Leitin er tæplega hálfnuð

Fjórða vika Leitarinnar að Grenndargralinu 2014 hefst föstudaginn 3. október. Þátttakendur eru 32 og koma úr fjórum grunnskólum á Akureyri. Þá eru mömmur og pabbar, ömmur og afar og allir hinir sem aðstoða krakkana ekki taldir með. Í þær tíu vikur sem Leitin stendur yfir má því gera ráð fyrir nokkuð stórum hópi leitenda að gralinu góða. Fyrstu vikurnar hafa þátttakendur m.a. farið á slóðir Nonna og fræðst um árásina á Goðafoss árið 1944 og tengsl hennar við heimabyggð.

Þegar Leitin er hálfnuð keppast krakkarnir við að finna Karamellukrukkuna. Um er að ræða krukku sem hefur að geyma óvæntan glaðning og er falin innan bæjarmarkanna. Allir þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst, öðlast réttinn til að leita að Karamellukrukkunni.

Þátttakendur hafa að jafnaði viku til að leysa hverja þraut fyrstu níu vikurnar. Þann tíma er mikilvægt að leysa þrautirnar jafnt og þétt en ekki skiptir máli hvort lausnum er skilað á undan keppinautunum eða eftir. Föstudaginn 14. nóvember fer tíunda og síðasta þraut í loftið og þá skiptir tíminn öllu máli. Þátttakendur keppast um að vera á undan andstæðingunum að leysa þrautina, fá síðasta bókstafinn, finna út lykilorðið og fá síðustu vísbendingu sem vísar á Grenndargralið. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Lokakvöldið er æsispennandi og þátttakendur safna að sér aðstoðarmönnum til að auka líkurnar á sigri. Margir eru um hituna. Aðeins eitt lið mun þó standa með pálmann í höndunum í nóvember.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd