main image

Giljahverfi – sparkvöllurinn

Ég bý í Giljahverfi sem er tiltölulega nýlegt hverfi á Akureyri. Hér er einn grunnskóli, Giljaskóli, tveir leikskólar og stórt íþróttahús þar sem aðallega eru stundaðir fimleikar. Við Giljaskóla er staðsettur upplýstur sparkvöllur með gervigrasi, það tel ég vera minn uppáhaldsstað hér í hverfinu og þar eyði ég mörgum stundum, þó aðallega á sumrin.

Sparkvöllurinn er vel nýttur af íbúum í hverfinu. Þangað koma krakkar á öllum aldri til þess að spila fótbolta og því verður völlurinn oft líflegur samkomustaður okkar utan skólatíma. Sparkvöllurinn er auðvitað líka notaður mikið á skólatíma. Bekkirnir skipta með sér að nota hann í frímínútum með sérstöku skipulagi svo að allir komist að. Völlurinn er sérstaklega vinsæll á sumrin. Þá má segja að hann sé í notkun frá morgni til kvölds. Mér þykir til dæmis gott að geta skroppið á völlinn hvenær sem ég vil og æft mig í fótbolta, hvort sem ég er einn eða að spila við aðra.

Þó að kostirnir við það að hafa góðan sparkvöll í hverfinu séu tvímælalaust fleiri en gallarnir þá eru nokkur atriði sem mér finnst að mættu betur fara. Í fyrsta lagi eru mörkin helst til of lítil miðað við stærð vallarins. Í öðru lagi vill það koma fyrir að fullorðnir einstaklingar yfirtaka völlinn sem er algjörlega andstætt öllum reglum. Á vellinum stendur á skilti að börn og unglingar séu í forgangi þegar kemur að notkun vallarins og því er það mjög leiðinlegt að sjá fullorðna einstaklinga reka börn af vellinum svo þeir geti notað hann sjálfir. Reyndar er búið að spreyja yfir skiltið svo að erfiðara er að lesa sér til um reglurnar og mætti endilega laga það. Í þriðja lagi vil ég nefna ljósin á vellinum, en mér finnst þau vera slökkt alltof snemma á kvöldin eða um 21:00. Þetta er mjög þreytandi, sérstaklega með tilliti til þess að útivistartími 13-16 ára barna er til kl. 22:00 og væri gott að geta notað allan þann tíma á vellinum ef þannig bæri undir.

Ef þessar endurbætur yrðu gerðar á vellinum, það er að mörkin yrðu stækkuð lítillega, reglur vallarins væru sýnilegar og virtar af fullorðnum og að ljósin fengju að lýsa aðeins lengur á kvöldin, yrði það til þess að góður völlur yrði enn betri og aðstaða barna hér í Giljahverfinu til útveru og fótboltaiðkunar myndi batna enn frekar.

Kári Þórðarson 8. SKB

Lögmannshlíð – öldrunarheimilið

Lögmannshlíð er nýtt Edenstefnu öldrunarheimili í Vestursíðu. Lögmannshlíð var tekin í notkun 1.október 2012. Fyrst var Lögmannshíð rétt fyrir utan Kjarnaskóg og var kallað Kjarnalundur. Margt gamla fólksins átti erfitt með að flytja á milli staða, söknuðu útsýnisins, sveitarinnar og kyrrðarinnar í skóginum. Lögmannshlíð er skipt niður í heimili sem heita; Melgerði, Kollugerði, Bandagerði, Árgerði og Sandgerði, svo er Samkomugerði í miðjunni. Þar er félagsstarf, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, hár-og fótsnyrting og fleira. Á hverju heimili er eldhús, setustofa, stór baðherbergi og níu herbergi og hvert herbergi fyrir sig hefur sér útiaðstöðu. Lögmannshlíð er fyrsta íslenska öldrunarheimilið til að hljóta alþjóðlega viðurkenningu sem fullgilt Eden-heimili.

Eden stefnan er víða um heim til dæmis í Englandi, Danmörku og fleiri löndum. Í Eden stefnunni er lögð áhersla á heimilislegt umhverfi og á að íbúarnir séu ekki alltaf í hlutverki þiggjandans heldur fái tækifæri til að gefa af sér og að þeir finni að þeir geti líka gert gagn  og hjálpað öðrum. Eden stefnan miðar að því að útrýma einmanaleika, að það sé litið á styrkleika íbúanna en ekki einblínt á veikleika og sjúkleika.  Markmiðið er að íbúarnir geti lifað lífi sem vert er að lifa þrátt fyrir sjúkdóma, minnkandi færni og þverrandi heilsu.

Það er líka hvatt til dýrahalds og er öldrunarheimilið núna með gullfiska, kisuna Ynju, kanínurnar Dúlla og Snata. Á sumrin hafa verið eitt til tvö lömb í litlu gerði. Það hefur oft vakið mikla kátínu að fylgjast með þeim og íbúarnir sumir hverjir hafa líka séð um að gefa þeim mjólk af pela, sem gefur lífinu mikinn lit og tilgang. Síðasta sumar var í fyrsta skipti hæna með unga sína á vappi í garðinum. Næsta sumar er svo stefnt á að fá hest í heimsókn í einhvern tíma. Margt fólk af þessari elstu kynslóð ólst upp í sveit og kann því vel að meta að fá smá nasasjón af lífinu eins og það var í sveitinni í gamla daga. Edenstefnan hvetur líka til að gott samband og samstarf sé við skóla og leikskóla í hverfinu. Það getur verið svo dýrmætt á báða bóga að fá börnin í heimsókn og  fá jafnvel að miðla af visku sinni við þau og fylgjast með þeim við leik.

Mér finnst Lögmannshlíð mjög gott öldrunarheimili því það er reynt að gera svo margt til að fólkinu þar líði sem best þó að það sé kannski veikt eða sé að eldast. Þess vegna finnst mér Edenstefnan vera góð hugmynd og virka mjög vel á svona hjúkrunarheimilum, því allir eiga jú að finna fyrir því að lífið hafi einhvern tilgang og að þeir geti enn lagt sitt af mörkum í samfélaginu þrátt fyrir heilsubrest.

Heimildir:

Aðalbjörg Rósa Sigurðardóttir (munnleg heimild, 23. febrúar 2015)

http://www.akureyri.is/oldrunarheimili/heimilin/logmannshlid

http://www.ruv.is/frett/fyrst-til-ad-verda-fullgilt-eden-heimili

 

Sigrún María Engilbertsdóttir 8. SKB