Gral vikunnar
Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu, hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.
Gral vikunnar fær Anna María Guðlaugsdóttir á Ólafsfirði. Hún hefur verið í forsvari fyrir því að heimamenn útbúi stórt og mikið listaverk í Hafnargarðinum á Ólafsfirði sem ætlunin er að afhjúpa á sjómannadaginn. Listaverkið heitir „sjávardýragarður – unnið með skapalónum af dýrum.“ Bréf frá Önnu Maríu er varðar listaverkið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar í vikunni. Á fundinum kom fram að bæði hafnarstjórn og markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefðu tekið málið fyrir og að hafnarstjórn hefði samþykkt styrk að upphæð 250.000 krónur til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Bæjarráð samþykkti á fundinum styrk að upphæð 310.000 krónur til viðbótar. Þar með fékkst trygging fyrir upphaflegri styrkupphæð sem Anna María og félagar sóttu um og var tekin fyrir á fundi bæjarráðs þann 30. janúar sl.
Skemmtileg hugmynd sem virðist vera orðin að veruleika. Í það minnsta er búið að fá samþykki þeirra sem að málinu koma auk þess sem búið er að fjármagna verkefnið. Nú er bara að bíða eftir að sól hækki á lofti og draga svo fram penslana!
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd