Af hverju ekki?
Af hverju notum við ekki innbæinn sem tímavél á sumrin? Hvernig? Jú, við hverfum 100-200 ár eða svo aftur í tímann. Við klæðum innbæinn í sín upprunalegu klæði eins og mögulegt er og keyrum með farþegana af skemmtiferðaskipunum um hinn forna „danska“ bæ áður en þeir halda áfram austur yfir heiðar. Allt í lagi. Byrjum á byrjuninni. Innbærinn er elsti hluti bæjarins. Þar höfðu dönsku kaupmennirnir bækistöðvar og þar var tenging Akureyringa við Kaupmannahöfn þegar dönsku kaupskipin komu með farm – sjálf lífæðin. Þessa sögu þekkja allir. En er þetta aðeins saga liðins tíma og genginna manna? Ekki endilega. Við höfum nú þegar tekið eitt hænuskref í þessa átt. Í ágúst á síðasta ári var svokallaður danskur sunnudagur. Danskir fánar blöktu við hún og gestum og gangandi var boðið í garðveislu. Þetta tók fjórar klukkustundir. Hvað með að lengja danska sunnudaginn í nokkrar vikur og jafnvel lungann úr sumrinu? Við afmörkum danska bæinn t.d. frá skautahöllinni í suðri að Samkomuhúsinu í norðri. Við einbeitum okkur að gömlu timburhúsunum á svæðinu, Nonnahúsi, Gudmanns Minde, Laxdalshúsi og fleiri slíkum byggingum auk íbúðarhúsanna í eigu einstaklinga. Gudmanns Minde hýsir sýningu að einhverju tagi og Laxdalshús verður notað sem verslun þar sem danskir kaupmenn selja ferðamönnunum ullarpeysur, roðskó og harðfisk. Nonnahús heldur sínu hlutverki. Minjasafnið verður stjórnstöð tímavélarinnar, hjartað í danska bænum. Um verður að ræða samstarf íbúa og eigenda lóða og fasteigna í Aðalstræti og Hafnarstræti annars vegar og bæjaryfirvalda hins vegar. Hvað eigum við svo að gera? Fólk klæðist fatnaði 19. aldar, slær upp garðveislum, útimarkaðir á götunum, danska fánanum flaggað sem víðast, Hestakerra, minjagripasala í Hoepfnershúsi, handverksmenn, börn að leik, gamaldags guðsþjónusta í Minjasafnskirkjunni. Listinn er ekki tæmandi. Við smíðum eftirlíkingu í fullri stærð af einu kaupskipanna sem
sigldi með vörur milli Akureyrar og Kaupmannahafnar á 19. öld. Til dæmis Herthu en það var í eigu danska kaupmannsins Gudmann og sigldi þessa leið í meira en 50 ár. Við leggjum það við Höepfners-bryggju og notum það sem veitingahús þar sem boðið verður upp á danska smárétti í bland við íslenskan og þjóðlegan mat. Seljum hugmyndina til Danmerkur: Danskur 19. aldar bær á norðanverðu Íslandi. Þannig rennum við frekari stoðum undir reglulegar ferðir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar rétt eins og þegar Hertha var og hét. Nema hvað, núna veljum við flugleiðina! Viðskipta- og menningarhugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd