Fyrir 100 árum síðan!
Þann 23. janúar 1913 birtist í dagblaðinu Norðurland, sem gefið var út á Akureyri, grein eftir Steingrím Matthíasson lækni. Greinin birtist undir sérstökum lið í blaðinu sem kallast Heilsa og langlífi. Steingrímur gerir móðurmjólkina að umtalsefni sínu en hann vitnar í danska heilsutímaritið Ugeskrift for Læger. Mjólkin lét víst eitthvað standa á sér fyrir 100 árum en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi eins og greinin ber með sér!
Já, svona var lífið í heimabyggð fyrir 100 árum síðan!
„Eins og tekið var fram í síðustu grein, (í ,Gjh.’) er enginn vafi að móðurmjólkin er langhollasta fæðan handa ungbörnum. Á seinni árum hefir það kveðið við í öllum löndum, að konur gætu ekki haft börnin á brjósti vegna mjólkurleysis, og margir lærðir vísindamenn hafa verið á sama máli um, að konur væru yfirleitt að geldast í öllum siðuðum löndum. Nýjustu rannsóknir virðast þó benda á að þetta sé nokkuð orðum aukið, og að konur muni yfirleitt mjólka eins vel nú og áður, ef góður vilji er með, og sýnd er alúð við að leggja barnið að brjóstinu og gefast ekki upp við fyrstu tilraunir.“
Norðurland 1913, 1. tölublað (23.01.1913), blaðsíða 2