Af hverju ekki?
Af hverju komum við ekki Akureyri á kortið með hjálp Jóns Sveinssonar? Áttar yngri kynslóðin sig á því hvað Nonni var frægur í Evrópu og víðar á fyrri hluta 20. aldar? Kannski er eldri kynslóðin farin að gleyma. Hefur Arnaldur Indriðason ekki selt yfir sex milljónir eintaka og bækur hans verið þýddar á tugi tungumála? Bækur Nonna hafa verið gefnar út í milljónum eintaka og verið þýddar á yfir 30 tungumál. Við erum allavega ekkert að bera saman epli og appelsínur. Í ár eru liðin 100 ár frá því að fyrsta bókin hans Nonna (Nonni) kom út í Þýskalandi. Það er fullt af öldnum Þjóðverjum sem elska Nonna. Hey, hér er hugmynd. Við heiðrum minningu Nonna og bjóðum upp á pílagrímsför á norðurhjara veraldar. Auglýsum grimmt erlendis. Yfirskriftin: Riðið um heimahaga Nonna (þýsk þýðing óskast). Markhópurinn: Þýskir aðdáendur á eftirlaunum og aðrir áhugasamir. Svona förum við að: Við keyrum ferðamennina frá Akureyri að Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem förin hefst. Þar tekur Nonni sjálfur á móti þeim ásamt öðrum meðlimum fjölskyldunnar. Sveinn og Sigríður bjóða upp á hressingu að hætti hússins auk þess sem ferðamennirnir fá klæðnað við hæfi, íslenska ullarpeysu, sok
ka og annað í þeim dúr (séra Hannes Blandon yrði flottur sem Sveinn Þórarinsson með alla sína leikreynslu og þýskukunnáttu). Því næst stíga allir á bak, þýskir ferðalangar og heimilisfólk á bænum og ríða til Akureyrar þar sem vegleg akureyrsk garðveisla í anda 19. aldar bíður þreyttra ferðalanganna við Nonnahús. Ekki verður það til að draga úr áhuga Þjóðverjanna þegar þeir átta sig á að pakkinn sameinar Nonna og íslenska hestinn og tækifæri til að sjá og upplifa hvoru tveggja á vettvangi. Þegar þarna er komið sögu deyr Sveinn. Eftir hressilegt „garden party“ gengur svo Nonni með hópinn upp höfðann ofan við Nonnahús og inn í kirkjugarðinn þar sem Nonni fer að leiði föður síns. Þaðan leiðir hann hópinn að
steininum fræga þar sem hann horfir yfir Pollinn og hugsar um útlönd og fyrirhugaðan aðskilnað frá móður sinni. Að lokum fer hópurinn niður að höfn þar sem árabátur bíður þess að flytja Nonna um borð í skip sem flytur hann í burtu frá heimahögunum. Sigríður horfir á eftir syninum í hinsta sinn. Upplifun ferðalanganna er lokið. Eftir stendur virðingarvottur við Nonna og fjölskyldu hans, krydd í tilveruna og fullt af gjaldeyri. Viðskiptahugmynd á krepputímum? Af hverju ekki?
Engar athugasemdir »
Skrifa athugasemd