main image

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá veðurguðirnir. Þeir hafa tryggt fullkomið veður til skíðaiðkunar í dymbilvikunni í skíðabrekkum heimabyggðar. Skemmtileg stemning myndast í kringum ferðamenn sem koma í Eyjafjörðinn í þessari viku ár hvert til þess að renna sér á skíðum. Óneitanlega ræður veðurfar miklu um hversu lífleg menningin er í skíðabrekkunum og varla er hægt að hugsa sér betri aðstæður en eru þetta árið. Þökk sé veðurguðunum!

Breytingar á fyrirkomulagi Leitarinnar haustið 2013!

Leitin að Grenndargralinu verður með breyttu sniði í haust. Samfara breyttum áherslum og þróun á Grenndargralinu hefur sú ákvörðun verið tekin að bjóða upp á Leitina sem valgrein á unglingastigi í grunnskólum á Akureyri. Ætlunin er að gefa þessu nýja fyrirkomulagi, sem þó reglulega hefur skotið upp kollinum, tækifæri og sjá hvernig til tekst. Með hinu nýja fyrirkomulagi fá þátttakendur vinnuframlag sitt metið rétt eins og tíðkast með aðrar námsgreinar í stundatöflu.

Nánar verður sagt frá breyttu fyrirkomulagi Leitarinnar þegar nær dregur hausti.

Af hverju ekki?

Af hverju markaðssetjum við ekki Eyjafjarðarsveit sem spennandi áfangastað fyrir erlenda ferðamenn? Fjöldi skemmtiferðaskipa sem heimsækir Akureyri á sumrin er gríðarlegur. Við fögnum því vissulega en Laufás og Mývatnssveit taka ekki endalaust við. Auðvitað er Mývatnssveit einstakur staður. Straumurinn mun því áfram liggja þangað þó aðrir spennandi áfangastaðir bætist í hópinn. Með því að beina fjöldanum í fleiri en eina átt dreifist álagið. Þannig skapast svigrúm til að taka áfram við ört vaxandi fjölda ferðamanna. Með fleiri valkostum fyrir túristana ætti að reynast auðveldara að  koma til móts við mismunandi þarfir þeirra auk þess sem fleiri aðilar í ferðamennsku fá bita af kökunni. En hvað er það sem Eyjafjarðarsveit hefur upp á að bjóða fyrir erlenda ferðamenn? Fyrir utan að vera einhver fallegasta sveit landsins drýpur sagan af hverju strái í Eyjafjarðarsveit. Ekki síst á kirkjujörðunum sex! Þar leynast sögulegar gersemar sem geta kveikt áhuga aðkomufólks ef rétt er haldið á spöðunum. Gersemar sem undirstrika sérstöðu byggðarlagsins. Gersemar sem hægt er að tengja við Íslendingasögurnar. Síðast en ekki síst gersemar sem hægt er að tengja við reynsluheim þeirra erlendu gesta sem heimsækja kirkjurnar. Hvernig? Jú, saga þeirra nær svo langt aftur í tímann að tiltölulega einfalt er að tengja sögu þeirra á einn eða annan hátt við aðrar þjóðir. Skoðum örfáar staðreyndir um guðshúsin sem hægt er að nota til að búa til bragðmikinn kokteil fyrir þyrsta ferðamenn: Óvenjulegt byggingarlag Kaupangskirkju og tenging við kaþólskan sið. Munkþverárkirkja, Jón Arason og Sturlunga. Merkilegt klukknaport við Möðruvallakirkju og altarisbrík frá Notthingham í Englandi. Hólakirkja helguð Jóhannesi skírara og tenging við eitt ljótasta glæpamál á Íslandi á 17. öld. Saurbæjarkirkja er ein örfárra torfkirkna á landinu og þar var klaustur í kringum árið 1200. Grundarkirkja, Magnús Sigurðsson og Þórunn Jónsdóttir (Arasonar). Hér mætti telja upp mikið mun meira í sambandi við kirkjurnar sex. Við skulum þó láta hér staðar numið en nefnum vettvang nokkurra sögulegra atburða í sveitinni til viðbótar sem hafa alla burði til að vekja athygli erlendra ferðamanna: Kálfagerði og morðsaga bræðranna, Gnúpufell og prentsmiðjan á 16. öld, Melgerðismelar og saga hernámsliðsins, Möðrufell og holdsveikraspítalinn, Espihóll og saga Jóns Espólín sagnaritara, Kristnes og berklahælið. Til að krydda sannleikann má notast við krydd úr heimabyggð sem útlendingar elska – þjóðsögurnar um Hleiðargarðsskottu og álfkonuna í Konuklöpp sunnan Kristness. En það er ekki bara sagan sem heillar. Menningin er aðdráttarafl og hún blómstrar í Eyjafjarðarsveit. Jólagarðurinn, smámunasafnið, Helgi og Beate með eldsmíðina í Kristnesi og fjölmargir aðrir handverksaðilar og gallerý svo eitthvað sé nefnt.  Hér hafa ekki verið nefnd til sögunnar öll þau tækifæri sem náttúran og landslagið bjóða upp á í formi fræðslu og upplifunar; fjöllin, jarðsagan, Hólavatn, Leyningshólar, jarðhiti, Möðrufellshraun. Já, ljóst er að Eyjafjarðarhringurinn er vannýtt auðlind. Samgöngur eru greiðar í Eyjafjarðarsveit, hringurinn er auðveldur yfirferðar og allt sem að ofan er nefnt er í seilingarfjarlægð frá veginum. Þannig er einfalt að sníða umfang ferðalagsins eftir þörfum ferðamannsins. Hægt er að fara hringinn á broti úr degi með því að stoppa lítið sem ekkert og leyfa ferðamanninum að njóta gegnum bílrúðuna undir styrkri stjórn leiðsögumanns. Einnig er hægt að fara hringinn á nokkrum klukkustundum með því að staldra við á nokkrum stöðum m.a. til að gæða sér á veitingum úr heimabyggð. Lambalærið á Öngulsstöðum og ísinn í Holtsseli svíkja engan. Brettum upp ermar og kynnum gersemar Eyjafjarðarsveitar fyrir erlendum ferðamönnum. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær starfsfólk Amtsbókasafnsins. Á undanförnum árum hefur starfsfólk safnsins náð að breyta annars góðu bókasafni í einstaklega lifandi og skemmtilegan stað til að heimsækja. Stöðnun er ekki til í orðabók safnsins, þvert á móti er hugmyndaauðgi starfsmanna til fyrirmyndar. Safnið er í mikilli sókn sem beinist að því að vekja á sér athygli í því skyni að fá fólk á staðinn. Það hefur svo sannarlega tekist vegna góðra hugmynda sem starfsfólkið kemur í framkvæmd; lifandi heimasíða, athyglisverðar sýningar í anddyrinu, sala á notuðum bókum, skemmtileg kvikmyndaþemu, sniðugar sögustundir og þannig mætti lengi telja. Allt þetta bætist við góðan bókakost, vingjarnlegt viðmót og möguleika á hressandi kaffibolla í næsta nágrenni safnsins. Það merkilega er að þrátt fyrir iðandi líf á safninu er samt alltaf svo notalegt andrúmsloft sem mætir manni þegar maður kemur á Amtsbókasafnið á Akureyri.

Af hverju ekki?

Af hverju setjum við ekki á fót fjölmiðlasamsteypu sem borin verður uppi af duglegum og skapandi grunnskólanemum á Akureyri? Kennarar og aðrir sem starfa með börnum eru sífellt að leita leiða við að láta dvölina í skólanum endurspegla sem mest hið daglega líf utan veggja skólans. Raunveruleg og áhugaverð viðfangsefni eins og blaðaútgáfa, útvarpsrekstur, netmiðlar og sjónvarpsþáttagerð gætu skilað þeim árangri sem við erum að stefna að. En er pláss á fjölmiðlamarkaðnum? Við vitum það ekki fyrr en við látum á það reyna. Ekki eru fordæmi fyrir uppátæki sem þessu á Íslandi og þótt víðar væri leitað og því erfitt að sjá samkeppni sem rök fyrir því að leggja ekki af stað. Er áhugi á því sem grunnskólanemendur hafa fram að færa? Með jafn stóru verkefni og hér um ræðir, með tilheyrandi metnaði og vinnuframlagi barnanna okkar, má alveg reikna með góðum undirtektum í heimabyggð. Hér yrði um ákveðna frumkvöðlastarfsemi að ræða af hálfu skólayfirvalda í bænum. Tækifæri þeirra til að glæða lífi í fögur orð á pappír. Tækifæri til að vera leiðandi í innleiðingu á nýjum og breyttum vinnubrögðum í skólunum og vera þannig í fararbroddi bæjarfélaga sem kenna sig við öflugt skólaþróunarstarf. Hvað erum við að tala um? Hér er tvennt sem liggur til grundvallar. Annars vegar nám og kennsla, hins vegar skemmtun og afþreying. Eru þessir þættir ekki allir til staðar nú þegar í skólunum? Jú, svo sannarlega eru grunnskólarnir að vinna frábært starf hvern einasta dag. Fjölmargir starfsmenn skólanna reyna eftir bestu getu að stuðla að skapandi starfi og merkingarbæru námi. En betur má ef duga skal. Jafnvel fyrir hugmyndaríka, duglega og framkvæmdaglaða kennara er erfitt að berjast gegn kerfinu, rammanum, íhaldsseminni, peningaskortinum, þægindarammanum, launakjörunum og öllu hinu sem mögulega kemur í veg fyrir að framúrstefnulegar hugmyndir komist í framkvæmd. Þetta er gömul og ný saga. Þetta hefur alltaf verið svona. Þetta er náttúrulögmál. Eigum við ekki bara að spara okkur ómakið, hætta þessari útópíuhugsun og halda okkur við bækurnar, 40 mínútna kennslustundirnar og töflukennslu? Eða eigum við að hætta að tala um skólabæinn Akureyri á tyllidögum og stuðla að raunverulega merkingarbæru námi? Láta verkin tala? Framkvæma? Þorum við að taka næsta skref sem við munum óhjákvæmilega þurfa að taka einhvern tímann á nýrri öld? Vissulega má færa rök fyrir því að núverandi skólaumhverfi mæti þessum þörfum að einhverju leyti. Sagan mun þó kveða upp sinn dóm hvað sem tautar og raular og hvort sem menn telja vel að verki staðið í dag eða ekki. Hvort komandi kynslóðir muni þá taka undir með þeim sem telja grunnskólana halda í við eðlilega þróun skal ósagt látið. En hvernig á fjölmiðlasamsteypa á vegum grunnskólanna að leysa vandann? Hún leysir auðvitað ekki vandann frekar en önnur einstök viðfangsefni. Hún getur þó hugsanlega lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Skoðum hugmyndina hráa og án allrar fitu og aukaefna. Skólayfirvöld á Akureyri útvega fjármagn til að hefja rekstur á fjölmiðlasamsteypu sem grunnskólarnir hafa veg og vanda að. Allir grunnskólar á Akureyri eiga aðild að rekstrinum og þannig dreifist vinnuframlagið. Margar hendur vinna létt verk! Skólayfirvöld leggja til húsnæði og tæki sem skólarnir nýta í sameiningu utan þess sem nemendur vinna hver í sínu lagi í sínum skóla með þeim búnaði og aðstöðu sem þar er fyrir. Nemendur hvers skóla vinna saman og með nemendum annarra skóla að vissum verkefnum og nýta þá reynslu og kunnáttu sem byggst hefur upp á síðustu árum með tölvuvæðingu skólanna. Jæja, við skulum staldra aðeins við hér. Hver er svo ávinningurinn því ljóst er að tilkostnaðurinn er ærinn? Skoðum nokkur dæmi um lykilatriði í menntun á 21. öldinni: Lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, sköpun, tjáningarfrelsi, upplýsingamiðlun, stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi. Áfram með upptalninguna: Sjálfstæð vinnubrögð, ritun, framsögn, ábyrgð, samskipti,vandvirkni og gagnrýnin hugsun. Allt eru þetta hlutir sem kennarar reyna daglega að kenna, kynna, segja frá og draga fram í fari nemenda með misjöfnum árangri. Heppileg leið fyrir kennara að innræta börnum öll þessi góðu gildi er í gegnum raunveruleg viðfangsefni sem hafa tilgang í þeirra augum – verkefni sem nemendur sjá hag sinn í að leysa af metnaði. Nemendur þurfa að sjá raunverulegan tilgang með því sem þeir eru látnir gera. Þannig læra þeir, þannig efla þeir með sér löngun til að taka framförum, þannig sjá þeir tilganginn í því sem þeir eru að gera. Þetta sést best í skólunum þá daga sem eitthvað stendur til og hefðbundið skólastarf er brotið upp. Allir vinna saman að sameiginlegu markmiði þar sem samkomulag ríkir um að gera hlutina eins vel og mögulegt er. Fjölmiðlasamsteypa grunnskólanna á Akureyri mun ýta undir vönduð vinnubrögð hvort sem um er að ræða textagerð, framsögn eða meðferð heimilda. Hún mun vekja upp hugleiðingar um sjálfsögð mannréttindi svo sem tjáningarfrelsi og lýðræði. Hún mun stuðla að skapandi og sjálfstæðum vinnubrögðum auk þess sem hún mun auka ábyrgðarkennd og gagnrýna hugsun. Viðskipta og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær Steven Coberly. Steven er raungreinakennari í Bandaríkjunum og óhætt að segja að hann sé í hópi svokallaðra Íslandsvina. Steven hefur sérstakt dálæti á Akureyri en hann hefur heimsótt bæinn reglulega frá árinu 2001, ýmist með skólahópa eða á eigin vegum. Steven hefur dvalið á Akureyri undanfarna daga ásamt 18 unglinum sem hann kennir í Latin School í Chicago. Í ferðum sínum með nemendum kynnir Steven sögu og menningu Akureyrar og nágrannabyggðarlaga á þann hátt að erfitt væri fyrir heimamann að skáka honum. Slíkur er áhuginn og ástríðan. Meðal þess sem krakkarnir upplifðu í síðustu fyrir hans tilstuðlan var ferð í jólahúsið í Eyjafjarðarsveit, útreiðartúr með Pólarhestum og ekta íslenskt matarboð í heimahúsi. Erfitt er að finna einstakling sem kynnir sögu og menningu Eyjafjarðar jafn mikið og Steven Coberly hvort sem það er á ferðum hans hér með nemendum eða í góðra vina hópi heima í Chicago.

Af hverju ekki?

Af hverju nýta Ólafsfirðingar sér ekki kosti Ólafsfjarðarvatns til eflingar menningartengdrar ferðamennsku á sumrin? Ólafsfjörður er fallegur staður en má vissulega muna fífil sinn fegurri. Síldin er farin, Leiftur er fallinn og Kristinn hættur að skíða. Á meðan nágrannarnir á Siglufirði hafa staðið að uppbyggingu á menningartengdri ferðamennsku undanfarin ár, og sér ekki fyrir endann á því, hafa Ólafsfirðingar að nokkru leyti setið eftir. Með sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar árið 2006 og tilkomu Héðinsfjarðarganganna árið 2010 hefði mátt ætla að staðirnir tveir fylgdust að. Eða hvað? Hvað sem því líður skulum við skoða hvaða tækifæri felast í Ólafsfjarðarvatni. Alltaf má finna eitthvað til að efla menningu í heimabyggð sem byggja má á óháð fjárhagslegri stöðu. Eins og víðar í Eyjafirði er náttúran eitt helsta aðdráttarafl Ólafsfjarðar. Hún er nú þegar til staðar og ekki þarf að taka lán fyrir henni. Náttúran myndar þannig grunn sem hægt er að byggja á. Heimamenn meta svo í framhaldinu hversu miklum fjármunum þeir vilja og geta varið til að byggja á þessum grunni. Eitt af því sem einkennir Ólafsfjörð er Ólafsfjarðarvatn. Vatnið er um 2,5 ferkílómetrar að stærð, u.þ.b. 3,5 km að lengd og 1 km á breidd. Sérstaða Ólafsfjarðarvatns felst í nálægð þess við sjó en í Vatninu má finna sjófiska svo sem þorsk, ufsa og kola. Svo mjög þótti Frökkum þetta merkilegt að þeir sendu herskip til Ólafsfjarðar með hóp franskra vísindamanna árið 1891 til að rannsaka Vatnið. Voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í virtu frönsku vísindariti. Vatnið er fallegt og setur sterkan svip á bæjarstæðið. Frá því er fjallasýnin tignarleg í austur- jafnt sem vesturátt. Dæmi um afþreyingu sem þarf ekki að vera svo kostnaðarsöm og flókin í framkvæmd er sigling á Vatninu. Hér er ekkert nýtt undir sólinni. Ólafsfirðingar hafa lengi siglt á Vatninu. En væri kannski hægt að gera meira úr því t.d. með því að bjóða upp á ólíka upplifun og með mismunandi markmið í huga? Gúmmíbátar, árabátar, spíttbátar, sæsleðar, sjóskíði o.s.frv. Veiði, adrenalín, sögukennsla, náttúruupplifun o.s.frv. Svo getum við leikið okkur með möguleikana ef fjármagn fæst. Hér erum við farin að tala um flotta bryggju þar sem fleyin stór og smá verða gerð út. Við erum að tala um komu sjóflugvéla á Vatnið. Við erum að tala um veitingastað við Vatnið sem byggir á fersku hráefni úr heimabyggð, með áherslu á fiskmeti úr Ólafsfjarðarvatni. Við erum að tala um kaffihús við Vatnið með frönsku ívafi þar sem tengingunni við frönsku vísindamennina er haldið á lofti. Síðast en ekki síst erum við að tala um hótelbyggingu við Vatnið til að anna eftirspurn forvitinna ferðamanna. Þannig mun þungamiðja bæjarins færast með tíð og tíma að þeim stað við Ólafsfjarðarvatn þar sem menningin í bænum blómstrar – þar sem hjartað slær. Þaðan á bærinn kost á því að stækka í fjarlægri framtíð í suðurátt meðfram Ólafsfjarðarvegi eystri. Hver veit nema Frakkar sendi þá leiðangur til Ólafsfjarðar til að rannsaka áhrif stöðuvatns á menningu? Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fá Hríseyingar. Hrísey er eins og smækkuð mynd af Íslandi. Eyjarskeggjar þurfa að treysta á eigin sköpunarmátt til að menningin í eyjunni blómstri. Einn af mörgum menningarviðburðum í Hríesy er svokallaður grautardagur. Grautardagur er með nokkurra vikna eða mánaða millibili en dagurinn var haldinn hátíðlegur síðastliðinn laugardag. Hríseyingar koma saman í Hlein, húsnæði aldraðra og gera sér glaðan dag. Þeir gæða sér á graut og slátri, skrafa og leysa heimsins vandamál. Skemmtilegt frumkvæði sem Hríseyingar sýna til að efla menningu heimabyggðar.

Af hverju ekki?

Af hverju eflum við ekki tengslin við vini okkar í Murmansk í Rússlandi? Er Murmansk einungis vinabær Akureyrar að nafninu til? Til hvers eru þessir vinabæir eiginlega? Já ég veit,  kannski er eitthvað að gerast á bak við tjöldin sem hinn venjulegi Akureyringur veit ekki um. Kannski hafa útgerðarmenn í Murmansk keypt gamla togara frá Samherja? Kannski hafa bæjaryfirvöld á Akureyri farið í opinbera heimsókn til Murmansk? En það er allavega ekki margt í umhverfinu sem minnir okkur á vináttutengslin við Murmansk og aðra vinabæi okkar vítt og breytt um heiminn. Maður er reglulega minntur á sambandið við Randers í Danmörku með komu jólatrésins í desember ár hvert. Einhver samskipti hefur bærinn okkar átt við Álasund, vinabæinn í Noregi og þá tryggir saga vesturfaranna eilíft samband við Gimli, vinabæ okkar í Kanada. Í Svíþjóð er það Västerås og einhvern veginn finnst manni að það hljóti að vera til einhverjar bókanir í fundargerðum fyrri ára um eflingu tengsla þar á milli. Þó ekki sé nema vegna landfræðilegra og menningarlegra tengsla landanna. Þá er nú ekki langt í enn einn vinabæinn sem einnig er á Norðurlöndum. Lahti heitir hann og er í Finnlandi. En við eigum líka vinabæi sem eru lengra í burtu en standa okkur samt svo nærri menningarlega og  tilfinningalega? Bæir sem tengjast sögu Akureyrar órjúfanlegum böndum og hafa margsinnis reynst okkur vel á erfiðum tímum? Þetta eru vinabæir okkar í Tyrklandi og Rússlandi; Çe?me og Murmansk. Ekki þarf að eyða mörgum orðum um vináttutengsl okkar við íbúa Çe?me, þau eru augljós! Höldum aðeins áfram með Murmansk. Við vitum alveg af hverju Murmanskar ættu að sækja okkur heim, sérstaklega á þessum árstíma. Kuldi, brennivín og mottumars. Þar með er það afgreitt. Hvað eigum við svo að sækja til Murmansk? Getur það gagnast okkur að í Murmansk búa rúmlega 300.000 manneskjur? Já, án efa. Hjálpar okkur að  í Murmansk er heimahöfn eina flota kjarnorkuknúinna ísbrjóta í öllum heiminum? Ekki gott að segja. Kemur það okkur til góða að vera vinabær borgar sem er með 86 grunnskóla og 56 framhaldsskóla? Svari hver fyrir sig. Auk alls þessa er staðarblað, sædýrasafn og öflugur bandýklúbbur í Murmansk. Ef við viljum efla tengslin, hvar eigum við þá að byrja? Hvað með að hefja samstarf knattspyrnudeilda Þórs og KA við FC Sever Murmansk en svo heitir knattspyrnufélag borgarinnar? Liðið spilar í 2. deild í Rússlandi. Mætti ekki senda leikmenn héðan til reynslu í Murmansk og öfugt? Jú, jú einhverjir myndu eflaust fá menningarsjokk. En til hvers eru vinir ef ekki til að hjálpa þeim sem á stuðningi þurfa að halda við að aðlagast breyttum aðstæðum? Að einhverju leyti yrðu viðbrigðin þó hverfandi. Þannig þyrftu leikmenn FC Sever Murmansk og Þórs og KA ekki að láta veðurfarið á hinum nýja heimavelli koma sér svo mjög á óvart. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral vikunnar fær Akureyri-vikublað. Blaðið hefur frá því í nóvember 2011 birt reglulega greinar eftir grunnskólanemendur á Akureyri, ýmist í blaðinu sjálfu, netútgáfu eða hvoru tveggja. Greinarnar eru orðnar tæplega tuttugu talsins og hafa vakið nokkra athygli. Ekki hefur tíðkast að rödd unglinga heyrist með þessum hætti í fjölmiðlum. Því gætti ákveðins óöryggis við upphaf vegferðarinnar. Nú, rúmu ári síðar, hafa greinaskrif grunnskólanemenda vonandi fest sig í sessi og eðli málsins samkvæmt á Akureyri-vikublað stóran þátt í því. Krakkarnir hafa öðlast sjálfstraust og sjá að þeir eiga erindi inn á þennan vettvang ekki síður en þeir sem eldri eru. Með framtaki sínu hefur Akureyri-vikublað opnað leið fyrir unga fólkið til að koma skoðunum sínum á framfæri og þannig lagt sitt af mörkum við að efla menningu heimabyggðar.