main image

Af hverju ekki?

Af hverju bjóðum við ekki upp á kaffihús á Akureyri þar sem nemendur koma saman til að læra? Akureyri er örugglega einn flottasti skólabær landsins. Öll lífsins gæði og allt það. Við höfum ekki enn rekist á þann leikskóla í bænum sem ekki hefur öfluga skólastefnu, grunnskóla sem er ekki með a.m.k. eitt skólaþróunarverkefni í gangi og í framhaldsskólanum er deigla sem við heyrum alltof lítið af. Við getum stutt við skólabraginn í bænum okkar á margvíslegan hátt. Hugmyndin er sú að búa til miðpunkt. Við vitum að sumir framhaldsskólanemar sjá hag sinn í að læra á kaffihúsi. Flestum grunnskólanemum finnst notalegast að læra við eldhúsborðið. Háskólanemum finnst ómissandi að fá kaffisopann sinn á löngum dögum. Þarna er óplægður akur. Mannauðshaf. Af hverju ekki lexíukaffihús á Akureyri? Staður þar sem nemendur í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla koma saman til að læra. Á staðnum yrði góð kaffivél og lítill djúsbar. Vinalegt starfsfólk og gestir skapa í sameiningu stemningu fyrir námi, hópavinnu, aukatímum og eflingu. Eldri nemendur aðstoða yngri nemendur. Nemendur sækja aukatíma til háskólanema. Stór auglýsingatafla með alls konar hagnýtum upplýsingum fyrir leitandi námsmenn. Vettvangur fyrir unga tónlistarmenn til að buska svolítið. Ljóðskáld framtíðarinnar troða upp. Örfyrirlestrar um allt milli himins og jarðar. Frítt net en lokað á niðurhal. Opið frá 11 til 20 alla virka daga. Rauði krossinn hefur boðið upp á heimanámsaðstoð fyrir unglinga á höfuðborgarsvæðinu með dyggri aðstoð sjálfboðaliða. Sú góða hugmynd er hér færð nokkuð í stílinn. Hugsunin er sú sama. Að hjálpa hvert öðru að styðja við skólabæinn Akureyri á skemmtilegan og lifandi hátt. Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?

Æskuslóðirnar mínar

Í vinnslu

Gral vikunnar

Grenndargralið kastar út litlum kaleikum og hrósar vikulega einstaklingum eða hópum sem sett hafa mark sitt á nærumhverfið með einum eða öðrum hætti. Hér reynum við að draga fram í sviðsljósið hvunndagshetjur sem efla menningu heimabyggðar með framlagi sínu,  hversu stórt eða lítið sem það kann að vera.

Gral nýafstaðinnar viku fær Atli Már Rúnarsson. Atla er margt til lista lagt. Fyrir utan að vera liðtækur knattspyrnu- og handboltamaður með Þór á árum áður er Atli tónlistarmaður af Guðs náð. Hann er trommuleikari hinnar eyfirsku rokk-, pönk- og þjóðlagasveitar Helgi og hljóðfæraleikararnir. Atli er þessa dagana að senda frá sér eigin lagasmíðar þar sem hann spilar sjálfur undir á öll hljóðfæri. Textarnir eru eftir afa Atla, Pétur Geir Helgason. Flott framtak hjá Atla. Lögin má heyra á www.youtube.com. Hér að neðan má heyra eitt af lögunum sem Atli sendi frá sér í liðinni viku.