Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá þeir Valdimar Gunnarsson og Þórir Haraldsson, kennarar við Menntaskólann á Akureyri. Föstudagurinn 24. maí sl. var síðasti kennsludagur þeirra félaga eftir að hafa kennt við skólann í 40 ár. Á heimasíðu skólans segir: „…Þórir hóf störf haustið 1973 og hefur kennt líffræði, erfðafræði og skyldar náttúrufræðigreinar ævinlega síðan. Valdimar hefur verið við skólann frá hausti 1974 en hafði áður kennt eitt ár. Hann hefur aðallega kennt íslensku en einnig sögu auk þess að taka að sér stjórunarstörf, umsjón öldungadeildar um skeið og hann gegndi stöðu skólameistara eitt ár…“

Valdimar og Þórir hafa mótað ófá ungmennin á liðnum áratugum og ljóst að skarð þeirra verður vandfyllt. Allt hefur sinn tíma og nú taka aðrir við keflinu við mótun ungdómsins. Tvímenningarnir munu þó án efa halda áfram að móta nærumhverfið á nýjum vígstöðvum.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd