main image

Æskuslóðirnar mínar

 Af bökkum Eyjafjarðarár

Minningar eru skrýtinn hlutur. Því lengra sem líður því betur man maður það sem liðið er.

Þegar ég var barn fór ég oft að renna fyrir silung í Eyjafjarðará. Þar var hægt að fá veiðileyfi á viðráðanlegu verði og þar var og er alltaf gott veður. Ég man vel þegar við bræðurnir vorum að veiða stuttu neðan við ármynni Núpár. Þetta var um miðjan ágúst og veður hið besta sól og stilla. Þar fundum við nokkrar bleikjur og mig minnir að ég fengi þá fyrstu á maðk en svo fengi Halldór bróðir minn sjö á flugu. Þá var mér misboðið og kastaði eins langt út og ég gat og gekk niður í strauminn með færið og þar með yfir allar bleikjurnar. Halldóri fannst þetta víst ekki gáfuleg veiðiaðferð en stuttu eftir að straumurinn greip færið þá greip vænn sjóbirtingur maðkinn og ég landaði honum. Hann vó rúm sex pund. Bleikjurnar voru allar eitt og hálft til tvö pund. Það lyftist á mér brúnin og við fórum heim með góðan afla eftir hálfan dag. Seinni partinn hófum við veiðar á sama stað og náðum nokkrum fiskum til. Mig minnir að ég fengi tvo minni sjóbirtinga og Halldór eitthvað af bleikju.

Eftir þetta fékk ég oft fiska þarna. Mikið oftar settist ég þó þarna niður með nesti og horfði yfir Möðruvallaplássið og langt upp í Sölvadalinn. Þarna sagði faðir minn mér síðar að Sölvadalur héti eftir gelti sem Helgi magri hefði misst í land við Galtarhamar/Festarhamar, ekki langt frá Kaupangi, ásamt einni gyltu og hann fann þau síðar fram í Sölvadal en þá voru þar 70 svín saman.

Nú liðu mörg ár og þá fór ég að ræða þennan veiðistað við Halldór og þá sagði hann að hann hefði eiginlega ekki ætlað eftir hádegi því veðrið var svo leiðinlegt, sunnan hvassviður og rigning.

Þegar ég fluttist aftur norður þá átti ég dreng sem hafði gaman af að fara og veiða á bökkum Eyjafjarðarár. Ég nýtti þá tækifærið til að troða á hann staðarþekkingu, þeirri hinni sömu og ég lærði þar einum mannsaldri fyrr. Það var einu sinni að við vorum að veiða skömmu fyrir hádegi lítið eitt neðan við Espihól. Þarna er djúpur hylur og grynningar með töluverðu straumköstum neðan við. Ég var að kasta flugu og þetta var seinni hluta ágústmánaðar. Drengurinn var farinn að kvarta um kulda og ég sagði honum að kasta um stund og sest sjálfur niður. Hann kastar en verður ekki var og kvartar áfram enda höfðum bæði ég og Sigurður sem var með hina stöngina fengið tvær bleikjur hvor. Ég greip af honum stöngina og gekk nokkuð uppeftir ánni með hann með mér. Ég beitti nýjum maðki og setti flotholt á áður en ég kastaði út í miðjan hylinn og rétti honum stöngina og sagði honum að lappa með flotholtinu niður að bíl og þá mætti hann fara inn í bílinn og ylja sér. Ég stökk nú niður eftir og hellti kaffi í bollann og greip kexköku. Ég ræddi nú við Sigurð sem kastaði flugunni vilt og galið. Við spjölluðum um fjöllin og bæina þar til drengurinn var kominn niður á grynningar og strauminn með færið. Þá sagði Sigurður: “Flotið er löngu sokkið”. Ég svaraði að bragði: “Þetta er búið að vera fast í botni lengi.” Þá tók stærðarfiskur sig upp út í miðri á með flotholtið í eftirdragi. Mér varð nokkuð um og kastaði bollanum og kexinu frá mér í grasið og tók nokkur stökk niður að drengnum sem var þá búinn að ná sambandi við fiskinn. Eftir nokkra stund  landaði hann 9 punda sjóbirting. Ég rölti uppeftir og tók saman kaffidótið en ekki fann ég kexkökuna þrátt fyrir mikla leit og leið ekki vel með að skilja hana eftir en þó varð svo að vera. Þegar við nálguðumst Akureyri þrífur Sigurður aftan í úlpuna mína og kemur með hálfa kexköku en ég hafi hent henni ofan í hettuna í flýtinum.

Drengurinn minn sem nú er 19 ára er sjálfsagt af síðustu kynslóð þeirra sem læra að þekkja staðhætti í Eyjafirði af föður sínum meðan þeir veiða á bökkum Eyjafjarðarár. Nú er búið að banna alla maðkveiði af því að vitrir menn telja að börn veiði meira á maðk en fullorðnir á flugu.

Sigfús Aðalsteinsson

Gral vikunnar

   

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá dönsku brjóstdroparnir frá Pharmarctica á Grenivík. Pharmarctica var stofnað árið 2002 en níu starfsmenn vinna hjá fyrirtækinu. Það framleiðir m.a. lyf, krem, olíur og mixtúrur. Í slyddu, kulda, kvefi og flensu síðustu daga og vikna er gott að grípa til dönsku brjóstdropanna sem rífa vel í. Droparnir eru með lakkrísbragði en þeir eru án allra ilm, litar- og rotvarnarefna. Pharmarctica framleiðir einnig norska brjóstdropa. Eyfirðingar þurfa því ekki að kvarta í hósta- og slímtíð sem þeirri sem nú gengur yfir. Þeir geta sagt bakteríunum stríð á hendur með því að þamba danska og norska brjóstdropa og um leið styrkt iðnað í heimabyggð.

Af hverju ekki?

Af hverju nýtir sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps sér ekki fyrirhuguð Vaðlaheiðargöng til að efla menningu sveitarfélagsins? Felast einhver sóknarfæri í því, kynnu einhverjir að spyrja? Að fá göng sem eru töluvert sunnan við Svalbarðseyri, eina þéttbýliskjarnann á svæðinu? Munu göngin ekki draga svo verulega úr umferð um svæðið að öll áform um uppbyggingu ferðaiðnaðar reynast andvana fædd hugmynd? Stórt er spurt. Svalbarðseyri hefur hingað til, eða í það minnsta mörg undanfarin ár, ekki laðað ferðamenn að í miklu magni þrátt fyrir mikla umferð um þjóðveg 1 austan Svalbarðseyrar. Þar liggur kannski hundurinn grafinn. Staðurinn er einfaldlega of nálægt Akureyri til þess að fólk sjái hag í því að staldra við. Ýmist er fólk nýlagt af stað frá Akureyri á leið austur fyrir eða það er komið svo nálægt bænum að austan að það sér í hyllingum möguleikann á að klára langt og strangt ferðalag og brunar því í bæinn. Þegar við bætist skortur á afþreyingu, þjónustu eða öðru sem fólk kallar eftir er ekki nema von að bílarnir þjóti hjá. En hvernig geta göngin hjálpað til við að koma Svalbarðsstrandarhreppi á kortið þegar þau beina umferðinni frá svæðinu? Jú, í spurningunni felst einmitt svarið. Nú er lag fyrir Svalbarðsstrandarhrepp. Þegar staðurinn er ekki lengur í alfaraleið, þar sem ekkert annað kemst að hjá ferðalöngunum en að komast sem hraðast til eða frá Akureyri, má draga upp nýja og ferskari mynd af staðnum sem ekki var framkvæmanlegt áður. Og hvernig yrði hin nýja ímynd Svalbarðseyrar og nágrennis? Meginþemað yrði rólegheit, þægindi, sveitarómantík og annars konar „kósíheit“ en þó jafnframt með iðandi mannlífi. Hinn rólegi áfangastaður Svalbarðseyri þar sem gesturinn fær frið frá hraðanum og látunum á þjóðveginum og í þéttbýlinu. Þó Svalbarðseyri standi ekki lengur við þjóðveginn er nálægðin við hann nægilega mikil til að hægt sé að fá fólk á staðinn. Grunnurinn er þannig lagður án þess að stinga niður skóflu. Framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem Vaðlaheiðargöng eru hlýtur að vera hægt að nýta til að vekja athygli á svæðinu. Það er svo bara í höndum heimamanna hvort og þá hvernig þeir grípa tækifærið. Nú þegar er ýmislegt til staðar sem sveitarfélagið getur boðið upp á. Alltaf má nýta íslenska náttúru til sjálfbærrar ferðamennsku þó ekki væri nema að bjóða upp á gönguferðir og náttúruupplifun. Gaman væri að geta sest niður á notalegu kaffihúsi á Svalbarðseyri eða keypt sér rjómaís í ísbúðinni sem notast við hráefni úr heimabyggð. Af hverju ekki að bjóða upp á skipulagðar gönguferðir í Vaðlaheiði með óviðjafnanlegu útsýni yfir fjörðinn? Hver veit nema göngufók rekist á sjálfan Þorgeirsbola! Af hverju ekki að búa til einhverskonar atvinnuskapandi ferðamennsku yfir vetrartímann t.d. á svæðinu þar sem snjósleðafólk þeysist um á Víkurskarðinu? Auðvitað þarf sveitarfélagið að vinna með nágrannasveitarfélögum og leggja til fjármagn en það má sníða sér stakk eftir vexti í þessu eins og öðru. Gæti sveitarstjórnin aðstoðað íbúa sveitarfélagsins við að fjármagna litlar eða meðalstórar framkvæmdir til eflingar ferðamennsku á svæðinu? Með því myndi skapast grundvöllur fyrir sameiginlegu átaki yfirvalda og einstaklinga til að glæða svæðið lífi. Nú þegar framkvæmdir eru hafnar við göngin er tækifæri fyrir Svalbarðsstrandarhrepp að snúa vörn í sókn. Sveitarstjórnin hefur nú þegar auglýst verkefnislýsingu vegna vinnu við deiliskipulag Vaðlaheiðarganga og vinnubúða verktaka. Búast má við að gildistaka skipulagsins verði kynnt um svipað leyti og byrjað verður að grafa þ.e. í júní 2013. Áætlað er að göngin verði tekin í notkun seinni hluta ársins 2016. Það er því ekki seinna vænna fyrir íbúa Svalbarðsstrandarhrepps að hefja undirbúning að menningarátaki í heimabyggð í skjóli Vaðlaheiðarganga. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

 

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá aðstandendur svokallaðs bændadags í Þelamerkurskóla í Hörgársveit. Á Bændadegi er hefðbundin kennsla felld niður meðan nemendur í 9. og 10. bekk vinna hin ýmsu sveitastörf á bæjum í sveitinni. Á heimasíðu skólans (http://www.thelamork.is/is/frettir/baendadagur) segir: „Í dag [18. apríl] hafa nemendur í 9. og 10. bekk verið í vinnu á hinum ýmsu bæjum í sveitarfélaginu og líkað vel. Þessi árlegi dagur er kallaður bændadagurinn og er liður í því að styrkja tengsl milli skólans og samfélagsins. Afar ánægjulegt er hve vel bændur taka á móti nemendum og  bjóða þá velkomna bæði inn á sinn vinnustað og heimili…“ Sniðug uppákoma hjá íbúum Hörgársveitar þar sem grunnskólanemendur fá tækifæri til að hvíla sig á hefðbundnu skólahaldi meðan þeir læra í skóla lífsins.          

     

Æskuslóðirnar mínar

Eyjafjarðarsveitin mín

 Ég á margar yndislegar minningar af Eyjafjarðarsvæðinu. Þar bjó ég á aldrinum  5 – 25 ára, mikilvæg mótunarár í lífi hvers manns. Á þessum tíma sótti ég grunn – framhalds – og háskóla á Akureyri. Fann ástina og stofnaði fjölskyldu. Grunnskólarnir voru Glerárskóli í þorpinu og Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðasveit, framhaldsskólinn minn var MA og svo HA. Það má því segja að litla persónan sem flutti norður með mömmu sinni, pabba og bræðrum hafi á þessum tíma breyst í fullorðna konu; móður, sambýliskonu, fjölskyldukonu, kennara –  það er því ekki óeðlilegt að margt hafi á dagana drifið þessi 20 ár. Hvað á hins vegar að velja til að segja frá? Ætti það að vera þegar við krakkarnir í þorpinu söfnuðumst saman á köldum vetrarkvöldum niðri á Þórsvelli til að fara á skauta? Eða þegar skógurinn fyrir ofan Kristnes breyttist í ævintýraskóg, þangað sem farið var með nesti og nýja skó. Eins væri hægt að lýsa heilu og hálfu dögunum í Hlíðarfjalli á skíðum eða í sundlauginni, en þangað var yfirleitt farið til að eyða heilum degi, með aukahandklæði og nesti. En nei, þó þessar sögur séu allar algerlega frábærar þá langar mig til að láta allt aðra flakka.

Ég er stödd í Kjarnaskógi, við vinkonurnar, allar skátar og stoltar af því. Hingað erum við mættar með tjald, dýnur, svefnpoka og nesti. Við vitum að það er ekki leyfilegt að tjalda í skóginum en okkur rekur nú samt minni til þess að hér hafi fjöldinn allur af skátum tjaldað á einhverju landsmóti, og þar sem við erum allar í skátunum þá hlýtur þetta nú að vera í lagi. Við finnum okkur laut sem hentar vel, sést ekki frá stígnum og því ættum við að geta verið hér óáreittar. Spennan er mikil að koma tjaldinu upp og ekki laust við að útilegukonurnar séu orðnar svangar eftir umstangið. Þá er bara að taka upp nestið og gæða sér á gómsætum bitunum. Allar erum við með kínaskó til að hafa á fótunum þegar við vöðum í læknum. Veðrið er svo gott að eftir fyrstu gæsahúð finnum við ekki fyrir kulda og við vöðum alla leið niður á þjóðveg, í gegnum rörin meira að segja. Þarna erum við eins og landshöfðingjar, eigum þetta land með manni og mús. Dagurinn var yndislegur en eitthvað voru nú hetjurnar hnípnar þegar einn pabbinn kíkti á flokkinn um eða eftir kvöldmat.  Stuttu síðar sitjum við allar í Saab bifreið á leið í bæinn. Sannfærðar um að næst þegar þetta verði gert, þá munum við sofa!

Ég vildi að ég myndi muna meira úr þessari ferð, man bara það að við vorum algerlega sjálfstæðar og sjálfum okkur nógar. Merkilegt að í dag er þetta ein svalasta minning sem ég á um æskuna mína. Eitthvað sem myndi líta öðruvísi út í ævintýrum nútímans, þar sem börn eru með síma og annan búnað svo hægt sé að heyra í þeim hvenær sem er.

Svona hafa tímarnir breyst og mennirnir með. Þessi saga lýsir vel því frelsi sem ég ólst upp við á Akureyri. Dagarnir snerust mikið um að finna sér eitthvað að gera, sumir urðu meira spennandi en aðrir, fór allt eftir því hversu frjór hugurinn var í það og það skiptið. Hvergi hefði ég viljað alast annars staðar upp en í Eyjafirðinum. Þar var alltaf sól á sumrum og alltaf skíðafæri á vetrum … eða var það ekki?

 

Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir

Neskaupstað

Gral vikunnar

 

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær Thelma Líf Gautadóttir. Thelma er 14 ára og býr á Akureyri. Ekki alls fyrir löngu hóf hún söfnun til styrktar krabbameinssjúkum börnum með því að safna áheitum. Í staðinn skyldi hún raka af sér hárið. Markmið Thelmu er að safna hálfri milljón króna. Í viðtali við Akureyri vikublað sagði hún hugmyndina hafa orðið til þegar hún ákvað að raka af sér hárið og séð að hún gæti látið eitthvað gott af sér leiða í leiðinni. Samkvæmt Facebook-síðu átaksins Hárið af fyrir krabbameinsveik börn höfðu safnast 135.000 krónur á föstudaginn. Frábært frumkvæði sem Thelma sýnir þarna og mættu fleiri taka hana sér til fyrirmyndar. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning:

1102-26-060598
kt. 230598-2909

Æskuslóðirnar mínar

Í næstu viku hefst nýr liður hér á heimasíðu Grenndargralsins undir heitinu Æskuslóðirnar mínar. Um er að ræða frásagnir Eyfirðinga og annarra sem hafa dvalist í Eyjafirði um styttri eða lengri tíma á uppvaxtarárunum. Grenndargralið hefur um nokkurt skeið óskað eftir frásögnum fólks sem á það sameiginlegt að luma á skemmtilegum minningarbrotum úr heimabyggð. Afraksturinn mun birtast að jafnaði hálfsmánaðarlega.

Fylgist með ólíku fólki segja frá skemmtilegum atburðum úr heimabyggð hér á www.grenndargral.is. Við hefjum leik þriðjudaginn 16. apríl.

 

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær Gallerý Sigga-búð á Dalvík. Gallerýið er rekið af hjónunum Siggu og Bjössa en þau hófu brennslu á nytjamunum úr gleri árið 2004. Reksturinn fer einnig fram undir nafninu Stjarnan-Glermunir en vinnuaðstaða þeirra er í kjallaranum heima. Þau hjónin búa m.a. til sandblásna glermuni fyrir hátíðleg tilefni svo sem brúðkaup, skírnir og fermingar. Gallerýið er opið þrjá daga í viku og alltaf er heitt á könnunni. Skemmtilegur heimilisiðnaður þarna á ferðinni og notaleg stemning sem mætir viðskiptavinum Gallerýsins. Víða í Eyjafirði má finna skapandi einstaklinga sem efla menningu heimabyggðar. Með framlagi sínu leggur Gallerý Sigga-búð á Dalvík sitt lóð á vogarskálarnar.

Fyrir 100 árum síðan!

Í grein sem birtist í Norðurlandi þann 5. apríl árið 1913 segir frá þreifingum Reykvíkinga um að taka jarnbrautir í notkun og jafnframt möguleikann á að leggja þær frá Reykjavík og í nágrannabyggðarlög. Segir frá tveimur brautum sem verið er að leggja frá Öskjuhlíð og niður að höfn sem flytja eiga efni til að fylla upp í varnargarða hennar. Í niðurlagi greinarinnar gælir greinarhöfundur við þá hugmynd að lögð verði járnbraut til Akureyrar í því skyni að draga úr umferð báta!

Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan.

„…Máske þess verði ekki mjög langt að bíða, að járnbraut verði lögð frá Reykjavík norður um land, yfir fjöll og firnindi til Akureyrar. Að þvi marki hlýtur að verða stefnt og unnið. Betra að draga úr flóabátaflækingnum, inn á hverja vík og hvern krók með ströndum fram, og koma heldur brautinni fyr í framkvæmd.“

 Norðurland 13. árg. 1913, 12. tölublað (05.04.1913), blaðsíða 44