Saga berklasjúklinga á Kristneshæli er komin út

Bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli er komin út. Höfundur er Brynjar Karl Óttarsson umsjónarmaður Grenndargralsins. Vinna við bókina hófst árið 2000 þegar heimildaöflun vegna lokaritgerðar til B.-ed prófs við Kennaraháskóla Íslands fór af stað. Ritgerð var skilað fullunninni vorið 2001 en heimildaöflun hélt áfram til ársins 2004. Þá var gert hlé á vinnunni en unnið áfram með hléum allt til ársins 2016 þegar vinna hófst af fullum krafti aftur. Mikið magn upplýsinga hefur verið safnað saman og er áhersla lögð á sögu sjúklinganna og daglegt líf þeirra.

Bókin byggir að miklu leyti á sögum fyrrverandi vistmanna á Kristneshæli sem höfundur hefur skrásett um nokkurra ára skeið. Sögurnar, sem hvergi hafa birst áður, gefa innsýn í daglegt líf á Hælinu. Endalaus bið og tilbreytingarsnauð tilvera þar sem dauðinn var daglegt brauð knúði á frumkvæði og framtakssemi sjúklinga. Stofnun hagsmunasamtaka, bætt vinnuaðstaða og fjölbreyttara félagslíf gerði hið daglega líf berklasjúklingsins bærilegra. Stuðst er við dagbækur, sendibréf, blaðagreinar, fundargerðabækur og fleiri heimildir. Bókin hefur að geyma fjölda áður óbirtra ljósmynda sem glæða frásögnina lífi. Afraksturinn er heildstæð samantekt um líf fólksins á Kristneshæli.

Herdís Björk Þórðardóttir sá um umbrot bókarinnar. Ásprent Stíll annaðist prentun. Grenndargralið gefur út. Fylgjast má með framvindu mála á Facebook-síðu verkefnisins.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd