Grenndargralsmúslí á markað

 

Grenndargralið var stofnað sumarið 2008. Upphaflega var eingöngu um ratleik fyrir grunnskólanemendur að ræða og gekk hann undir nafninu Leitin að Grenndargralinu. Síðan þá hefur Leitin farið fram ár hvert en eitt að því sem nemendur þurfa að kljást við í Leitinni er stafarugl sem tengist heimabyggð. Grenndargralið hefur fært út kvíarnar undanfarin ár og hafa reglulega skotið upp kollinum hugmyndir um sölu á varningi ýmiskonar undir merkjum Grenndargralsins. Nú, fimm árum síðar, er þróun á þremur vörutegundum komin vel á veg og innan tíðar mun sú fyrsta líta dagsins ljós. Grenndargralið mun þannig hefja sölu á neysluvöru í takmörkuðu magni, ætlaða þeim sem vilja fá gott veganesti fyrir átök líðandi stundar. Hér er á ferðinni næringarríkt múslí og með í kaupbæti fylgir stafarugl tengt heimabyggð. Varan nærir þannig bæði líkama og sál.

Grenndargralsmúslí er í senn holl og bragðgóð heilsuvara, búin til úr sjö hráefnistegundum. Uppskriftin er afrakstur þrotlausrar þróunarvinnu í eldhúsinu heima. Múslíið er ólíkt öðrum sambærilegum vörum vegna sérstaks framleiðsluferlis. Eitt er að blanda saman hráefninu, annað er að draga fram keim Grenndargralsmúslísins sem á sér engan sinn líkan. Aðferðin er ekki til á prenti, aðeins í höfðum fjögurra grúskara í heimabyggð. Huga þarf að mikilvægum atriðum eins og réttu hitasigi og ferskleika. Á það bæði við um matseldina og þá sem sjá um hana. Þá er rétt hugarfar í eldhúsinu lykilatriði þegar kemur að gæðum Grenndargralsmúslísins.

Grenndargralsmúslíið er í glerkrukkum en hver krukka inniheldur 100 grömm. Í lokinu er gáta. Gátan er í formi stafarugls þar sem neytandi múslísins reynir að raða bókstöfunum þannig að þeir myndi nafn á bóndabæ í heimabyggð. Í þessu tilfelli nær heimabyggð alla leið frá Ólafsfirði í norðri og til innstu bæja Eyjafjarðar í suðri. Bæirnir eru ýmist í byggð eða komnir í eyði. Spurningin er svo bara hvort gátan leysist áður en innihald krukkunnar klárast.

Grenndargralsmúslíið er dæmi um hágæða heimilisiðnað. Grenndargralið stefnir að því að vera leiðandi á markaði þegar kemur að þróun múslís sem inniheldur stafarugl um bóndabæi í heimabyggð. Til að ná því markmiði er áhrifaríkustu aðferðum beitt í eldhúsinu heima við framleiðslu og gæðaeftirlit. Aukinheldur er múslíið ávallt framleitt í samræmi við ríkjandi staðla meðaleldhúss í raðhúsi. Allt hráefni sem og framleiðsluferlið er rætt reglulega yfir kaffibolla í eldhúsinu heima svo hugsanlega vankanta megi sníða af og mögulegar umbætur komist til framkvæmda. Eins og sjá má er varan umvafin ást og umhyggju fólksins sem býr hana til. Þannig leggjum við okkur fram um að hið notalega andrúmsloft eldhússins heima skili sér í krukkunni til neytandans.

Aðeins 227 krukkur verða á boðstólnum, ein fyrir hvert ár sem liðið er frá því að Akureyri fékk kaupstaðarréttindi í fyrra skiptið.

1 Athugasemd »

  1. Hjálmar Brynjólfsson

    Jamm, skelli mér á krukku. Get ég ekki gripið þetta með mér þegar ég verð næst á ‘kureyrinni?

    Comment — June 8, 2013 @ 20:03

Skrifa athugasemd