main image

Rýrt svar frá Samfélags- og mannréttindaráði

Sem Akureyringur á ég að hafa rétt á að segja mína skoðun í samfélaginu.  Ég meina, ég tala hreiminn og ég segi öllum hversu yndisleg Akureyri er.  Ég hef búið hér í 12 ár og að mínu mati er ég Akureyringur.

Í vor sendi ég bréf (sjá hér að neðan) til Akureyrarbæjar nánar tiltekið til Samfélags- og mannréttindaráðs um ferðastyrk fyrir unglinga til að skoða og upplifa heiminn, taka námskeið eða jafnvel til að taka þátt í einhverskonar hjálparstörfum eða sumarskóla.  Í bréfinu segi ég orðrétt: “Þá vil ég benda ykkur á heimasíðuna  travelforteens.com þar sem er boðið uppá skipulagðar ferðir allstaðar í heiminum sem krakkar geta farið í og tekið t.d. köfunarnámskeið , ljósmyndanámskeið og allskonar sjálfboðavinnu í t.d Indlandi og Afríku. En það er einn hængur á. Dýrasta ferðin kostar um 800 þúsund eða næstum 1 milljón íslenskra króna, þar kæmi styrkurinn til góðra nota.” Eins vitna ég í fjárhag bæjarins; „ef þetta er spurning um fjármál, þá vita það allir að bærinn á nóg af peningum. Því skólarnir og menntun krakka skipta ykkur máli það vitum við líka öll. Ég skoðaði sjálf kannanir Akureyrabæjar frá 2010 á skiptingu á eignfærðri fjárfestingu og þar var skólakerfið langefst. En sumir sögðu hinsvegar nýjar rennibrautir eða fleiri íbúðarhús, við eigum í rauninni allt sem við þurfum. En þurfum við fleiri meðan bærinn stækkar ekki svo ört?  Af því að samfélagið er ykkur svona mikilvægt  er þetta hugmynd sem tengist samfélaginu okkar ég vona að þið takið ykkur tíma í að skoða hana. Og ég vona að ég heyri frá ykkur sem fyrst.”   Í 2 mánuði beið ég eftir svari og þegar það loksins barst var það stutt og frekar rýrt. „Samfélags- og mannréttindaráð þakkar Emblu kærlega fyrir áhugaverðar hugmyndir.  Því miður hefur Akureyrarbær ekki tök á að taka þátt í verkefninu.  jafnframt hvetur samfélags- og mannréttindaráð Emblu til að bjóða sig fram í ungmennaráð Akureyrar.”  Að mínu mati er verið að gera upp á milli aldurshópa.  Kannski er þetta misskilningur hjá mér en vantar ekki svolítið upp á að það sé tekið tillit til okkar unga fólksins?  við erum jú framtíðin.  Að mínu mati fannst mér ég eiga betra svar skilið og kannski aðeins ítarlegra.  Takk samt fyrir tillöguna um ungmennaráðið.  Þrátt fyrir að ég sé aðeins 14 ára veit ég að þetta svar hefði alveg mátt vera betra.  Hvað ef ég hefði verið 10 árum eldri? Hefði svarið orðið öðruvísi?  Fjölskyldunni minni fannst einnig svarið vera frekar slakt.

Þetta er mín skoðun. Að mínu mati hefði svarið getað verið allavega aðeins skárra.  Þrátt fyrir þetta gefst ég ekki upp og skrifa þessa grein fyrir ykkur hin þarna úti sem eruð með rödd sem þið þorið kannski bara ekki að nota.  Þá eigið þið ekki að vera hrædd um að nota hana því þrátt fyrir allt erum við öll jöfn.

Embla Blöndal Ásgeirsdóttir 9.RK.

Heimild:   http://www.akureyri.is/is/stjornkerfid/fundargerdir/samfelags-og-mannrettindarad/9837

 

 

 

Bréfið til Samfélags- og mannréttindaráðs

 

Akureyrarbær

Bæjarráð

Geislagötu 9

600 Akureyri

 

5.jan 2015

Embla Blöndal Ásgeirsdóttir

 

Kæri  viðtakandi, ég heiti Embla Blöndal Ásgeirsdóttir. Ég er 13 ára gömul og geng í Giljaskóla.

Í haust lét íslenskukennarinn okkar bekkinn skrifa grein um áhugamálin okkar, ég skrifaði um áhugamálið að ferðast. Þá í ljós kom að það er fullt af unglingum sem myndu gera margt til að ferðast og upplifa heiminn eins og hann er. Í þeim skrifum kom þá upp hugmynd um styrk sem hægt væri að láta krakka fá  t.d  í áttunda til tíunda bekk. Það þyrfti ekki að vera fullur styrkur, það færi bara eftir því hvar barnið myndi dvelja.

Sá styrkur myndi þá snúast um það að krakkarnir gætu valið sér  land og borg, með því skilyrði að þau taki þátt í menningu borgarinnar sem barnið dvelur í. Barnið gæti líka valið sér eitthvert námskeið eins og stelpa í 9.bekk myndi sækja um að fara í leiklistarnámskeið í Californiu eða strákur í 8.bekk myndi sækja um fótboltanámskeið til Danmerkur. Unglingarnir gætu líka tekið “skiptinám” eða fengið að upplifa framandi menntaskóla, það gæti verið í boði fyrir 10.bekk. Ég veit að AFS býður upp á skiptinám en það er í oft eitt ár sem mörgum finnst yfirþyrmandi, þessi upplifun gæti frekar staðið í 2 vikur sem er fínt, ég sjálf myndi hafa áhuga á því . Þá vil ég benda ykkur á heimasíðuna  travelforteens.com þar sem er boðið uppá skipulagðar ferðir allstaðar í heiminum sem krakkar geta farið í og tekið t.d. köfunarnámskeið , ljósmyndanámskeið og allskonar sjálfboðavinnu í t.d Indlandi og Afríku. En það er einn hængur á. Dýrasta ferðin kostar um 800 þúsund eða næstum 1 milljón íslenskra króna, þar kæmi styrkurinn til góðra nota, þetta myndi fara fram um sumarið. Síðan gætu þau skrifað um ferðina fyrir aðra til að lesa.

Ég sendi þetta bréf á ykkur vegna þess að ég vil að þið hugsið um þessa hugmynd, ef þetta er spurning um fjármál, þá vita það allir að bærinn á nóg af peningum. Sérstaklega til þess að leyfa unglingum í samfélaginu að upplifa heiminn og fólkið sem býr í heiminum. Því skólarnir og menntun krakka skipta ykkur máli það vitum við líka öll. Ég spurði nokkra hvað bærinn eyðir peningum mest í og lang flestir sögðu skólakerfið. Ég skoðaði sjálf kannanir Akureyrabæjar frá 2010 á skiptingu á eignfærðri fjárfestingu og þar var skólakerfið langefst. En sumir sögðu hinsvegar nýjar rennibrautir eða fleiri íbúðarhús, við eigum í rauninni allt sem við þurfum. Þið getið líka hugsað hvort að nýjar rennibrautir í sundlaugina og menntun og upplifun krakka á mínum aldri er mikilvægara, af því að menntun og það að unglingar fá bæði að upplifa góðu og illilegu hlutina í heiminum á eigin spýtur er einfaldlega mikilvægara. Hægt væri að fá fólk á aldrinum 20 til 25 ára að fara með sem forráðamenn, og að hluta til upplifa þetta með krökkunum því þá væru þau á leiðinni að fara úti heiminn í háskóla eða útskrifuð úr honum og væru að átta sig almennilega á framtíðinni og heiminum og  hvar þau vilja byrja lífið sem fullorðnir einstaklingar, svo einfaldlega myndu allir græða. Auðvitað myndu margir geta fara saman þar sem það er minni fyrirhöfn og í leiðinni búið til ný vinabönd. Það mun koma ykkur á óvart hvað við erum öll svo lík en samt svo ólík. Vilji er allt sem þarf! Hvort viljiði þið byggja upp holla og góða menntun og minningar jafnt sem upplifun til að fara með útí lífið. Eða nýjar rennibrautir eða fleiri íbúðarhús, ég veit að skólakerfið og samfélagið er ykkur afar mikilvægt og ég kvarta ekki. Mér persónulega finnst ekkert að afþreyingu bæjarins eins og Hlíðarfjalli eða öll þessi íþróttamannvirki sem eru æðisleg! En þurfum við fleiri meðan bærinn stækkar ekki svo ört?  Af því að samfélagið er ykkur svona mikilvægt  er þetta hugmynd sem tengist samfélaginu okkar ég vona að þið takið ykkur tíma í að skoða hana. Og ég vona að ég heyri frá ykkur sem fyrst.

 

Bestu kveðjur, Embla Blöndal

Allir geta tekið þátt

Leitin að Grenndargralinu er valgrein fyrir nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar. Full ástæða er til að minna á að Leitin er engu að síður í boði fyrir alla áhugasama, jafnt unga sem aldna. Allir geta tekið þátt. Aðeins þeir sem skráðir eru í valgreinina hafa rétt til að leita að Gralinu í lokin, þ.e. leysa lokavísbendinguna og fara á staðinn þar sem Gralið er falið. Aðrir ljúka keppni þegar þeir hafa ráðið lokavísbendinguna.

Allt sem þarf að gera er að hefja leik þegar fyrsta þraut fer í loftið, fara eftir fyrirmælum, leysa þrautina og skila lausnum til umsjónarmanns með tölvupósti. Fyrir réttar lausnir sendir umsjónarmaður bókstaf til baka sem notaður verður til að mynda lykilorðið. Þetta er endurtekið næstu níu vikurnar eða svo eða þar til kemur að lokavísbendingunni. Þá er Grenndargralið innan seilingar. Einfaldara getur það ekki orðið.

Nokkur praktísk atriði vegna Leitarinnar 2015:

  • Leitin að Grenndargralinu er valgrein í grunnskólum Akureyrar (8. – 10. bekkur). Allir mega taka þátt, líka þeir sem ekki völdu Leitina sem valgrein.
  • Ein þraut á viku í 10 vikur. Þrautirnar birtist á föstudögum á www.grenndargral.is undir liðnum Leitin að Grenndargralinu efst á forsíðunni.
  • Lausnum  er skilað til umsjónarmanns með tölvupósti (brynjar@akmennt.is).
  • Þátttakendur  fá bókstaf fyrir hverja rétta lausn. Þeir safna saman bókstöfum. Eftir 10 vikur reyna keppendur að finna hvert lykilorðið er með því að raða þeim saman.
  • Keppendur láta umsjónarmann vita þegar lykilorðið er fundið. Þá hefst baráttan um að finna Gralið. Keppendur fá lokavísbendingu sem vísar á Gralið. Fyrstur kemur, fyrstur fær.
  • Grenndargralið er falið einhvers staðar á Akureyri.
  • Farsælast er að leysa þrautirnar jafnt og þétt. Leyfilegt er þó að skila lausnum inn síðar en að viku liðinni. Þá má einnig skila inn lausnum við fleiri en einni þraut samtímis.
  • Hægt er að hefja leik hvenær sem er eftir að Leit hefst.
  • Þeir sem klára fyrstu 5 þrautirnar og skila inn réttum úrlausnum áður en 6. vika hefst öðlast rétt til að leita að Karamellukrukkunni. Hún er falin innan bæjarmarkanna og þeir sem finna hana eignast hana og innihald hennar.
  • Aðrir en nemendur í 8. -10. bekk mega taka þátt með því að leysa þrautirnar. Þegar kemur að endalokunum eru það eingöngu nemendur á unglingastigi sem mega freista þess að finna Gralið.
  • Lokamarkmið: Verða fyrstur til að finna Grenndargralið og fá það til varðveislu í eitt ár.

Leitin að Grenndargralinu 2015 er hafin

Sem fyrr eru það nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar sem freista þess að finna Gralið. Fyrstu ár Leitarinnar var hún viðbót við hefðbundið nám og stóð þannig fyrir utan hefðbundinn vinnuramma nemenda. Leitin er nú komin í hóp valgreina á unglingastigi og verður því metin sem slík. Öllum krökkum í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar er hins vegar velkomið að taka þátt, ekki síður þeim sem eru ekki með Leitina sem valgrein. Allar nánari upplýsingar um Leitina má finna á fésbókarsíðu og heimasíðu Grenndargralsins (www.grenndargral.is ).

Framundan er löng og ströng leit. Grenndargralið vill hvetja foreldra og aðra aðstandendur þátttakenda í Leitinni til að aðstoða þá við úrvinnslu þrautanna. Leitin er kjörinn vettvangur fyrir fjölskyldur og vini að koma saman og vinna að sameiginlegu verkefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir geta tekið þátt.

Góða skemmtun og megi besta liðið finna Gralið.

Brynjar Karl Óttarsson

verkefnisstjóri Grenndargralsins

Þátttakendur Leitarinnar 2015

Þátttakendur Leitarinnar komu saman ásamt unsjónarmanni þriðjudaginn 8. september til að fara yfir vikurnar framundan. Einhverja vantaði í hópinn en hann mun hefja formlega leit að Grenndargralinu föstudaginn 11. september.

Listi yfir þátttakendur liggur fyrir

Þegar rétt rúm vika er þar til Leitin að Grenndargralinu 2015 hefst eru 23 krakkar skráðir til leiks, 16 drengir og 7 stúlkur. Þátttakendur koma úr fimm skólum á Akureyri.

Hópurinn, ásamt umsjónarmanni Leitarinnar, mun koma saman þriðjudaginn 8. september kl. 13:50 í Giljaskóla. Þar verða línur lagðar fyrir næstu 10 vikur eða svo. Leitin hefst svo formlega föstudaginn 11. september þegar fyrsta þraut fer í loftið.