main image

Leitin er tæplega hálfnuð

Fjórða vika Leitarinnar að Grenndargralinu 2014 hefst föstudaginn 3. október. Þátttakendur eru 32 og koma úr fjórum grunnskólum á Akureyri. Þá eru mömmur og pabbar, ömmur og afar og allir hinir sem aðstoða krakkana ekki taldir með. Í þær tíu vikur sem Leitin stendur yfir má því gera ráð fyrir nokkuð stórum hópi leitenda að gralinu góða. Fyrstu vikurnar hafa þátttakendur m.a. farið á slóðir Nonna og fræðst um árásina á Goðafoss árið 1944 og tengsl hennar við heimabyggð.

Þegar Leitin er hálfnuð keppast krakkarnir við að finna Karamellukrukkuna. Um er að ræða krukku sem hefur að geyma óvæntan glaðning og er falin innan bæjarmarkanna. Allir þeir sem hafa skilað inn réttum úrlausnum við fimm fyrstu þrautunum áður en sjötta vika hefst, öðlast réttinn til að leita að Karamellukrukkunni.

Þátttakendur hafa að jafnaði viku til að leysa hverja þraut fyrstu níu vikurnar. Þann tíma er mikilvægt að leysa þrautirnar jafnt og þétt en ekki skiptir máli hvort lausnum er skilað á undan keppinautunum eða eftir. Föstudaginn 14. nóvember fer tíunda og síðasta þraut í loftið og þá skiptir tíminn öllu máli. Þátttakendur keppast um að vera á undan andstæðingunum að leysa þrautina, fá síðasta bókstafinn, finna út lykilorðið og fá síðustu vísbendingu sem vísar á Grenndargralið. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Lokakvöldið er æsispennandi og þátttakendur safna að sér aðstoðarmönnum til að auka líkurnar á sigri. Margir eru um hituna. Aðeins eitt lið mun þó standa með pálmann í höndunum í nóvember.

Leitin að Grenndargralinu 2014 er hafin!

Sem fyrr eru það nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar sem freista þess að finna Gralið. Fyrstu ár Leitarinnar var hún viðbót við hefðbundið nám og stóð þannig fyrir utan hefðbundinn vinnuramma nemenda. Leitin er nú komin í hóp valgreina á unglingastigi og verður því metin sem slík. Öllum krökkum í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar er hins vegar velkomið að taka þátt, ekki síður þeim sem eru ekki með Leitina sem valgrein. Allar nánari upplýsingar um Leitina má finna á fésbókarsíðu og heimasíðu Grenndargralsins (www.grenndargral.is ).

Framundan er löng og ströng leit. Grenndargralið vill hvetja foreldra og aðra aðstandendur þátttakenda í Leitinni til að aðstoða þá við úrvinnslu þrautanna. Leitin er kjörinn vettvangur fyrir fjölskyldur og vini að koma saman og vinna að sameiginlegu verkefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir geta tekið þátt.

Góða skemmtun og megi besta liðið finna Gralið.

Brynjar Karl Óttarsson

verkefnisstjóri Grenndargralsins

 

Leitin hefst 12. september

 

Leitin að Grenndargralinu 2014 hefst föstudaginn 12. september. Fyrsta þraut mun birtast hér á heimasíðunni kl. 18:00. Að venju er Leitin í boði fyrir nemendur á unglingastigi í grunnskólum Akureyrar. Leitin að Grenndargralinu er valgrein en engu að síður er hún í boði fyrir alla nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Akureyrar, óháð því hvort þeir völdu hana sem valgrein eða ekki. Allir geta tekið þátt. Allt sem þarf að gera er að hefja leik þegar fyrsta þraut fer í loftið, fara eftir fyrirmælum, leysa þrautina og skila lausnum til umsjónarmanns með tölvupósti. Fyrir réttar lausnir sendir umsjónarmaður bókstaf til baka sem notaður verður til að mynda lykilorðið. Þetta er endurtekið næstu níu vikurnar eða svo eða þar til kemur að lokavísbendingunni. Þá er Grenndargralið innan seilingar. Einfaldara getur það ekki orðið.

Nokkur praktísk atriði vegna Leitarinnar 2014:

 • Leitin að Grenndargralinu er valgrein í grunnskólum Akureyrar (8. – 10. bekkur). Allir mega taka þátt, líka þeir sem ekki völdu Leitina sem valgrein. Verkefnið býður upp á einstaklingsvinnu eða paravinnu.
 • Ein þraut á viku í 10 vikur. Þrautirnar birtist á föstudögum á www.grenndargral.is undir liðnum Leitin að Grenndargralinu efst á forsíðunni..
 • Lausnum  er skilað til umsjónarmanns með tölvupósti (brynjar@akmennt.is).
 • Þátttakendur  fá bókstaf fyrir hverja rétta lausn. Þeir safna saman bókstöfum. Eftir 10 vikur reyna keppendur að finna hvert lykilorðið er með því að raða þeim saman.
 • Keppendur láta umsjónarmann vita þegar lykilorðið er fundið. Þá hefst baráttan um að finna Gralið. Keppendur fá lokavísbendingu sem vísar á Gralið. Fyrstur kemur, fyrstur fær.
 • Grenndargralið er falið einhvers staðar á Akureyri.
 • Farsælast er að leysa þrautirnar jafnt og þétt. Leyfilegt er þó að skila lausnum inn síðar en að viku liðinni. Þá má einnig skila inn lausnum við fleiri en einni þraut samtímis.
 • Hægt er að hefja leik hvenær sem er eftir að Leit hefst.
 • Þeir sem klára fyrstu 5 þrautirnar og skila inn réttum úrlausnum áður en 6. vika hefst öðlast rétt til að leita að Karamellukrukkunni. Hún er falin innan bæjarmarkanna og þeir sem finna hana eignast hana og innihald hennar.
 • Aðrir en nemendur í 8. -10. bekk mega taka þátt með því að leysa þrautirnar. Þegar kemur að endalokunum eru það eingöngu nemendur á unglingastigi sem mega freista þess að finna Gralið.
 • Lokamarkmið: Verða fyrstur til að finna Grenndargralið og fá það til varðveislu í eitt ár.