main image

Fyrir 100 árum síðan!

Fyrir 100 árum ræddu Akureyringar um mikilvægi þess að fá vatnsleiðslu í bæinn svo tryggja mætti aðgengi bæjarbúa að hreinu vatni. Í Norðra birtist grein þann 22. febrúar 1913 undir nafninu Vatnsleiðslumálið. Þar gagnrýnir greinarhöfundur fyrirhuguð áform bæjaryfirvalda að sækja vatn til Vaðlaheiðar, telur ekki tryggt að um nægilegt magn vatns sé að ræða auk þess sem ekki sé búið að rannsaka gæði þess. Í staðinn stingur hann upp á Glerá. Undir greinina skrifar Vald. Steffensen.

 

„Mér er alveg sama hvaðan gott vatn kemur og eg býst við að við séum allir sammála um það; en eg get eigi leynt því, að mér er óskiljanlegt hversvegna enginn lítur við Glerá. – Þar er nóg vatn og sennilega jafn gerilssneytt og í heiðinni; Jafnvel svo að notast má við afaródýra síu, og mun hægra að leiða það ofan í bæinn; enn má þar hafa raflýsingu í sambandi við vatnið. Eg hefi átt tal um þetta við marga mæta menn og fróða í þessum efnum þar á meðal Guðmund landlækni Björnsson. Var hann eindregið á því, að Glerá væri bezta vatnsbólið. Því er eigi fenginn  sérfræðingur í þessari grein, sem látinn er gjöra allar rannsóknir, sem gjöra skal, þegar um vatnsveitu er að ræða? Fyr verður ekkert úr þesskonar framkvæmdum hjá oss nema kákið eitt. Reynslan er búin að sýna það og sanna! Það margborgar sig að bíða hálfu til heilu ári lengur og hafa þá tryggingu fyrir að nú sé bæði nóg og gott vafn fengið. Engum væri það meira gleðiefni en okkur læknunum, að vatn væri svo sem æskilegt væri hér; því að mikið af sjúkdómum hér, á að meiru eða minna leyti, rót sína í vatnsskorti og ræsaleysi. Má þar til sérstaklega nefna taugaveiki. Hún mundi að mestu hverfa þegar vatnsleiðslan væri komin i lag. En borgarar þessa bæjar, sem gjöldin af vatnsleiðslunni eiga að greiða, hafa heimtingu á því að trygging sé næg fyrir því að vatnið verði nægilegt bæði til innan og utan húss þarfa, og svo til þess að slökkva eld, sem hér er helzt of tíður. Fyrir þessu er engin trygging enn og eg trúi því ekki fyr en eg tek á aðAkureyrarbúar láti leiða sig í gönur í vatnsleiðslumálinu enn.“

 

Norðri 8. árg. 1913, 5. tölublað (22.02.1913), blaðsíða 17