main image

Ég og hljómborðið mitt

Árið 1985 fékk ég ósk mína uppfyllta. Ég eignaðist rafmagnshljómborð. Mig dreymdi um að verða rokkstjarna, komast á samning hjá erlendu plötufyrirtæki og trylla lýðinn. Ég og hljómborðið mitt. Við vorum eitt. Hljómborðið, sem er af gerðinni Technics SX – K100, hefur fylgt mér í rúm 30 ár og allan þann tíma haldið tryggð við heimabyggð sína þó eigandinn hafi hleypt heimdraganum um tíma. Nú þegar allar tilraunir til heimsfrægðar eru sennilega fullreyndar og aðrir meðlimir fjölskyldunnar orðnir þreyttir á langlundargeði eigandans í garð helgigripsins er kominn tími til að kveðja. Hljómborðið skal fara. Mig langar í nokkrum fátæklegum orðum að minnast hljómborðsins míns nú þegar senn líður að kveðjustund.

Sem ungur drengur í Eyjafirði átti ég mér tvo drauma. Að verða atvinnumaður í fótbolta og slá í gegn í rokkhljómsveit. Ég æfði mig reglulega til að ná settu marki, ekkert verður af mér tekið með það. Út að spila fótbolta – inn að spila á innanstokksmuni. Þannig gekk þetta fyrir sig. Ég veit ekki hversu mikið foreldrar mínir studdu mig í rokkinu eftir  alla ónýtu badmintonspaðana og beygluðu pottalokin. Svo ekki sé nú minnst á hávaðann sem af þessu hlaust. Ég held reyndar að mamma og pabbi hafi séð fegurðina í þessu öllu saman því þau voru bæði mjög tónelsk. Einn daginn spurðu þau mig hvort mig langaði til að læra á hljóðfæri. Ég hélt það nú. Ég vildi læra á hljóðfæri, verða undrabarn og slá í gegn með rokkhljómsveit. Þau voru reiðubúin að kaupa fyrir mig hljóðfæri og greiða fyrir tónlistarnám. Hljómborð varð fyrir valinu. Pabbi hafði komist á snoðir um notað hljómborð til sölu. Ég sá fyrir mér rafmagnshljómborð með óendanlega mörgum tökkum og trommuheila eins og Nick Rhodes í Duran Duran átti. Mamma og pabbi buðust til að fara með mér til Akureyrar daginn eftir til að heimsækja eigandann og skoða hljóðfærið. Var þetta kannski hljómborð sem Baraflokkurinn var hættur að nota? Var kannski I don‘t like your style samið á hljómborðið? Vá hvað ég  var spenntur. Pabbi, sem átti það nú til að vera svolítið stríðinn, upplýsti loks að eigandinn væri kona á áttræðisaldri, búsett á Akureyri. „Já einmitt pabbi.“ En í þetta skiptið var pabbi ekki að stríða. Ég varð eitt stórt spurningamerki en sem betur fer tók ég tíðindunum bara vel. Eiginlega fannst mér tilhugsunin um að kaupa hljóðfæri af öldruðum rokkara með reynslu úr bransanum bara svolítið spennandi. Fljótlega fékk ég  að vita að aldraði rokkarinn var Sigríður Guðmundsdóttir Schiöth, húsfreyja í Hólshúsum í Eyjafjarðarsveit til margra ára. Ég kannaðist vel við Sigríði. Hún var m.a. kórstjóri og organisti við Grundarkirkju á þessum tíma. Síðar átti hún eftir að kenna mér tónmennt. Nú runnu á mig tvær grímur. Var ég að fara, tíu ára gamall gutti, í heimsókn til kórstjóra á áttræðisaldri í fylgd foreldra til að kaupa ævafornt pípuorgel úr kirkju? Úff, vandræðalegt. Allar slíkar vangaveltur féllu þó í skuggann á þeim tilfinningum sem bærðust um í brjósti mér.  Ég var fullur eftirvæntingar. Þó tónlistarsmekkur okkar Sigríðar hafi verið ólíkur bar ég mikla virðingu fyrir henni. Hún var jú snillingur á píanó og bjó yfir hæfileikum til að verða rokkstjarna, eitthvað sem ég hafði ekki þó það stæði allt til bóta. Ekki var það til að draga úr mér kjarkinn að nú myndi ég loksins hitta eiginmann Sigríðar. Í mínum huga var hann lifandi goðsögn í knattspyrnuheiminum. Samt hafði ég hvorki spilað með honum né séð hann spila. Gullaldarár hans á knattspyrnuvellinum voru millistríðsárin. Það sem meira var, ég hafði aldri heyrt um knattspyrnugoðið Helga Schiöth annars staðar en frá pabba en hann rifjaði reglulega upp sögur af afrekum hans á knattspyrnuvellinum. „Einhver allra besti fótboltamaður Íslands í gamla daga.“ Þegar fór að síga á seinni hluta ferilsins hafði Helgi svo farið að æfa með pabba og öðrum sveitapiltum í Eyjafirði . Heimsóknin til þeirra hjóna gekk vel. Ég skoðaði hljómborðið og skemmst er frá því að segja að ég féll strax fyrir því. Ekki gamalt pípuorgel heldur nýtt og svo gott sem ónotað rafmagnshljómborð með mörgum tökkum og trommuheila. Gengið var frá kaupunum á staðnum. Allar áhyggjur af vandræðalegri samverustund með fólki af allt annarri kynslóð voru óþarfar. Ég spjallaði um tónlist við Sigríði og fótbolta við Helga á meðan ég gæddi mér á heimabökuðu brauði.

Hljómborðinu var komið fyrir á gömlu saumavélaborði sem mamma fékk í fermingargjöf. Við eyddum ófáum stundunum saman, ég og hljómborðið mitt, við píanóglamur og ímyndaða heimsfrægð áður en alvaran tók við. Nú var komið að því sem lagt var af stað með í upphafi, að læra að spila á gripinn. Ég hóf píanónám hjá Oliver Kentish. Oliver hafði  flutt frá Englandi til Íslands nokkrum árum áður og starfað um nokkurra ára skeið á Akureyri. Námið fór fram í Hrafngilsskóla. Rafmagnsorgelið sem ég lærði á var frá miðöldum (að mér fannst) sem var nú bara fyndið. Ég man að mér fannst ekki skemmtilegt að læra nóturnar. Til hvers að læra nótur? Ekki spilaði Nick Rhodes eftir nótum eða aðrir rokkarar yfirhöfuð. Ég ætlaði ekki að verða fyrsti rokkarinn til að mæta í glysgallanum upp á svið, með sítt að aftan og spila eftir nótum. Þegar á reyndi var ég einfaldlega ekki tilbúinn að eyða þeim tíma sem til þurfti í æfingar ólíkt því sem átti við um fótboltann. Þar mætti ég á allar þær æfingar sem stóðu mér til boða. Í tónlistinni vildi ég bara leika mér á nýja leikfangið mitt og verða svo rokkstjarna. Ekkert að flækja málin. Mér líkaði afar vel við Oliver og hann gerði allt sem í hans valdi stóð til að hvetja mig áfram. Það dugði bara ekki til. Ég þraukaði í tvo mánuði. Annars man ég ekki mikið eftir kennslustundunum sem ég sat með Oliver. Ég man þó að hann var aðdáandi Sheffield Wednesday í enska boltanum. Sennilega hefur mér leiðst eitthvað í einni kennslustundinni og náð honum á spjall. Þrátt fyrir þessa sneypuför í píanónáminu lifði draumurinn góðu lífi. Áfram var fallega Technics-hljómborðið mitt ofan á saumvélinni og ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram að æfa sig án nótna. Heimsfrægð var enn möguleiki.

Liðu nú tvö ár. Bekkjarfélagi minn var farinn að læra á gítar og vinur okkar, nokkrum árum yngri, var  farinn að berja húðir þegar þarna var komið sögu. Árshátíð skólans var framundan í félagsheimilinu Laugarborg og við ákváðum að setja saman band. Við hófum strax leit að bassaleikara og hún bar fljótlega árangur. Eftir að hafa orðið okkur út um æfingasvæði hófumst við handa við að undirbúa stærsta tónlistarviðburð í sögu Laugarborgar. Hljómborðið mitt var nú komið á þann stað sem ég hafði alla tíð ætlað því, innan um rafmagnsgítar, bassa, trommur, hljóðnema og magnara. Engar nótur. Kvikmyndin La Bamba, og ekki síst tónlistin úr myndinni, var vinsæl um þetta leyti og bar lagalistinn okkar þess greinileg merki. Æfingar gengu vel enda valinn maður í hverju rúmi. Við vorum svoooooo góðir. Það var aðeins tímaspursmál hvenær við kæmumst inn á vinsældarlista Rásar 2. Það skipti líka miklu máli að hafa gott og grípandi nafn á hljómsveitinni. Hún fékk því nafnið Ms. Pac-Man eftir vinsælum tölvuleik. Svo kom að tónleikunum. Þarna stóðum við saman uppi á sviði, ég og hljómborðið mitt, ásamt vinum mínum í Ms. Pac-Man fyrir framan fullan sal af fólki. Nokkrar hræður á dansgólfinu. Í hálfa klukkustund eða svo leið mér eins og rokkstjörnu svo segja má að draumurinn hafi ræst. Ég hefði aldrei getað þetta án Technics SX – K100 hljómborðsins míns.  Lengra komumst við ekki saman á framabrautinni. Félagar mínir í Ms. Pac-Man héldu áfram í rokkinu. Í dag eru þeir liðsmenn hljómsveita sem heita Brain Police, Helgi og hljóðfæraleikararnir og Skurk. Fyrst of fremst voru þeir þó liðsmenn Ms. Pac-Man – allavega í mínum huga.

Laugarborg ´87 var hátindur ferilsins. Þar komst ég næst því að upplifa drauminn, að spila á hljómborðið mitt og öðlast frægð. Í reynd var þetta fyrsta og eina skiptið sem við komum fram saman sem tvíeyki. Eftir þetta fór hljómborðið í geymslu og hefur verið þar meira og minna síðan, ef frá eru talin nokkur ár þar sem það var í láni. Ég veit ekki hvað það er en af einhverri ástæðu sá ég þörf fyrir að draga fram hljómborðið mitt síðastliðið haust, eftir 30 ára samveru. Kannski hefur vonin um heimsfrægð alltaf blundað í mér, já eða endurkoma Ms. Pac-Man. Eftir tveggja daga æfingar heima í stofu sá ég að af því verður ekki. Hljóðfærið er hið sama og bjó til fagra tóna í Laugarborg 1987. Hljóðfæraleikarinn hefur breyst. Hann er búinn að gleyma öllum La-Bamba lögunum. Hann kann heldur ekki að lesa nótur. Nú er svo komið að hljómborðinu, sem má muna fífil sinn fegurri, hefur verið úthýst úr öllum geymslum heimilisins og bíður örlaganna. Það safnar ryki í hjónaherberginu með enga von um samstarf við núverandi eiganda nokkru sinni aftur.  Eftir rúmlega 30 ára samleið skilja nú leiðir. Ég óska hér með eftir nýjum eiganda. Einhverjum með drauma um heimsfrægð með Technics SX – K100. Með nóturnar að vopni.

 

Brynjar Karl Óttarsson