main image

Karamellukrukkan er fundin

Það var Sigrún María Engilbertsdóttir úr Giljaskóla sem fann Karamellukrukkuna. Föstudaginn 16. október sl. kl. 16:00 fengu þátttakendur vísbendingu sem leiddi þá að krukkunni. Sigrún, ásamt aðstoðarfólki, var ekki lengi að leysa gátuna en hún fann krukkuna áður en hálftími var liðinn af fimmta tímanum.  Vísbendingin var í formi landakorts frá árinu 1941 og stafarugls sem átti að leiða þátttakendur að bænum Kífsá í Lögmannshlíð þar sem krukkan var falin. Nokkur lið fylgdu í kjölfarið en gripu í tómt. Önnur fóru villur vegar og enduðu leitina víðs fjarri felustaðnum.

Glæsilegur árangur hjá Sigrúnu og aðstoðarfólki hennar. Hún vann sér inn fulla krukku af karamellum og fjóra bíómiða, þar af tvo á 3D myndir, í boði Borgarbíós.

Grenndargralið óskar Sigrúnu til hamingju með árangurinn og vonar að hún skemmti sér vel yfir góðum bíómyndum.

Kostnaður við íþróttaiðkun barna og unglinga

Almennt er börnum og unglingum ráðlagt að hreyfa sig í að minnsta kosti 60 mínútur á dag. Góð og regluleg hreyfing getur dregið úr líkum á geðrænum vandamálum og bætt sjálfstraust og námsárangur. Þess vegna er mikilvægt að allir fari eftir þessu.

Á Akureyri er hægt að æfa margar íþróttagreinar með mörgum félögum. Mörg börn og unglingar á Akureyri æfa íþróttir og sumir eru í tveimur íþróttagreinum eða fleiri. Oft á tíðum fylgir þessu gríðarlegur kostnaður fyrir foreldra og/eða forráðamenn sem eiga mörg börn sem æfa nokkrar íþróttagreinar. Unglingar eru ekki ódýrir í rekstri auk þess sem það kostar mikinn pening að halda heimili. Í stað þess að þurfa að borga mörg þúsund í æfingagjöld fyrir börn og unglinga væri skynsamlegt að hafa fyrirkomulagið þannig að það sé aðeins rukkað eitt gjald fyrir hvert barn þótt æfðar séu ein, tvær eða fleiri íþróttagreinar líkt og gert er í Eyjafjarðarsveit. Það væri frábært ef hægt væri að gera eins á Akureyri. Oft er það líka þannig að börn sem eru að byrja að æfa íþróttir vita ekki almennilega hvað þau vilja en með þessu fyrirkomulagi myndu þau geta prófað allar íþróttir sem í boði eru. Eftir það gætu þau svo valið það sem þeim finnst skemmtilegast og áhugaverðast. Þá er þeim gefið tækifæri til að velja þá íþrótt sem þau hafa áhuga á og þar með líklegra að þau endist í íþróttaiðkuninni.

Sum íþróttafélög bjóða upp á systkinaafslátt. Það er sniðugt og hentugt fyrir foreldra sem eiga börn sem æfa íþróttir í sama íþróttafélaginu. Samt sem áður væri ennþá sniðugra að hafa fyrirkomulagið þannig að systkinaafslátturinn gildi á milli íþróttafélaga ef systkini æfa hjá tveimur mismunandi félögum. Systkini hafa ekki endilega sömu áhugamál og æfa þar af leiðandi ekki sömu íþróttagrein. Í þeim tilfellum þarf að borga fullt gjald fyrir hvert og eitt barn.

Það skiptir miklu máli að huga vel að góðri og reglulegri hreyfingu. Með því að bjóða upp á það að einungis þurfi að borga eitt gjald sem veitir aðgang að öllum íþróttagreinum í bænum eða að systkinaafsláttur myndi gilda á milli íþróttafélaga tel ég að hægt væri að auka íþróttaiðkun barna og unglinga í mismunandi íþróttagreinum. Þannig væri þeim gefið tækifæri á að prófa nokkrar íþróttir og velja svo þá íþrótt sem vekur áhuga þeirra og þau endast í að stunda. Í leiðinni er verið að minnka kostnaðinn fyrir foreldrana og/eða forráðamennina sem er mjög jákvætt.

 

Heimildaskrá:

http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item14788/Born-og-hreyfing—thattur-foreldra-og-skola

http://www.samherjar.is/bankaupplsingar/

http://www.samherjar.is/umf-samherjar-skraningarblad-20142015/

 

Líney Lilja Þrastardóttir 9.RK

Leitin að Karamellukrukkunni

Nú þegar Leitin að Grenndargralinu 2015 er hálfnuð er við hæfi að hita upp fyrir lokaátökin. Það gerum við með því að leita að Karamellukrukkunni.

Þeir sem skila inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst (fyrir föstudaginn 16. október kl. 12:00) öðlast réttinn til að leita að krukkunni góðu.

Hvað er í Karamellukrukkunni? Hvar er hún? Hverjir finna krukkuna og hljóta þann óvænta glaðning sem hún inniheldur?

Vísbending, sem leiðir til fundar Karamellukrukkunnar, verður afhend þátttakendum föstudaginn 16. október í stofu 304 í Giljaskóla kl. 16:00.

Leitin 2015 tæplega hálfnuð

Fjórða vika Leitarinnar að Grenndargralinu 2015 hófst  föstudaginn 2. október. Þátttakendur eru 31 og koma úr fimm grunnskólum á Akureyri. Þá eru mömmur og pabbar, ömmur og afar og allir hinir sem aðstoða krakkana ekki taldir með. Í þær tíu vikur sem Leitin stendur yfir má því gera ráð fyrir nokkuð stórum hópi leitenda að gralinu góða. Fyrstu vikurnar hafa þátttakendur m.a. kynnt sér flugslys í Héðinsfirði, mannskæðan bruna í Eyjafjarðarsveit og danska kaupmenn á Akureyri á 19. öld.

Þegar Leitin er hálfnuð keppast krakkarnir við að finna Karamellukrukkuna. Um er að ræða krukku sem hefur að geyma óvæntan glaðning og er falin innan bæjarmarkanna. Allir þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst, öðlast réttinn til að leita að Karamellukrukkunni.

Þátttakendur hafa að jafnaði viku til að leysa hverja þraut fyrstu níu vikurnar. Þann tíma er mikilvægt að leysa þrautirnar jafnt og þétt en ekki skiptir máli hvort lausnum er skilað á undan keppinautunum eða eftir. Föstudaginn 13. nóvember fer tíunda og síðasta þraut í loftið og þá skiptir tíminn öllu máli. Þátttakendur keppast um að vera á undan andstæðingunum að leysa þrautina, fá síðasta bókstafinn, finna út lykilorðið og fá síðustu vísbendingu sem vísar á Grenndargralið. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Lokakvöldið er æsispennandi og þátttakendur safna að sér aðstoðarmönnum til að auka líkurnar á sigri. Margir eru um hituna. Aðeins eitt lið mun þó standa með pálmann í höndunum í nóvember.