main image

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær barnakór Lundarskóla ásamt kórstjóranum Margréti Árnadóttur. Kórinn hóf tveggja daga heimsókn sína til Grenivíkur á föstudaginn og var ýmislegt brallað. Barnakór Grenivíkur tók á móti krökkunum. Kórarnir tveir heimsóttu dvalarheimilið Grenilund þar sem krakkarnir borðuðu hádegismat með heimilismönnum og tóku fyrir þá lagið. Án efa hefur eldri borgurum á Grenivík þótt vænt um að fá hóp af syngjandi krökkum í heimsókn.

Flott hjá krökkunum í barnakór Lundarskóla að heimsækja nágrannabyggðarlag til að svala menningarþörfinni og gleðja eldri kynslóðina með söng. Heimsókn þeirra er kannski gott dæmi um möguleikana sem eru til staðar í heimabyggð í stað þess að sækja vatnið yfir lækinn.