Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær starfsfólk Amtsbókasafnsins. Á undanförnum árum hefur starfsfólk safnsins náð að breyta annars góðu bókasafni í einstaklega lifandi og skemmtilegan stað til að heimsækja. Stöðnun er ekki til í orðabók safnsins, þvert á móti er hugmyndaauðgi starfsmanna til fyrirmyndar. Safnið er í mikilli sókn sem beinist að því að vekja á sér athygli í því skyni að fá fólk á staðinn. Það hefur svo sannarlega tekist vegna góðra hugmynda sem starfsfólkið kemur í framkvæmd; lifandi heimasíða, athyglisverðar sýningar í anddyrinu, sala á notuðum bókum, skemmtileg kvikmyndaþemu, sniðugar sögustundir og þannig mætti lengi telja. Allt þetta bætist við góðan bókakost, vingjarnlegt viðmót og möguleika á hressandi kaffibolla í næsta nágrenni safnsins. Það merkilega er að þrátt fyrir iðandi líf á safninu er samt alltaf svo notalegt andrúmsloft sem mætir manni þegar maður kemur á Amtsbókasafnið á Akureyri.

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd