main image

Af hverju ekki?

 Af hverju bjóðum við ekki Sigmundi Davíð og Bjarna að koma norður í Eyjafjörð til að halda stjórnarmyndunarviðræðum áfram? Eins og alltaf þegar tveir einstaklingar draga sig saman getur samvera í nýju og framandi umhverfi gefið af sér góðar og árangursríkar hugmyndir.  Fréttir herma reyndar að þeim Bjarna og Sigmundi gangi ágætlega að ná saman þó Eyjafjörður sé ekki vettvangur viðræðanna. Hugsanlega er því farsælt samband í farvatninu. Við fáum ekki miklar fréttir af tilhugalífi þeirra félaga. Þeir eru komnir aftur í Borgina eftir að hafa látið vel hvor af öðrum síðustu daga í fallegu umhverfi. Við vitum að þeir sáu sameiginlega um matarinnkaupin eins og góðra para er siður.  Við vitum líka að Bjarni bakaði vöfflur fyrir Sigmund svo ljóst er að hann er tilbúinn að selja sig dýrt með einhverskonar samband í huga. Til að ganga í augun á Sigmundi fékk Bjarni svo lánaðan sumarbústað hjá pabba sínum. Eins og aðrir ungir menn með markmið er hann eflaust búinn að heilla Sigmund með sögum af hetjudáðum, grilla fyrir hann á 4 brennara gasgrillinu og sýna honum heita pottinn. Þá hafa þeir snætt saman kvöldverð á Hótel Nesjavöllum. Hvers eigum við svo að gjalda, íbúar þessa lands? Annar eltist við hinn eins og unglingspiltur með hormónaflæðið í botni. Hinn lætur stjana við sig vitandi að aðrir bíða á kantinum ef potturinn bilar eða lambakjötið brennur á gasgrillinu sem keypt var á Tax Free-degi í Hagkaupum. Hér gætir ákveðins ójafnvægis. Vöfflurnar og sumarbústaðurinn skipa of stóran sess í þessum þreifingum tveggja turtildúfna. Til þess að hugsanlegt samband þessara tveggja landsfeðra verði að veruleika er æskilegt að það eigi sér upphaf á hlutlausum stað. Stað þar sem báðir aðilar sitja við sama borð. Stað þar sem þriðji aðili bakar vöfflurnar og lánar parinu sumarbústað. Eyjafjörður er vel til þess fallinn að vera þessi staður þar sem heimamenn eru þriðji aðilinn. En hvert yrði þá okkar framlag? Við myndum finna eitthvað sem þeir Sigmundur og Bjarni eiga sameiginlegt og nýta okkur það til að þjappa þeim saman. Þeir eru báðir bjartsýnir, með háleitar hugmyndir og stefna á toppinn. Fjallaferðir kæmu því vel til greina. Við gætum byrjað á Súlum sem nokkurs konar upphitun. Ekki mjög erfið ganga á toppinn og góð yfirsýn yfir heimilin í firðinum. Þaðan væri ferðinni heitið á topp Blámannshatts. Við myndum senda Sigmund þangað á meðan Bjarni myndi klífa Bónda í Eyjafjarðarsveit. Í lokin færu þeir svo saman á Kerlingu, hæsta fjall Eyjafjarðar, áður en þeim yrði kippt snögglega niður á jörðina aftur! Á þessum tímapunkti blasir blákaldur raunveruleikinn við eftir að hafa um skeið svifið um í draumaheimi háloftanna. Eyfirsku fjöllin myndu þannig veita þeim sameiginlega yfirsýn yfir verkefnin framundan, auðvelda þeim að sjá hlutina út frá sjónarhorni hvors annars og hjálpa þeim við að átta sig á að mikilvægar ákvarðanir verður að taka með fast land undir fótum sér en ekki uppi í háloftunum þar sem hætta er á hruni. Þá fyrst ætti parið von um langa og farsæla sambúð byggða á raunhæfum markmiðum, Eyfirðingum og öðrum landsmönnum til hagsbóta. Áður en hveitbrauðsdagarnir við Austurvöll tækju við myndu þeir Sigmundur og Bjarni þiggja veitingar á Bláu könnunni  og Græna hattinum. Til dæmis vöfflur! Menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?