Æskuslóðirnar mínar

Eyjafjarðarsveitin mín

 Ég á margar yndislegar minningar af Eyjafjarðarsvæðinu. Þar bjó ég á aldrinum  5 – 25 ára, mikilvæg mótunarár í lífi hvers manns. Á þessum tíma sótti ég grunn – framhalds – og háskóla á Akureyri. Fann ástina og stofnaði fjölskyldu. Grunnskólarnir voru Glerárskóli í þorpinu og Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðasveit, framhaldsskólinn minn var MA og svo HA. Það má því segja að litla persónan sem flutti norður með mömmu sinni, pabba og bræðrum hafi á þessum tíma breyst í fullorðna konu; móður, sambýliskonu, fjölskyldukonu, kennara –  það er því ekki óeðlilegt að margt hafi á dagana drifið þessi 20 ár. Hvað á hins vegar að velja til að segja frá? Ætti það að vera þegar við krakkarnir í þorpinu söfnuðumst saman á köldum vetrarkvöldum niðri á Þórsvelli til að fara á skauta? Eða þegar skógurinn fyrir ofan Kristnes breyttist í ævintýraskóg, þangað sem farið var með nesti og nýja skó. Eins væri hægt að lýsa heilu og hálfu dögunum í Hlíðarfjalli á skíðum eða í sundlauginni, en þangað var yfirleitt farið til að eyða heilum degi, með aukahandklæði og nesti. En nei, þó þessar sögur séu allar algerlega frábærar þá langar mig til að láta allt aðra flakka.

Ég er stödd í Kjarnaskógi, við vinkonurnar, allar skátar og stoltar af því. Hingað erum við mættar með tjald, dýnur, svefnpoka og nesti. Við vitum að það er ekki leyfilegt að tjalda í skóginum en okkur rekur nú samt minni til þess að hér hafi fjöldinn allur af skátum tjaldað á einhverju landsmóti, og þar sem við erum allar í skátunum þá hlýtur þetta nú að vera í lagi. Við finnum okkur laut sem hentar vel, sést ekki frá stígnum og því ættum við að geta verið hér óáreittar. Spennan er mikil að koma tjaldinu upp og ekki laust við að útilegukonurnar séu orðnar svangar eftir umstangið. Þá er bara að taka upp nestið og gæða sér á gómsætum bitunum. Allar erum við með kínaskó til að hafa á fótunum þegar við vöðum í læknum. Veðrið er svo gott að eftir fyrstu gæsahúð finnum við ekki fyrir kulda og við vöðum alla leið niður á þjóðveg, í gegnum rörin meira að segja. Þarna erum við eins og landshöfðingjar, eigum þetta land með manni og mús. Dagurinn var yndislegur en eitthvað voru nú hetjurnar hnípnar þegar einn pabbinn kíkti á flokkinn um eða eftir kvöldmat.  Stuttu síðar sitjum við allar í Saab bifreið á leið í bæinn. Sannfærðar um að næst þegar þetta verði gert, þá munum við sofa!

Ég vildi að ég myndi muna meira úr þessari ferð, man bara það að við vorum algerlega sjálfstæðar og sjálfum okkur nógar. Merkilegt að í dag er þetta ein svalasta minning sem ég á um æskuna mína. Eitthvað sem myndi líta öðruvísi út í ævintýrum nútímans, þar sem börn eru með síma og annan búnað svo hægt sé að heyra í þeim hvenær sem er.

Svona hafa tímarnir breyst og mennirnir með. Þessi saga lýsir vel því frelsi sem ég ólst upp við á Akureyri. Dagarnir snerust mikið um að finna sér eitthvað að gera, sumir urðu meira spennandi en aðrir, fór allt eftir því hversu frjór hugurinn var í það og það skiptið. Hvergi hefði ég viljað alast annars staðar upp en í Eyjafirðinum. Þar var alltaf sól á sumrum og alltaf skíðafæri á vetrum … eða var það ekki?

 

Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir

Neskaupstað

2 Athugsemdir »

  1. Anna Sif

    Skemmtileg lesning frænka

    Comment — April 30, 2013 @ 10:33

  2. Jónsi

    Þetta eru kunnugleg fótspor, kæra systir.

    Comment — May 13, 2013 @ 11:08

Skrifa athugasemd