Umferðaröryggi í Giljahverfi
Giljahverfi er íbúahverfi í Glerárhverfi á Akureyri við rætur Hlíðarfjalls. Um 2100 íbúar búa í hverfinu. Þar er grunnskóli sem nefnist Giljaskóli með um 400 nemendum. Einnig er þar stórt og veglegt íþróttahús þar sem er fimleikaaðstaða Akureyringa og nærsveitamanna. Leikskólinn Kiðagil er staðsettur á sömu lóð og skólinn og íþróttahúsið.
Aðalumferðaræðin í gegnum hverfið er gatan Merkigil. Um þá götu er umferð strætisvagna ásamt annarra bifreiða. Spurningar hafa vaknað um það hvort umferðaröryggi ungra barna sé nægjanlegt í hverfinu. Í því samhengi er bent á að hámarksumferðarhraði í Merkigili er 50 km/klst. Í velflestum íbúahverfum er umferðarhraði 30 km/klst. Ein hraðahindrun er í Merkigilinu og fimm gangbrautir. Einnig virðist oft vanta gangbrautir til að gangandi vegfarendur komist öruggir yfir göturnar í efri byggðinni eins og Vesturgili og Fákagili. Hvaða aðrar leiðir er hægt að velja til að auka umferðaröryggið? Væri hægt að auka fjölda hraðahindrana í hverfinu eða hafa aðstoðarfólk til að aðstoða skólabörnin í myrkrinu á morgnana? Umferðaþungi í Giljahverfi getur verið mikill á morgnana á virkum dögum þar sem fólk fer keyrandi í vinnuna og ung börn gangandi í skólann. Það er myrkur á morgnana og því nauðsynlegt að gangandi vegfarendur noti endurskinsmerki með góðri lýsingu. Eins og skyggnið er þessa dagana, algjörlega snjólaust, malbikið blautt og svart og skyggni þar afleiðandi mjög lítið.
Giljahverfi er rólegt og gott hverfi með tiltölulega fáum íbúum. Alltaf má þó eitthvað bæta, má þar helst nefna umferðaröryggið. Ef til vill þyrfti að skoða aðkomu bíla og gangandi vegfarenda að leikskólanum Kiðagili og grunnskólanum Giljaskóla. Ein árangursríkasta leiðin í bættu umferðaröryggi væri ef til vill að lækka hámarkshraðann í gegnum hverfið. Það er sjálfsagður hlutur að gangandi vegfarendur komist öryggir á leiðarenda. Er það óskandi að bæjaryfirvöld kanni hvort umferðaröryggi barna og annarra íbúa Giljahverfis sé í lagi.
Heimir Óðinsson 8. SKB Giljaskóla