Hollvinir Kristneshælis bindast samtökum
Stofnfundur Hollvina Hælisins var haldinn að kvöldi fimmtudagsins 21. september sl. í húsnæði Verk-Smiðjunnar að Glerárgötu 34. Hugmyndin að baki samtökunum er að mynda hóp áhugasamra einstaklinga og fyrirtækja/stofnana sem ætlað er að styðja við uppsetningu og rekstur á setri um sögu berklanna að Kristnesi í Eyjafjarðarsveit, kaffihúsi og mögulega gistiaðstöðu. Kristneshæli var vígt þann 1. nóvember árið 1927 og fagnar því 90 ára afmæli í ár. Hælið varð heimili fjölda einstaklinga á öllum aldri næstu áratugina. María Pálsdóttir leik- og athafnakona hefur unnið ötullega að því um nokkurt skeið að draumurinn um berklasafn á æskuslóðum hennar verði að veruleika. Hún hefur setið að samningaborðinu í því skyni að fá húsnæði á Kristnesi undir fyrirhugað safn. Samhliða þeirri vinnu hefur hún sankað að sér munum og öðrum heimildum sem tengjast sögu berklanna.
Tilgangur nýju samtakanna verður að styðja og styrkja stofnun og starfsemi setursins undir merkjum HÆLISINS t.a.m. með fjárhagslegum og faglegum stuðningi og myndun tengslanets. Stefnt verður að því að efla tengsl við samfélagið og sérstaklega þá sem tengjast sögu berklanna með einum eða öðrum hætti. Samtökin eru hugsuð sem vettvangur fyrir kynningu á setrinu. Aðild að samtökunum er opin öllum sem vilja vinna að markmiðum þeirra enda greiði þeir árlegt félagsgjald, krónur 2.500 pr. einstakling.
Á fundinum skýrði María frá því hvernig hugmyndin varð til og með hvaða hætti mál hafa þróast síðan. Hún kynnti hugmyndir sínar um framsetningu á setrinu og lagði áherslu á að ekki yrði um „hefðbundið“ safn að ræða með myndum og texta á veggjum og munum á borðum eingöngu. Hún nefndi m.a. leikræna útfærslu þar sem hún og mögulega aðrir starfsmenn setursins klæddust búningum og færu í hlutverk vistmanna og starfsfólks Hælisins.
Á þriðja tug mættu á stofnfundinn. Sköpuðust nokkrar umræður um berklana og Kristneshæli. Regína Torfadóttir sagði frá reynslu sinni af dvöl á Hælinu en hún dvaldist þar um tveggja og hálfs árs skeið sem barn í byrjun sjötta áratugarins. Fleiri tóku til máls og sögðu reynslusögur.
Í lok fundarins var kosin stjórn Hollvina Hælisins. Kosningu hlutu Hildur Hauksdóttir framhaldsskólakennari, Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld, Jón Már Héðinsson skólameistari, Kristjana Aðalgeirsdóttir arkitekt og María Björk Ingvadóttir framkvæmdastjóri. Ef allt gengur að óskum standa vonir til þess að setur um sögu berklanna að Kristnesi opni vorið 2019.
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd