Ný rennibraut í Sundlaug Akureyrar
Nú er búið að ákveða að ný rennibraut verði reist við sundlaugina á Akureyri. Hún verður tekin í notkun vorið 2014 ef allt fer eftir áætlun. Rennibrautin sem nú stendur við laugina er frá árinu 1994 og er, að sögn Vikudags, orðin erfið í viðhaldi og jafnvel hættuleg. Einnig er rennibrautin sem nú stendur bara opin á sumrin en nýja brautin mun verða opin allan ársins hring.
Auðvitað eru bæði kostir og gallar við þessa framkvæmd. Sundkennari og þjálfari hefur gagnrýnt forgangsröðun þar sem að aðstaða fyrir sundkennslu og fyrir aldraða og fatlaða er einnig mjög ábótavant. Formaður íþróttaráðs, Tryggvi þór Gunnarsson, telur hins vegar að aðstaða fyrir sundkennslu og æfingar sé ekki svo slæm en hins vegar sé rennibrautin alveg úr sér gengin. Sundlaugin fékk tilboð í framkvæmd nýrrar rennibrautar sem átti að kosta allt frá 50 og uppí 100 milljónir íslenskra króna.
Mín skoðun á þessari framkvæmd er sú að auðvitað er þetta mikill peningur sem fer í þetta en vonandi koma þá líka fleiri sundlaugargestir svo að sundlaugin fái meiri pening. Ef það kæmu ekki nógu margir í sund væri líka erfitt að bæta aðstöðu fyrir kennslu, aldraða og fatlaða. Auðvitað hefði kannski verið hægt að byrja á hinu og fara svo að hugsa um nýja rennibraut en þar sem rennibrautin sem er núna er bæði orðin erfið í viðhaldi og hættuleg þá finnst mér mjög mikilvægt að gera eitthvað í því máli eins fljótt og unnt er. Þar sem langflestir sem renna sér í rennibrautinni eru börn er mjög mikilvægt að hún sé örugg fyrir þau. Ég vona líka að hægt verði að bæta aðstöðu sundkennslu og æfinga sem fyrst því auðvitað viljum við að íþróttafólkið okkar hafi sem besta aðstöðu til þess að stunda sína íþrótt. Sömuleiðis vona ég að aðgengi aldraðra og fatlaðra verði bætt þar sem það er mjög mikilvægt að allir hafi sömu möguleika á að fara í sund.
Mér finnst sem sagt mjög gott að verið sé að fara í framkvæmdir á nýrri rennibraut en vona jafnframt að eitthvað verði gert í öðru sem er ábótavant í sundlauginni sem fyrst.
Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir, 10.SKB Giljaskóla
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd