main image

Fullorðnir borga börnum fyrir afnot af vellinum

Á öllum þessum árum sem gervigrasvöllurinn er búinn að vera hjá Giljaskóla er ég búinn að taka eftir bæði kostum og göllum við hann. Ég ætla aðeins að tala um gallana við hann hér í þessari grein.

Á hverjum degi fara margir krakkar á völlinn, bæði krakkar í leikskóla og krakkar á öllum stigum í grunnskóla. Farið er á hann á öllum tímum dagsins t.d. í frímínútum, eftir skóla og á kvöldin. Þannig að það þarf að passa hann vel. Gallarnir við hann eru eftirfarandi: Hann er t.d. of lítill þannig að það er alltof létt að skjóta útaf honum. Þá þarftu að ná í boltann og það tekur sinn tíma og er eiginlega alltaf leiðinlegt. Það er t.d. hægt að stækka hann og breikka. Svo á veturna er völlurinn alltaf fullur af snjó því það er ekkert sem er yfir vellinum til að hlífa honum fyrir úrkomu líkt og rigningu og snjó. Það væri alveg hægt að láta eitthvað yfir hann t.d. eins og bárujárnsþak, tjald eða eitthvað álíka. Svo þarf líka að hita gervigrasið meira því að hitinn sem er núna ræður ekki við allan snjóinn á Íslandi. Það getur tekið völlinn góða viku að losa sig við snjóinn ef það snjóar mikið. Til að laga þetta er t.d. hægt að auka hitann. Svo eru það blessuðu ljósastaurarnir. Á haustin dimmir í kringum sex leitið og það kviknar á ljósastaurunum kl 20, þannig að á milli 18 til 20 sér maður ekki neitt. Það eykur auðvitað slysahættu og ekki viljum við að krakkarnir, sem ætla kannski að hitta vini til að leika sér eða æfa sig í fótbolta, slasi sig vegna lélegrar birtu? Það er hægt að laga þetta með því að kveikja á þeim fyrr. Svo vil ég líka að það sé takmarkaður aðgangur á völlinn. Ég vil að völlurinn sé meira fyrir krakkana í Giljaskóla, því það er svo leiðinlegt að vera á vellinum þegar einhverjir fullorðnir unglingar/karlmenn koma og taka völlinn af manni! Ég hef orðið vitni að því þegar það komu karlmenn um þrítugt á völlinn þegar það voru litlir krakkar á honum. Karlarnir vildu fá völlinn þannig að þeir borguðu bara krökkunum pening fyrir að fara útaf. Mér finnst þetta ekki í lagi!

Nokkrir gallar eru við gervigrasvöllinn fyrir utan Giljaskóla. Hann er of lítill og gerir það að verkum að það er létt að skjóta útaf. Það er ekkert sem ver hann fyrir úrkomu. Hann er of lítið upphitaður og of lítil birta á honum! Og munið að þessi völlur var byggður fyrir krakkanna í skólanum en ekki fyrir fullorðna!

Alexander Örn Pétursson 8. RK