Kostnaður við íþróttaiðkun barna og unglinga
Almennt er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í að minnsta kosti 60 mínútur á dag. Góð og regluleg hreyfing getur dregið úr líkum á geðrænum vandamálum og bætt sjálfstraust og námsárangur. Þess vegna er mikilvægt að allir fari eftir þessu.
Á Akureyri er hægt að æfa margar íþróttagreinar með mörgum félögum. Mörg börn og unglingar á Akureyri æfa íþróttir og sumir eru í tveimur íþróttagreinum eða fleiri. Oft á tíðum fylgir þessu gríðarlegur kostnaður fyrir foreldra og/eða forráðamenn sem eiga mörg börn sem æfa nokkrar íþróttagreinar. Unglingar eru ekki ódýrir í rekstri auk þess sem það kostar mikinn pening að halda heimili. Í stað þess að þurfa að borga mörg þúsund í æfingagjöld fyrir börn og unglinga væri skynsamlegt að hafa fyrirkomulagið þannig að það sé aðeins rukkað eitt gjald fyrir hvert barn þótt æfðar séu ein, tvær eða fleiri íþróttagreinar líkt og gert er í Eyjafjarðarsveit. Það væri frábært ef hægt væri að gera eins á Akureyri. Oft er það líka þannig að börn sem eru að byrja að æfa íþróttir vita ekki almennilega hvað þau vilja en með þessu fyrirkomulagi myndu þau geta prófað allar íþróttir sem í boði eru. Eftir það gætu þau svo valið það sem þeim finnst skemmtilegast og áhugaverðast. Þá er þeim gefið tækifæri til að velja þá íþrótt sem þau hafa áhuga á og þar með líklegra að þau endist í íþróttaiðkuninni.
Sum íþróttafélög bjóða upp á systkinaafslátt. Það er sniðugt og hentugt fyrir foreldra sem eiga börn sem æfa íþróttir í sama íþróttafélaginu. Samt sem áður væri ennþá sniðugra að hafa fyrirkomulagið þannig að systkinaafslátturinn gildi á milli íþróttafélaga ef systkini æfa hjá tveimur mismunandi félögum. Systkini hafa ekki endilega sömu áhugamál og æfa þar af leiðandi ekki sömu íþróttagrein. Í þeim tilfellum þarf að borga fullt gjald fyrir hvert og eitt barn.
Það skiptir miklu máli að huga vel að góðri og reglulegri hreyfingu. Með því að bjóða upp á það að einungis þurfi að borga eitt gjald sem veitir aðgang að öllum íþróttagreinum í bænum eða að systkinaafsláttur myndi gilda á milli íþróttafélaga tel ég að hægt væri að auka íþróttaiðkun barna og unglinga í mismunandi íþróttagreinum. Þannig væri þeim gefið tækifæri á að prófa nokkrar íþróttir og velja svo þá íþrótt sem vekur áhuga þeirra og þau endast í að stunda. Í leiðinni er verið að minnka kostnaðinn fyrir foreldrana og/eða forráðamennina sem er mjög jákvætt.
Heimildaskrá:
http://www.samherjar.is/bankaupplsingar/
http://www.samherjar.is/umf-samherjar-skraningarblad-20142015/
Líney Lilja Þrastardóttir 9.RK
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd