main image

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær Anna María Guðlaugsdóttir á Ólafsfirði. Hún hefur  verið í forsvari fyrir því að heimamenn útbúi stórt og mikið listaverk í Hafnargarðinum á Ólafsfirði sem ætlunin er að afhjúpa á sjómannadaginn. Listaverkið heitir „sjávardýragarður – unnið með skapalónum af dýrum.“ Bréf frá Önnu Maríu er varðar listaverkið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar í vikunni. Á fundinum kom fram að bæði hafnarstjórn og markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefðu tekið málið fyrir og að hafnarstjórn hefði samþykkt styrk að upphæð 250.000 krónur til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Bæjarráð samþykkti á fundinum styrk að upphæð 310.000 krónur til viðbótar. Þar með fékkst trygging fyrir upphaflegri styrkupphæð sem Anna María og félagar sóttu um og var tekin fyrir á fundi bæjarráðs þann 30. janúar sl.  

Skemmtileg hugmynd sem virðist vera orðin að veruleika. Í það minnsta er búið að fá samþykki þeirra sem að málinu koma auk þess sem búið er að fjármagna verkefnið. Nú er bara að bíða eftir að sól hækki á lofti og draga svo fram penslana!

Fyrir 100 árum síðan

 

Akureyringar og nærsveitamenn kunnu svo sannarlega að gera sér glaðan dag fyrir 100 árum síðan ekki síður en nú tíðkast. Í Norðurlandi birtist eftirfarandi texti þann 21. febrúar árið 1914:

 „Grímu dansleik hélt Verslunarmannafélag Akureyrar á laugardagskvöldið var á Hótel Akureyri. Búningarnir voru margir mjög góðir, sérstaklega kvenfólksins eins og vant er að vera. Þátt-takendur voru um 90 og hornaflokkurinn sló „Rammalag“ og „Faldafeyki“ svo skemmtun var góð og dansinn fjörugur. Um miðnætti settist fólk að matborði og hafði þá tekið niður grímurnar. Var þar mælt fyrir ýmsum minnum en síðan var farið að dansa aftur og stóð skemmtunin fram á sunnudagsmorgun.“

Norðurland 14. árg. 1914, 8. tölublað (21.02.1914), blaðsíða 23.

Fyrir 100 árum síðan!

 

Í Norðurlandi birtist eftirfarandi texti þann 14 febrúar árið 1914. Textahöfundur telur úrslit komandi þingkosninga ráðin með afgerandi hætti tveimur mánuðum áður en kosningarnar fara fram.

 „H. Hafstein sendi með síðasta pósti til oddvita yfirkjörstjórnar Eyjafjarðarsýslu framboð sitt sem þingmannsefnis við kosningarnar 11. apríl í vor. Sjaldan eða aldrei mun fylgi H. H. Hafa verið jafneindregið hér í sýslunni eins og einmitt nú, og er enginn efi á að hann verður kosinn fyrsti þingmaður kjördæmisins með all miklum meirihluta atkvæða.“

 Norðurland 14. árg. 1914, 7. tölublað (14.02.1914), blaðsíða 20.

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá gangnamenn og konur í Svarfaðardal. Sjónvarpsmaður frá Kóreu heimsótti Svarfaðardal til að kynna sér göngur og réttir að íslenskum sið. Greinilegt er að honum leiðist ekki að fylgja hinum lífsglöðu Svarfdælingum eftir í íslenskri náttúru og enda svo daginn á dansleik undir beru lofti.  

Glaðir Svarfdælingar og falleg náttúran í dalnum sameinast hér í skemmtilegri kynningu á heimabyggðinni okkar og það í sjónavarpi í Asíu. Ekki skemmir fyrir að þáttastjórnandinn er hress og jákvæður gagnvart íslenskri sveitamenningu. Þá skemmir vönduð myndatakan ekki fyrir.

Hér má horfa á umfjöllun kóreskra sjónvarpsmanna um Ísland. Umfjöllunin um göngur og réttir í Svarfaðardal hefst þegar rúmar 26 mínútur eru liðnar af þættinum.

Saga Kristneshælis – 1. þáttur

Grenndargralið að leika sér með útvarpsþáttaformið. Skemmtilegur heimilisiðnaður hér á ferðinni. Smelltu til að hlusta á umfjöllun um sögu berklanna á Íslandi.

Saga Kristneshælis – 1. þáttur

 

 

 

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá fimm nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Davíð Ingi Guðmundsson (rafvirkjun), Dýri Bjarnar Hreiðarsson (húsasmíði), Eyþór Halldórsson (húsgagnasmíði), Jóhanna Eyjólfsdóttir (hársnyrtiiðn) og Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir (hársnyrtiiðn) luku öll sveinsprófum á síðastliðnu ári. Laugardaginn 1. febrúar fengu þau afhendar viðurkenningar Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík fyrir afburða árangur í sínum fögum.” Á heimasíðu VMA segir: Davíð Ingi hlaut sem sagt silfurverðlaun fyrir hæsta sveinspróf á landinu í rafvirkjun á síðasta ári.” Á öðrum stað segir: „Dýri Bjarnar Hreiðarsson og Eyþór Halldórsson hljóta silfurverðlaun. Meistari Dýra Bjarnars var Hreiðar Bjarni Hreiðarsson og meistari Eyþórs var Sæmundur Gauti Friðbjörnsson. Jóhanna Eyjólfsdóttir og Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir hljóta bronsverðlaun. Meistari Jóhönnu var Ingibjörg Jóhannesdóttir og meistari Sveinbjargar Jönu var Eva Fjölnisdóttir.“

Viðurkenningarnar voru afhentar á svokallaðri nýsveinahátíð og fór hún fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Forseti Íslands afhenti verðlaunin ásamt stjórnarfólki í Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík. Til hamingju með frábæran árangur Dýri, Eyþór, Jóhanna og Sveinbjörg.