Æskuslóðirnar mínar
Svarfaðardalur
Ég er heimaalið barn og hleypti vart heimdraganum út fyrir Eyjafjörðinn að nokkru ráði fyrr en 19 ára gömul. Fyrstu fjórtán árin var ég nánast algerlega innilokuð og varin af fjöllunum í Svarfaðardal. Það er erfitt að horfa ósnortinn á það umhverfi sem ég ólst upp í án þess að hrífast. Fjallasýnin er einstök, ég skora á ykkur að reyna á hrifnæmi ykkar og líta dalinn augum, ég held að allir hljóti að vera sammála mér! Lengi eftir að ég flutti úr sveitinni saknaði ég útsýnisins, fjallanna, lækjanna. Æskuslóðirnar voru náttúran og árstíðabundið stúss við skepnur, sauðburður að vori, heyskapur að sumri, göngur að hausti, fjós og fjárhús að vetri. Náttúran var oft býsna harðneskjuleg. Vetur voru snjóþungir, vegir vondir, bílar lélegir og þess vegna var bara lítið farið. Á Dalvík var kaupfélagið, bókabúðin, það þurfti ekki að fara lengra.
Ferðalag til Akureyrar var ekki einfalt mál. Tók langan tíma, á vondum vegi og kostaði bílveiki og óþolinmæði. Hvílík dýrð að komast á malbikið sem byrjaði við Hlíðarbæ. Hlíðarbær hefur alltaf skipað sérstakan heiðurssess í mínum huga. Ferðir til Akureyrar voru eins fáar og hægt var fram að því að ég fór í Menntaskólann á Akureyri og Akureyri takmarkaðist við Einilund hjá ömmusystur minni, Teríuna með smurbrauðssneiðum, rúllustigann í kaupfélaginu og búðina hjá Sigga Gúmm.
Ég ólst upp í gamla daga, í orðsins fyllstu merkingu. Dráttarvélar án grindar eða húss, litlu stærri en fólksbílar, heyblásara sem þurfti að moka í, beðjur sem heyinu var ýtt í. Þegar nálgaðist unglingsárin fór maður að upplifa að sveitin væri að færast í átt til einhvers nútíma, heyhleðsluvagn og heybindivél, stærri dráttarvélar með útvarpi og allt og mjólkurtankur bættist smátt og smátt við tæknilítinn búskap. Jafnvel henti það að einhver brygði búi og aðrar jarðir stækkuðu. Fram að því voru öll bú lítil. Og svo var meira að segja keypt litasjónvarp.
Það var samt ekki tæknin í búskapnum sem ég tengdi við innreið nútímans. Árið 1979 var kaldasta vor og sumar í manna minnum. Norðanáttin stöðug allt sumarið, með þeirri köldu þokusúld sem henni fylgir. Það var vart að sæi til sólar allt sumarið. En þetta sumar var kvikmyndin Land og synir tekin upp í sveitinni. Myndin sem markaði upphaf íslenska kvikmyndavorsins. Seinnipart sumars og haustið, sem var kalt og blautt, var hópur kvikmyndatökumanna og leikara í sveitinni að fást við eitthvað sem maður vissi eiginlega ekkert hvað var. Aðeins elsta kynslóðin á heimilinu tók þó einhvern þátt í myndinni, afi og amma dönsuðu á Þinghúsinu ásamt fjölda sveitunga þegar tekið var upp ball og þeim bregður aðeins fyrir í þeirri senu. Svo hljóp afi undir bagga ásamt hestinum Blakki sem var geðgóður hestur frænda míns þegar þurfti að taka upp senu þar sem maður teymir hest með kerru yfir brú. Hesturinn sem átti að nota trylltist við tökur en afi og Blakkur björguðu senunni. Þeir héldu báðir ró sinni við kvikmyndatökuna og högguðust ekki þótt þeir smökkuðu á heimsfrægðinni.
Sumarið eftir var sólríkara og hlýrra og þá var sjálfvirkur sími lagður í sveitina og sveitasíminn kvaddur. Því miður held ég að svarta símtækinu sem til var heima hafi verið hent. Það hékk upp á vegg, tólið níðþungt en stundum stalst maður til að lyfta því hljóðlega upp og hleraði en fékk skammir fyrir, ef ekki frá mömmu þá frá konunum á línunni sem heyrðu í manni. „Farðu af línunni krakki!” En þetta sumar kom vinnuflokkur frá Símanum og í minningunni var hann margar vikur við verkið. Það voru kornungir strákar í hópnum, ég var 13 ára og hafði aldrei áður séð svona fallega karlmenn. Ég er lítið fyrir hesta en stundaði reiðtúra grimmt þetta sumar með vinkonum mínum enda var símalínan lögð við veginn þannig að við þurftum alltaf að vera á ferðinni nálægt þeim.
Eftir þessa nútímavæðingu var ekki aftur snúið, það var til veröld utan fjallanna háu. Hvorki bíó né sími bar þó reyndar ábyrgð á því, það beið allra unglinga í sveitinni að fara burt í skóla eða vinnu.
Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd