Af hverju ekki?
Af hverju eflum við ekki tengslin við vini okkar í Murmansk í Rússlandi? Er Murmansk einungis vinabær Akureyrar að nafninu til? Til hvers eru þessir vinabæir eiginlega? Já ég veit, kannski er eitthvað að gerast á bak við tjöldin sem hinn venjulegi Akureyringur veit ekki um. Kannski hafa útgerðarmenn í Murmansk keypt gamla togara frá Samherja? Kannski hafa bæjaryfirvöld á Akureyri farið í opinbera heimsókn til Murmansk? En það er allavega ekki margt í umhverfinu sem minnir okkur á vináttutengslin við Murmansk og aðra vinabæi okkar vítt og breytt um heiminn. Maður er reglulega minntur á sambandið við Randers í Danmörku með komu jólatrésins í desember ár hvert. Einhver samskipti hefur bærinn okkar átt við Álasund, vinabæinn í Noregi og þá tryggir saga vesturfaranna eilíft samband við Gimli, vinabæ okkar í Kanada. Í Svíþjóð er það Västerås og einhvern veginn finnst manni að það hljóti að vera til einhverjar bókanir í fundargerðum fyrri ára um eflingu tengsla þar á milli. Þó ekki sé nema vegna landfræðilegra og menningarlegra tengsla landanna. Þá er nú ekki langt í enn einn vinabæinn sem einnig er á Norðurlöndum. Lahti heitir hann og er í Finnlandi. En við eigum líka vinabæi sem eru lengra í burtu en standa okkur samt svo nærri menningarlega og tilfinningalega? Bæir sem tengjast sögu Akureyrar órjúfanlegum böndum og hafa margsinnis reynst okkur vel á erfiðum tímum? Þetta eru vinabæir okkar í Tyrklandi og Rússlandi; Çe?me og Murmansk. Ekki þarf að eyða mörgum orðum um vináttutengsl okkar við íbúa Çe?me, þau eru augljós! Höldum aðeins áfram með Murmansk. Við vitum alveg af hverju Murmanskar ættu að sækja okkur heim, sérstaklega á þessum árstíma. Kuldi, brennivín og mottumars. Þar með er það afgreitt. Hvað eigum við svo að sækja til Murmansk? Getur það gagnast okkur að í Murmansk búa rúmlega 300.000 manneskjur? Já, án efa. Hjálpar okkur að í Murmansk er heimahöfn eina flota kjarnorkuknúinna ísbrjóta í öllum heiminum? Ekki gott að segja. Kemur það okkur til góða að vera vinabær borgar sem er með 86 grunnskóla o
g 56 framhaldsskóla? Svari hver fyrir sig. Auk alls þessa er staðarblað, sædýrasafn og öflugur bandýklúbbur í Murmansk. Ef við viljum efla tengslin, hvar eigum við þá að byrja? Hvað með að hefja samstarf knattspyrnudeilda Þórs og KA við FC Sever Murmansk en svo heitir knattspyrnufélag borgarinnar? Liðið spilar í 2. deild í Rússlandi. Mætti ekki senda leikmenn héðan til reynslu í Murmansk og öfugt? Jú, jú einhverjir myndu eflaust fá menningarsjokk. En til hvers eru vinir ef ekki til að hjálpa þeim sem á stuðningi þurfa að halda við að aðlagast breyttum aðstæðum? Að einhverju leyti yrðu viðbrigðin þó hverfandi. Þannig þyrftu leikmenn FC Sever Murmansk og Þórs og KA ekki að láta veðurfarið á hinum nýja heimavelli koma sér svo mjög á óvart. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd