Af hverju ekki?

 

Af hverju flikkum við ekki upp á annars fallegan skúlptúr, Heim vonar, sem stendur við Menntaskólann á Akureyri? Þetta stóra listaverk á lóð skólans stingur nokkuð í stúf við hin árlegu tímamót þegar nýstúdentar setja upp hvíta kollinn í fallegu sumarveðri. Ekki það að verkið sjálft sé ljótt. Listaverkið hans Nóa er vissulega tignarlegt og setur sterkan svip á skólalóðina. Það er bara eitthvað við þennan ryðlit á verkinu sem passar ekki á tímamótum þar sem gleði, líf og litir eru allsráðandi. Yfir vetrartímann er upprunalegur litur kúlunnar í takt við annað í umhverfinu. Þegar vorar, allt lifnar við og litirnir fara að koma í ljós stendur þessi risakúla eftir með sitt litlausa fas. Hún stendur eins og minnisvarði um forna tíma; þegar kúlan var helsta kennileiti skólans – þegar kúlan gladdi vegfarendur með litum sínum – þegar allt lék í lyndi, áður en menn hættu að halda kúlunni við og hún fór að drabbast niður. Vitaskuld er þetta  ekki eins og málum er raunverulega háttað. Veruleikinn er hins vegar sá að þann 17. júní ár hvert minnir MA okkur á hve falleg vor æska er og hvað framtíðin er björt. Væri ekki rétt að glæða kúluna lífi af því tilefni og leyfa henni að klæðast sparibúningnum fram á haust? Undirritaður á til að setja hluti í samhengi við tónlist og einhvern veginn minnir kúlan um margt á risastóra diskókúlu sem má muna fífil sinn fegurri. Hin tignarlega kúla, með sinn dauða lit, minnir þannig á að allt er í heiminum hverfult og allt tekur enda. Diskótímabilið er liðin tíð og aðrar tónlistarstefnur „rúla“ núna. Nemendur sem hafa verið í Menntaskólanum undanfarin fjögur ár hverfa nú á braut og takast á við ný verkefni. Eins merkilegt og það nú er þá kemur diskóið alltaf aftur í einhverri mynd. Að sama skapi koma nýir útskriftarnemendur til með að fylla skarð þeirra sem útskrifast í ár. Svo kannski er ekki rétt að allt taki enda – sumt fer nefnilega bara í hringi eins og diskókúla. Það minnir okkur á að aldrei er of seint að breyta til. Losum Heim vonar af stallinum, setjum undir hann snúningsvél og inn í hann öflugan kastara. Klæðum hann sterku silfurlituðu glys- og glimmerefni, leggjum hann á stallinn og setjum rafmagnið á! Gefum honum von. Sjáum 17. júní fyrir okkur. Þegar nýstúdentar ganga úr Íþróttahöllinni í myndatöku í Stefánslundi verður búið aðkveikja á stóru diskókúlunni þeim til heiðurs. Það er meira táknræn athöfn þar sem ljósadýrðin nýtur sín ekki í dagsbirtunni. Annað er upp á teningnum um kvöldið þegar stúdentar leggja leið sína í miðbæ Akureyrar. Þá er farið að skyggja og diskóið frá Menntaskólanum teygir anga sína lengra en fyrr um daginn. Svona verða áhrifin af kúlunni meiri og meiri eftir því sem dagsbirtan hörfar. Og kvöldið er ungt… Svo getum við velt fyrir okkur möguleikunum þegar nær dregur hausti og fallegu, hlýju og dimmu sumarkvöldin gleðja okkur. Þá er hægt að slá upp stærsta og flottasta diskóteki á Akureyri og þótt víðar væri leitað og það á lóð Menntaskólans. Þetta mætti gera í tengslum við menningarnótt og dagskrána í Lystigarðinum. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki? 

Grenndargralið óskar nýstúdentum til hamingju með áfangann og vonar að þeir tileinki sér lífsgleði diskósins í hverju því sem  þeir taka sér nú fyrir hendur.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd