill þegar mann langar bara að setjast niður í rólegheitum með popp og Kók og gleyma sér með Tom Cruise og Kelly McGillis í háloftunum.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd