Af hverju ekki?

Af hverju bjóðum við ekki listhneigðum Eyfirðingum, sem eiga af einhverjum ástæðum erfitt með að koma sér á framfæri, að troða upp endurgjaldslaust í Hofi? Er ekki Hof hús okkar allra óháð kynþætti, kynferði, trúarbrögðum (og aðgengi að fjármagni)? Skiljanlega verða peningar að ráða för í þessum rekstri eins og öðrum en er ekki hægt að búa þannig um hnútana að allir sitji við sama borð, ja svona eins og eitt kvöld í mánuði? Skapa aðstæður fyrir óuppgötvaðar eyfirskar stjörnur með ótvíræða listhæfileika sem hafa ekki yfir miklu kapítali að ráða, tilheyra ekki ákveðnum hópum innan listasamfélagsins og öðlast fá tækifæri til að freista gæfunnar á stóra sviðinu? Hver veit nema í einhverjum bílskúrnum á Brekkunni leynist önnur Of Monsters And Men? Já eða annar Ásgeir Trausti í lítilli þakíbúð í Þorpinu? Við eigum að nota hið mikla Hof okkar á sem fjölbreyttastan hátt og í þágu eins margra og mögulegt er. Bygging þess var umdeild á sínum tíma. Almenningur (sem á húsið) þarf að finna að hann eigi hlutdeild í því. Kannski gerir hann það. Kannski ekki. Í það minnsta getum við stuðlað að slíkri hlutdeild með ýmsum hætti. Opnum Hofið meira fyrir þá sem hafa yfir litlu fjármagni að ráða en þeim mun meira af hlutum eins og tónlist, leiklist, myndlist og ljóðalestri. Þetta tvennt, þ.e. list og peningar, geta sjálfsagt farið ágætlega saman en eigum við ekki að nota tækin og tólin sem við búum yfir og styðja „týnda“ hæfileikafólkið okkar?  Við sláum tvær flugur í einu höggi. Við bjóðum líka þeim sem vilja koma í Hof til að njóta að gera það án endurgjalds. Viðleitni í þá átt er vissulega til staðar nú þegar. Má þar t.d. nefna Gesti út um allt með Margréti Blöndal og Felix Bergssyni þar sem gestum og gangandi er boðið að njóta dagskrárinnar án þess að greiða fyrir. Hugmyndin um greiðara aðgengi lítt þekktra listamanna úr heimabyggð er hugsuð sem viðbót við það sem þegar er í boði. Frír fimmtudagur, Stjörnuleit í heimabyggð eða einfaldlega Opið hús í Hofi. Minni peningar, meiri list. Hverjir eiga svo að nýta sér tækifærið og troða upp fyrsta fimmtudag í mánuði?  Áhugaleikfélög í heimabyggð sem og leikklúbbar framhalds- og grunnskólanna. Bílskúrsbönd, söngvarar og aðrir tónlistarmenn. Upprennandi myndlistarmenn, rithöfundar og ljóðskáld. Fleiri má nefna en látum hér staðar numið. Peningalega arðbær viðskiptahugmynd á krepputímum? Kannski ekki.  Menningarlegur ávinningur er í boði ef hann er einhvers virði. Þess virði að láta á þetta reyna? Af hverju ekki?

Engar athugasemdir »

Skrifa athugasemd