Umferð í Giljahverfi

Bílanotkun hefur aukist mikið síðustu árin sem hefur leitt til þess að hreyfing margra barna og unglinga hefur minnkað mikið. Þessi aukna bílanotkun hefur auk þess áhrif á marga aðra þætti eins og mengun og aukna hættu á umferðaróhöppum auk þess sem það er mun meiri umferð á morgnana sem getur valdið töfum fyrir fólki sem þarf að mæta í vinnu.

Giljahverfi er ekki stórt hverfi og því ekki langt að labba í skólann eða á milli staða. Flestir krakkar sem labba í skólann verða miklu hressari og ferskari þegar þeir koma í skólann og á það að sjálfsögðu líka við um fólk sem er að fara í vinnu. Í þessu litla hverfi eru nokkrir stórir vinnustaðir eins og t.d. Giljaskóli og leikskólarnir Tröllaborgir og Kiðagil. Síðan er nýbúið að byggja nýtt sambýli þar og einnig er fimleikafélagið með aðstöðu í íþróttahúsinu við Giljaskóla. Með alla þessa stóru vinnustaði í ekki stærra hverfi en Giljahverfi er, getur myndast mikil umferð þarna í skólabyrjun og við skólalok.

Ég held að með því að efla og hvetja börn og fullorðna til þess að ganga meira í skóla eða vinnu muni það koma til með að skila sér í aukinni orku og ánægju. Á Akureyri er líka frítt í strætó og því ættu bæði börn og fullorðnir að nýta sér þá leið til að fara á milli staða frekar en að fara á einkabílum. Kostnaðurinn við að reka bíl er mikill svo líklega gætu margir sparað sér nokkra þúsundkalla með því að rölta, hjóla eða taka strætó í vinnuna eða skólann.

Eins og við vitum þá búum við á þeim stað í heiminum þar sem mikill snjór er mestan hluta ársins sem veldur því að oft á tíðum safnast mikill snjór á gangstéttir. Til þess að auðvelda þeim sem kjósa að ganga eða hjóla á milli staða yfir vetrartímann þyrftu bæjaryfirvöld að vera dugleg að ryðja göngustíga snemma á morgnana.

Þar sem margir vinnustaðir eru í Giljahverfi segir það sig sjálft að það er mikið af fólki sem vinnur á þessu litla svæði og getur þar af leiðandi skapast mikil umferð í byrjun og við lok vinnudags. Með því að auka umræðu um þetta mætti mögulega draga úr umferð sem myndi þar af leiðandi spara fólki þann pening sem fer í bensínkostnað. Mér finnst það þó ekki vera mesti kosturinn heldur hreyfingin sem fólk fær með því að rölta í skóla og vinnu.

Lilja Björk Ómarsdóttir 8. RK Giljaskóla.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd